Fara beint í efnið

Aðstoð við sjálfviljuga heimför

Útlendingur, sem hefur fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd eða dregið umsókn um vernd til baka, getur eftir atvikum óskað eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför.

Útlendingastofnun veitir aðstoð við sjálfviljuga heimför í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) og Landamærastofnun Evrópu (Frontex). Metið er í hverju tilviki fyrir sig hvaða úrræði umsækjendum stendur til boða.

Umsækjendur um vernd sem vilja óska eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför geta sent tölvupóst á return@utl.is. Upplýsingar um nafn og fæðingardag þurfa að koma fram í póstinum.

Aðstoðin sem er í boði er mismunandi eftir þörfum umsækjanda. Á meðal þess sem aðstoðin getur falið í sér er:

  • Ráðgjöf og upplýsingar um aðstoð í heimaríki

  • Flugfar og samgöngur til og frá flugvelli til lokaáfangastaðar í heimaríki

  • Aðstoð við öflun ferðaskilríkja

  • Aðstoð við brottför, gegnumferð og komu til heimaríkis

  • Þjónustu og læknisaðstoð sem umsækjandi gæti þurft á að halda meðan á ferðalagi stendur

  • Ferðastyrk og enduraðlögunarstyrk í samræmi við reglugerð um enduraðlögunarstyrk og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd

Skilyrði aðstoðar við sjálfviljuga heimför

Til að fá aðstoð við sjálfviljuga heimför verður umsækjandi um alþjóðlega vernd að yfirgefa landið af fúsum og frjálsum vilja. Það þýðir að einstaklingur sem hefur ekki þegar fengið niðurstöðu í umsókn sína um vernd þarf að draga umsóknina til baka til af fá aðstoð við sjálfviljuga heimför. Einstaklingur sem er með mál til meðferðar á kærustigi fær ekki aðstoð við sjálfviljuga heimför nema hann dragi kæruna til baka.

Beiðni um aðstoð við sjálfviljuga heimför þarf að berast áður en frestur til heimfarar, sem tilgreindur er í ákvörðun stjórnvalda, rennur út. Beiðnir sem berast eftir það tímamark eru metnar í hverju tilviki fyrir sig.

Umsækjandi um vernd sem kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki á almennt ekki rétt á aðstoð við sjálfviljuga heimför en getur eftir atvikum farið til heimaríkis á eigin kostnað. Umsækjandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu getur verið undanþeginn þeirri reglu.

Umsækjandi um vernd sem fær málsmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar á ekki rétt á aðstoð við sjálfviljuga heimför nema viðkomandi dragi til baka umsókn sína um vernd áður en ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir. Umsækjandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu getur verið undanþeginn þeirri reglu.

Upplýsingabæklingar IOM á ýmsum tungumálum

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun