Fara beint í efnið

Umboð gagnvart Útlendingastofnun

Umboð til Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun er bundin af þagnarskyldu og er samkvæmt lögum óheimilt að veita aðgang að gögnum og upplýsingum um málefni einstaklinga nema með þeirra samþykki.

Einstaklingur sem hefur lagt fram umsókn hjá Útlendingastofnun getur veitt öðrum einstaklingi umboð til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart stofnuninni.

Hægt er að veita umboð með því að fylla út eyðublaðið á þessari síðu.

Umsækjendur um dvalarleyfi geta einnig veitt umboð á umsóknareyðublöðum.

Hver getur verið umboðsmaður

Umboðsmaður þarf að vera 18 ára eða eldri.

Athugið að makar umsækjenda eru ekki sjálfkrafa umboðsmenn. Þeim þarf að veita skriflegt umboð til að geta fengið upplýsingar frá Útlendingastofnun.

Það er aðeins heimilt að vera með einn umboðsmann í einu.

Til að geta fengið upplýsingar hjá Útlendingastofnun þarf umboðsmaður að vera skráður hjá stofnuninni samkvæmt umsókn eða umboði.

Lögaðilar

Heimilt er veita umboð

  • lögmanni,

  • lögmannsstofu eða

  • lögmannsstofu og tilteknum lögmanni fyrir hönd stofunnar.

Útlendingastofnun er heimilt að eiga samskipti og afhenda gögn til lögmanna/starfsmanna á sömu lögmannsstofu og sá sem hefur umboðið, ef viðkomandi er með umboðið undir höndum og umboðið er einnig til lögmannsstofunnar.

Á meðal annarra lögaðila sem hægt er að veita umboð eru félagsþjónustur sveitarfélaga.

Þegar lögaðila er veitt umboð er mikilvægt að skrá kennitölu og netfang lögaðilans á umboðið.

Heimildir umboðsmanna

Umboðsmaður hefur þær heimildir sem koma fram í umboði. Hann getur til dæmis fengið umboð til að

  • fá afhent gögn,

  • fá upplýsingar frá Útlendingastofnun, meðal annars um stöðu umsóknar,

  • leggja fram kæru hjá kærunefnd útlendingamála.

Takmarkanir á heimildum umboðsmanna

Umboðsmanni er ekki heimilt að skrifa undir umsókn fyrir hönd umsækjanda.

Umboðsmanni er ekki heimilt að framselja umboð sitt. Hann getur ekki veitt öðrum aðila umboð til að koma fram fyrir hönd umsækjanda. Umsækjandi verður sjálfur að skipta um umboðsmann.

Kröfur til umboða

Umboð þarf að veita með skriflegum hætti. Það þarf að vera skýrt og vel skiljanlegt.

Umboð þarf að vera undirritað af umsækjanda sjálfum og tveimur vottum, það eru einstaklingar sem staðfesta rétta undirskrift umsækjanda með undirskrift sinni. Lögmenn og lögaðilar hafa heimild til að leggja fram umboð vottað af einum votti.

Ef umboð er veitt á annan hátt en með umboðseyðublaði Útlendingastofnunar þarf að gæta þess að umboðið innihaldi:

  1. Upplýsingar um þann sem veitir umboðið.

    • Nafn, fæðingardagur/kennitala, símanúmer og netfang.

  2. Upplýsingar um þann sem fær umboðið.

    • Nafn umboðsmanns, fæðingardagur/kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang.

  3. Öryggistölu.

    • Öryggistala er fjögurra stafa númer sem notað er til auðkenningar hjá Útlendingastofnun. Veldu tölu sem ekki inniheldur hluta fæðingardags eða kennitölu og ekki er of auðvelt að giska á, til dæmis 1234 eða 4321.

  4. Upplýsingar um þær heimildir sem umboðsmanni eru veittar.

    • Til dæmis ,,Umboðsmaður hefur heimild til að koma fram fyrir mína hönd í einu og öllu gagnvart Útlendingastofnun.“

  5. Upplýsingar um gildistíma umboðs.

  6. Undirskrift þess sem veitir umboðið.

  7. Undirskriftir tveggja votta að undirskriftum.

Umboð til Útlendingastofnunar

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun