Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Starfsþróun

Almenn skilyrði norrænna starfsmannaskipta

Norræna ráðherranefndin hefur haft forgöngu um starfsmannaskiptin en markmið þeirra er að auka norræna samvinnu, gefa starfsfólki tækifæri til að auka þekkingu sína á stjórnun, stjórnsýslu og löggjöf sem og að auka nýsköpun á starfssviði starfsfólks.

Á ári hverju fara að jafnaði um tíu ríkisstarfsmenn frá Íslandi til skiptidvalar á Norðurlöndunum. Algengast er að skiptidvöl standi yfir í einn mánuð en einnig þekkist að dvöl sé skipulögð í allt að sex mánuði. Til Íslands koma einnig starfsmenn frá Norðurlöndunum til skiptidvalar og er Ísland þá í hlutverki móttökulandsins. Stofnanir eru hvattar til þess að taka vel undir óskir um skiptidvöl á vegum norrænna starfsmannaskipta. Skiptin eru á milli landa en ekki á milli stofnana.

Norrænu starfsmannaskiptin eru ekki bundin við sérstök störf eða starfshópa. Starfið eða námið verður þó að vera í faglegum tengslum við verksvið umsækjanda og teljast bæði stofnun og starfsmanni til gagns. Dvalartími getur verið frá fjórtán dögum og allt að sex mánuðum.

Árlegri fjárveitingu ráðherranefndarinnar til starfsmannaskipta er skipt á milli einstakra landa og er henni ætlað að greiða ferðakostnað, kostnað vegna húsnæðis o.fl. Þeirri fjárhæð sem til ráðstöfunar er fyrir Ísland er skipt niður á styrkþega. Vegna takmarkaðrar fjárveitingar getur þurft að velja úr umsóknum eða takmarka dvalartíma hvers og eins.

Gert er ráð fyrir að stofnað sé til skiptidvalar með fulltingi ráðuneytis eða stofnunar umsækjenda og að stofnun veiti starfsmanni aðstoð og leiðbeiningar eins og kostur er varðandi skiptin og dvölina. Gert er ráð fyrir að samkomulag hafi náðst við væntanlega dvalarstofnun áður en umsókn er send til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.