Fara beint í efnið

Alþjóðleg vernd, réttur og ferill umsókna

Jákvæð niðurstaða

Útlendingastofnun lýkur málsmeðferð sinni með ákvörðun. Ákvörðun í máli umsækjanda um alþjóðlega vernd er kynnt honum við birtingu ákvörðunar. 

Jákvæð niðurstaða þýðir annað af tvennu:

  • Alþjóðleg vernd er veitt

  • Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er veitt

Framkvæmd ákvörðunar

Ef alþjóðleg vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum er veitt er viðeigandi dvalarleyfi gefið út og viðkomandi leiðbeint um framhaldið. Ef niðurstaða er synjun um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum er umsækjanda vísað frá landinu eða brottvísað. Ef niðurstaða Dyflinnarmeðferðar er sú að mál umsækjandi skuli ekki hljóta efnismeðferð hér á landi er honum vísað úr landi og til þess ríkis sem hefur tekið ábyrgð á umsókn hans.

Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar

Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar eru þau að útlendingur fær réttarstöðu flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings og skal honum veitt dvalarleyfi skv. 73. gr. útlendingalaga. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna, samningi um ríkisfangsleysi eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.

Maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar, börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka eiga einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd gilda almennar reglur um fjölskyldusameiningu.

Njóti barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar eiga foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Ef annað foreldrið hefur farið með forsjá barns nýtur það þessa réttar. Þá njóta þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára, eru án maka og búa hjá foreldrum eða foreldrinu.

Sá sem fær alþjóðlega vernd hér á landi sem flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fær útgefið dvalarleyfi til fjögurra ára. Að þeim tíma liðnum á viðkomandi rétt á að endurnýja leyfið nema að skilyrði séu til afturköllunar eða ef synjun um endurnýjun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

Flóttamenn og ríkisfangslausir einstaklingar fá aðstoð við að koma undir sig fótunum hér á landi og mega stunda vinnu eða nám. Flóttamenn og ríkisfangslausir einstaklingar geta sótt um og fengið útgefin ferðaskírteini fyrir handhafa alþjóðlegrar verndar sem gilda í öllum ríkjum Evrópusambandsins og flestum öðrum ríkjum heims en ekki er hægt að nota ferðaskírteinið til ferða til heimalands. Dvalarleyfi handhafa alþjóðlegrar verndar getur skapað rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Heimilt er að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar falli flóttamaður eða ríkisfangslaus einsaklingur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. Í 48. gr. laganna er að finna skilyrði afturköllunar alþjóðlegrar verndar.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Samkvæmt 74. gr. útlendingalaga er heimilt að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem ekki telst flóttamaður eða ríkisfangslaus, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða standi til þess ríkar ástæður á borð við alvarleg veikindi eða erfiðar aðstæður í heimalandi. Einnig er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd dvalið hér á landi í að minnsta kosti 18 mánuði vegna meðferðar stjórnvalda á umsókn hans, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Maki hans, sambúðarmaki og börn hans undir 18 ára aldri sem ekki eru gift eða eru í sambúð geta sótt um dvalarleyfi  á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. VIII. kafla  útlendingalaga, séu ekki skilyrði til að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

1. og 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga eru svohljóðandi:

Í þeim tilvikum þegar útlendingur er staddur hér á landi og getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til, má líta til almennra mannúðarsjónarmiða þó svo að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt. Ákvæði þessu skal ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr. 

Heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæði þessu að því tilskyldu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum eru að:

  1. tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, 

  2. ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, 

  3. ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda 

  4. útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. 

Ákvæði 2. mgr. gilda ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi skilyrðum á við um:

  1. Útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, 

  2. útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis, 

  3. útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun.

Réttaráhrif dvalarleyfis af mannúðarástæðum

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er veitt til eins árs í senn en við endurnýjun er heimilt að veita það til allt að tveggja ára. Dvalarleyfishafi fær, eins og handhafi alþjóðlegrar verndar, aðstoð við að koma undir sig fótunum hér á landi og getur stundað vinnu eða nám. Hann getur fengið útgefin ferðaskilríki fyrir útlending sem eru tekin gild í öllum ríkjum Evrópusambandsins og flestum öðrum ríkjum heims en hann getur þó ekki notað það til að fara til heimalands síns nema að hann fái til þess sérstaka heimild. Dvalarleyfi af mannúðarástæðum getur skapað leyfishafa rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Almennar reglur um fjölskyldusameiningu gilda um þá sem fá veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Samkvæmt 59. gr. útlendingalaga er heimilt að afturkalla dvalarleyfi hafi útlendingur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun