Fara beint í efnið

Útlendingastofnun getur ákveðið að hefja brottvísunarmál að eigin frumkvæði vegna upplýsinga um sakaferil eða annarra upplýsinga um dvöl útlendings hér á landi. Einnig getur Útlendingastofnun ákveðið að hefja slíkt mál að beiðni lögreglu.

Tilkynning um hugsanlega brottvísun

Þegar Útlendingastofnun ákveður að hefja brottvísunarmál er útlendingi birt bréf með formlegum hætti um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Í bréfinu er viðkomandi skýrt frá því á hvaða grundvelli hugsanleg brottvísun sé til skoðunar og viðkomandi gefið tækifæri til þess að leggja fram andmæli gegn efni bréfsins innan ákveðins frests.

Ef viðkomandi ákveður að leggja ekki fram greinargerð eða önnur andmæli í málinu eða gerir það ekki innan þess frests sem tilkynnt var um tekur stofnunin ákvörðun um brottvísun og endurkomubann á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um dvöl útlendings hér á landi. Sé greinargerð hins vegar lögð fram kemur hún til álita við ákvörðun um brottvísun og er efni hennar metið með hliðsjón af sjónarmiðum sem takmarkað geta heimild til brottvísunar. Aðstæður eru metnar sérstaklega í hverju og einu máli fyrir sig.

Hætt við brottvísun

Ákveði Útlendingastofnun að hætta við hugsanlega brottvísun og endurkomubann fær viðkomandi tilkynningu um að hætt hafi verið við brottvísun að sinni með fyrirvara um að slíkt mál verði hafið að nýju ef tilefni er til.

Ákvörðun um brottvísun

Ef Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að brottvísa skuli útlendingi og ákvarða honum endurkomubann er viðkomandi birt ákvörðunin með formlegum hætti. Sé viðkomandi í afplánun sér varðstjóri um birtingu ákvörðunar en annars sér lögreglan um hana. Við birtingu skal viðkomandi taka fram hvort hann uni ákvörðun eða kæri ákvörðun til kærunefndar útlendingamála. Viðkomandi er jafnframt gefinn frestur til að ákveða innan 15 daga hvort hann vilji kæra ákvörðunina.  

Kæruheimild og frestun réttaráhrifa

Samkvæmt útlendingalögum er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að ákvörðunin var birt fyrir viðkomandi.

Það fer eftir atvikum hvort kæra fresti réttaráhrifum eða ekki, en frestun réttaráhrifa felur í sér að ákvörðun skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en ákvörðun í málinu er orðin endanleg.

Ákvörðun um brottvísun er endanleg í eftirfarandi tilvikum

  • Viðkomandi unir ákvörðun.

  • Viðkomandi kærir ákvörðun og kæra frestar ekki réttaráhrifum

  • Viðkomandi kærir ákvörðun og kæra frestar réttaráhrifum, en kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun.

Í eftirfarandi tilvikum frestar kæra réttaráhrifum og þar af leiðandi er ekki heimilt að framkvæma ákvörðun um brottvísun fyrr en ákvörðun er endanleg

  • Hafi viðkomandi dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

  • Sé viðkomandi EES/EFTA borgari sem hefur skráð rétt sinn til dvalar hér á landi.

  • Sé viðkomandi norrænn ríkisborgari sem hefur dvalist hér á landi lengur en þrjá mánuði.

Fresti kæra ekki réttaráhrifum hefur viðkomandi þó ávallt heimild til að óska eftir frestun réttaráhrifa við kærunefnd útlendingamála áður en kærufrestur er liðinn. Kærunefndin úrskurðar um það hvort beiðnin verði samþykkt eða ekki.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun