Fara beint í efnið

Almenn gjafsókn

Gjafsókn er það kallað þegar kostnaður við dómsmál einstaklings er greiddur úr ríkissjóði. Það er gert í ákveðnum tilvikum en gjafsókn er aðeins veitt einstaklingum, ekki lögaðilum, svo sem fyrirtækjum eða félögum. Nánar í lögum um meðferð einkamála

Til að fá gjafsókn þarf efnahagur umsækjanda að vera með þeim hætti að kostnaður yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Nánar um gjafsókn á vef dómsmálaráðuneytisins

Hvernig er sótt um gjafsókn?

Umsókn um gjafsókn skal senda dómsmálaráðuneytinu. Umsókn skal vera skrifleg, leggja fram nægjanlega tímanlega, og eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalmeðferð máls. Heimilt er að vísa frá umsókn sem berst svo skömmu fyrir aðalmeðferð máls að tóm gefst ekki til gagnaöflunar og að veita rökstudda umsögn.

Ráðuneytið framsendir umsókn síðan til gjafsóknarnefndar. Ráðuneytið getur ekki veitt gjafsókn nema gjafsóknarnefnd mæli með því.

Afgreiðslutími umsókna er almennt 1-2 mánuðir.

Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls skal ákveðin í dómi eða úrskurði.

Ríkið verður því ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér heldur aðeins þá fjárhæð sem dómari ákveður handa honum. Gjafsóknarhafa eða lögmanni hans ber að snúa sér til sýslumannsins á Vesturlandi, vegna uppgjörs til dæmdrar málflutningsþóknunar og útlagðs kostnaðar.

Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli. Gjafsókn nær einnig til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu, nema annað sé tekið fram í gjafsóknarleyfinu. Gjafsókn breytir engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað.

Efnisyfirlit