Fara beint í efnið

Niðurfelling dvalar- og atvinnuleyfa

Við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi.

Endurkomubann

Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið, en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Þegar metið er hversu langt endurkomubann skuli ákvarðað tekur Útlendingastofnun tillit til allra aðstæðna í hverju máli fyrir sig, sem og þeirra laga- og reglugerðaákvæða sem gilda og lýst hefur verið hér að framan.

Ríkisborgari ríkja utan EES/EFTA

Samkvæmt umsókn má fella endurkomubann úr gildi ef aðstæður hafa breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin.

Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubannið falli úr gildi.

EES/EFTA-borgari eða aðstandandi hans

Samkvæmt umsókn er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Útlendingastofnun skal taka ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans.

Við sérstakar aðstæður getur sá sem vísað hefur verið brott fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun. Viðkomandi skal leggja fram umsókn þess efnis hjá Útlendingastofnun.

Undantekning frá endurkomubanni

Í þeim tilvikum sem EES/EFTA-borgara eða aðstandanda hans er brottvísað á grundvelli þess að hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl hér á landi samkvæmt 83. til 86. grein útlendingalaga er endurkomubann ekki ákvarðað.

Skráning í Schengen-upplýsingakerfið

Þegar ríkisborgara utan EES eða EFTA er brottvísað kann brottvísun og endurkomubann að vera skráð í Schengen-upplýsingakerfið og gildir endurkomubannið þá á landsvæði allra Schengen-ríkjanna, nema því aðeins að einstakt ríki heimili sérstaklega komu til viðkomandi lands.

Ríkislögreglustjóri annast skráningu í Schengen-upplýsingakerfið og miðast upphaf endurkomubanns að jafnaði við þann dag er viðkomandi yfirgefur landið.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun