Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Starfsþróun

Vistaskipti

Með vistaskiptum er átt við að starfsmanni er, í samkomulagi við hann, fengið tímabundið starf eða verkefni hjá annarri ríkisstofnun eða ráðuneyti sem jafnframt hefur samþykkt að taka við starfsmanninum. Að vistaskiptum loknum snýr starfsmaðurinn aftur til fyrri starfa.

Vistaskipti geta átt sér stað að frumkvæði stofnunar starfsmanns eða annarrar stofnunar, enda liggi fyrir samþykki starfsmanns.

Vistaskiptin:

  • geta að hámarki staðið í eitt ár

  • geta verið innan sama stjórnsýslugeira eða á milli stjórnsýslugeira

  • þurfa ekki að vera bundin við það að tvær stofnanir skiptist á starfsmönnum heldur getur verið um að ræða margþættar tilfærslur.

Skilyrði fyrir vistaskiptum

Gert er ráð fyrir að starfsmaður sem hreyfist til hafi öðlast ákveðna þekkingu, reynslu og starfsaldur. Slíkt verður að meta hverju sinni en almennt má búast við að starfsmaður þurfi að hafa starfað að minnsta kosti þrjú ár hjá viðkomandi stofnun.

Vistaskipti sem starfsmaður óskar sjálfur eftir eru háð samþykki þeirrar stofnunar sem hann starfar hjá og þeirrar stofnunar sem hann óskar að fara til.

Um launakjör á meðan á vistaskiptum stendur

Gert er ráð fyrir að starfsfólk sem fer til vistaskipta sé í launuðu leyfi frá sinni stofnun eða ráðuneyti á meðan á vistaskiptunum stendur. Kostnaður sem gæti orðið vegna vistaskiptanna greiðist af þeirri stofnun sem viðkomandi starfsmaður er ráðinn til eða eftir nánara samkomulagi stofnana og ráðuneyta hverju sinni.

Tilkynningar

Þegar viðkomandi ráðuneyti eða stofnanir hafa náð samkomulagi um að starfsmaður annars aðilans fari tímabundið í störf hjá hinum, tilkynnir sú stofnun, sem starfsmaður var upphaflega ráðinn til, honum um skiptin.

Fjársýslan veitir ráðgjöf og aðstoðar þau ráðuneyti og stofnanir sem hyggjast standa að vistaskiptum starfsmanna en tekur ekki ákvarðanir um hvort heimila eigi slík vistaskipti og sker ekki úr ágreiningi sem kann að koma upp um framkvæmd þeirra.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.