Útlendingastofnun býður hæfum aðilum að skila inn umsóknum til að sinna hlutverki talsmanns.
Talsmaður: Sá sem talar máli umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi og gætir hagsmuna hans við meðferð máls gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála.
Þjónustan sem veitt er á grundvelli 1. mgr. 30. greinar laga um útlendinga fellur undir h-lið 11. greinar laga um opinber innkaup. Þjónustusamningar sem falla undir 11. grein eru undanskildir gildissviði laganna.
Útlendingastofnun skal tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd talsmann við meðferð máls hjá stjórnvöldum á grundvelli 30. greinar laga um útlendinga.
Hlutverk talsmanns
Talsmaður sinnir réttaraðstoð og talsmannaþjónustu vegna umsóknar um alþjóðlega vernd á lægra og æðra stjórnsýslustigi í samræmi við vilja umsækjanda. Hlutverk talsmanns hefst við skipun hans og lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi.
Hlutverk talsmanns er að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Í því felst meðal annars:
Að mæta í viðtöl með umsækjanda þegar þau eru boðuð.
Að skila inn gögnum og greinargerð fyrir hönd umsækjanda, eftir því sem þörf er á.
Að aðstoða umsækjanda við öflun heilbrigðisgagna, teljist slíkt nauðsynlegt við meðferð málsins.
Að taka við ákvörðunum stjórnvalda fyrir hönd umsækjanda og leiðbeina honum um mögulegt framhald máls, svo sem kæruleiðir eða möguleika til sjálfviljugrar heimferðar með IOM eða öðrum sambærilegum samtökum.
Útlendingastofnun gerir ekki athugasemd við að lögmaður/lögfræðingur á talsmannalista, annist verkefni fyrir hönd skipað talsmanns, svo sem að mæta í viðtal, taka við birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar og/eða skila greinargerð til kærunefndar útlendingamála, séu skilyrði verklags um fyrisvar uppfyllt.
Hæfi talsmanns
Talsmaður skal vera lögfræðingur með þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
Talsmaður skal hafa lokið embættisprófi eða grunn- og framhaldsprófi í lögfræði.
Talsmaður skal hafa gott vald á íslensku í ræðu og riti.
Talsmaður skal hafa reynslu og haldbæra þekkingu af stjórnsýslurétti.
Þegar um er að ræða fylgdarlaust barn skal talsmaður hafa sérþekkingu á málefnum barna.
Framkvæmd
Áhugasamir geta fyllt út umsókn um skráningu sem talsmaður, sjá eyðublað efst á síðunni.
Í umsókn skal sýna fram á að viðkomandi uppfylli hæfisskilyrði til að sinna hlutverki talsmanns. Uppfylli lögfræðingur hæfisskilyrði fer nafn hans á lista með skráðum talsmönnum.
Stofnunin hefur samband við lögfræðing og boðar hann til viðtals. Þegar hann samþykkir viðtalsboð er honum sent skipunarbréf til undirritunar og hefst skipunartími talsmanns þar með.
Skipun talsmanns lýkur við endanlega niðurstöðu stjórnvalds, það er með ákvörðun Útlendingastofnunar eða eftir atvikum úrskurði kærunefndar útlendingamála.
Ný málsmeðferð eftir úrskurð kærunefndar útlendingamála
Þegar kærunefnd útlendingamála fellst á endurupptöku og sendir mál umsækjanda til nýrrar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun leitast stofnunin við að skipa sama talsmann og var skipaður í fyrri málsmeðferð. Það er gert til að tryggja það trúnaðarsamband sem skapast hefur milli umsækjanda og talsmanns á fyrri stigum. Þá er einnig horft til þess að sá talsmaður sem skipaður var upphaflega þekkir mál umsækjanda vel og getur þannig tryggt umsækjanda vandaða og góða þjónustu.
Faglegt skilamat
Svo tryggja megi gæði þjónustunnar verður virkt faglegt skilamat með kaupunum þar sem Útlendingastofnun leggur mat á frammistöðu talsmanna.
Við mat á frammistöðu talsmanns verður meðal annars litið til þess hvort starfshættir talsmanns hafi stuðlað að skilvirkri málsmeðferð og sanngjarnri afgreiðslu, hvort viðtöl og gagnaafhending hafi einkennst af fagmennsku og samviskusemi og hvort talsmaður hafi brugðist vel við ef fram komu ábendingar um annmarka sem bæta þyrfti úr.
Nánari upplýsingar um frammistöðumat verða aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar innan tíðar.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun