Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Starfsþróun

Starfsþróunaráætlanir starfsfólks

Starfsþróunaráætlanir starfsfólks taka mið af áherslum og markmiðum starfsþróunaráætlunar stofnunar og eru afurð starfsmannasamtals.

Í starfsmannasamtali er lagt mat á stöðu starfsmanns á viðeigandi hæfniþáttum og hún borin saman við hæfnikröfur starfsins. Misræmi þar á milli gefur til kynna hvar áherslur í starfsþróun ættu að liggja. Ef breytingar á starfi eru fyrirsjáanlegar, (t.d. ný eða breytt verkefni, aukin ábyrgð o.s.frv.), þarf að taka mið af þeim við ákvörðun um starfsþróun. Að lokum er skoðað hvernig starfsþróunaráætlunanir starfsfólks samrýmast markmiðum í starfsþróunaráætlun stofnunar hverju sinni.

Tilgreindir eru ábyrgðaraðilar, stjórnandi, starfsmaður eða aðrir fyrir framkvæmd einstakra aðgerða og hvenær þeim skal lokið.

Starfsþróunaráætlun starfsfólks byggir á og inniheldur

  • Mat á árangri fyrri starfsþróunar

  • Mat á þekkingu og færni sem starfsmaður býr yfir

  • Greiningu fræðsluþarfa

  • Markmið í starfsþróun

  • Ábyrgðaraðila fyrir hvern þátt starfsþróunaráætlunarinnar

  • Tímasett aðgerðaráætlun

Hver starfsmaður ber ábyrgð á því að viðhalda færni sinni og endurnýja þekkingu. Allt sem starfsfólk gerir til að ná þessu marki flokkast sem starfsþróun. Starfsþróun sína getur hver starfsmaður unnið á eigin vegum, með lestri og rannsóknum, í samvinnu við annað starfsfólk, til dæmis í þróunarverkefnum innan stofnunar eða á milli stofnana. Þá getur starfsþróun farið fram með því að starfsfólk sæki námskeið eða stundi annað formlegt nám. Það er því á ábyrgð starfsmannsins að fylgja eftir stöðugum breytingum, kröfum og tíðaranda hverju sinni. Þannig næst fram þroski í starfi og efling þekkingar, viðhorfa og færni. Starfsfólk sem sækir reglulega viðeigandi starfsþróun upplifir að öllu jöfnu aukna starfsánægju.

Dæmi um starfsþróun:

  • Að axla meiri ábyrgð í núverandi starfi

  • Að færast til í starfi innan stofnunar

  • Að færast til í starfi á milli stofnana

  • Framgangur í starfi

Stéttarfélög veita styrki til starfsþróunar, bæði beint til einstakra starfsmanna en einnig geta stofnanir sótt um styrki til ákveðinna verkefna. Þá bíður Starfsmennt upp á fjölbreytt námskeið fyrir starfsfólk, ýmist frítt eða gegn vægu gjaldi.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.