Brottvísun og endurkomubann til Íslands
Takmarkanir á heimild til brottvísunar
Í útlendingalögum koma fram ákveðnar takmarkanir á heimild til brottvísunar, auk ákveðinna sjónarmiða sem lögð skulu til grundvallar við ákvörðun um það hvort brottvísa skuli útlendingi. Takmarkanirnar eru ríkari þegar um EES/EFTA-borgara er að ræða heldur en ríkisborgara utan EES/EFTA.
Takmarkanir á heimildum til brottvísunar ríkisborgara frá ríkjum utan EES/EFTA er að finna í ákvæðum 97. greinar og fyrir EES/EFTA-borgara í 102. grein útlendingalaga.
Takmarkanir á brottvísun ríkisborgara utan EES/EFTA
Samkvæmt útlendingalögum skal við ákvörðun um brottvísun útlendings líta til þess hvort brottvísunin muni, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Þetta á þó ekki við ef brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Samkvæmt þessu þarf því við ákvörðun um brottvísun að vega og meta hagsmuni útlendings, svo sem fjölskylduaðstæður og félagslegar aðstæður, gegn hagsmunum ríkisins og/eða almennings af því að útlendingi verði brottvísað. Þar inn í spilar til dæmis eðli og alvarleiki þeirra brota sem um ræðir og hvort viðkomandi sé líklegur til að láta af brotastarfsemi, það er hversu mikil hætta stafar af viðkomandi.
Frekari takmarkanir á heimild til brottvísunar útlendings
Óheimilt er að brottvísa útlendingi sem fæddur er hér á landi hafi hann frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá.
Aðeins má brottvísa norrænum ríkisborgara sem búsettur hefur verið hér á landi lengur en þrjá mánuði, ef refsiverð háttsemi hans getur varðað eins árs fangelsi eða meira.
Takmarkanir á brottvísun EES/EFTA-borgara og aðstandanda hans
Samkvæmt útlendingalögum skal við ákvörðun um brottvísun EES/EFTA-borgara eða aðstandanda hans líta til þess hvort brottvísunin muni, með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendings við landið, fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans.
Við matið skal meðal annars tekið mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt. Brottvísun má jafnframt ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES/EFTA-borgari eða aðstandandi hans hafi leitað sér félagslegrar aðstoðar.
Frekari takmarkanir á heimild til brottvísunar EES/EFTA-borgara
Brottvísun skal jafnframt ekki ákveða við eftirtaldar aðstæður:
Hafi viðkomandi rétt til ótímabundinnar dvalar, nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Útlendingur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar þegar hann hefur dvalist löglega á landinu samfellt í minnst fimm ár.
Hafi viðkomandi haft fasta búsetu hér á landi í tíu ár nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi. Í þessum tilvikum þurfa brot því að vera mjög alvarleg og hefur til dæmis verið brottvísað þrátt fyrir þessa takmörkun þegar um er að ræða fíkniefnabrot á vegum skipulagðra glæpasamtaka.
Sé viðkomandi undir lögaldri, nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi; þetta gildir þó ekki um barn ef brottvísun þess er nauðsynleg til að gæta hagsmuna þess eins og kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Sé viðkomandi launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi, með fyrirvara um að brottvísun teljist nauðsynleg með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
Leggi viðkomandi fram sönnun þess að hann sé í virkri atvinnuleit og hafi raunverulega möguleika á því að fá atvinnu; með fyrirvara um að brottvísun teljist nauðsynleg með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
Af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun