Fara beint í efnið

Um Gagnagátt og almennar leiðbeiningar

Notkunarskilmálar fyrir Gagnagátt

Um er að ræða skilmála sem gilda um notkun og aðgang að Gagnagátt Sjúkratrygginga. Skilmálar þessir taka gildi gagnvart notanda þegar viðkomandi hefur samþykkt þá.

  1. Notkun Gagnagáttar

    1. Gagnagátt er „mínar síður“ fyrir heilbrigðisstarfsmenn og rekstraraðila sem eru í viðskiptum eða eiga í samskiptum við Sjúkratryggingar.

    2. Tilgangur með notkun Gagnagáttar er að miðla upplýsingum og gögnum með öruggum hætti. Þeim sem eiga í samskipum við Sjúkratryggingar er skylt að nota Gagnagáttina til að miðla og taka við gögnum og upplýsingum sem varða einstaklinga, samanber 50. grein laga númer 112/2008.

  2. Flokkar upplýsinga

    1. Upplýsingar í Gagnagátt eru þrískiptar:

      1. Viðskiptaupplýsingar. Upplýsingar um viðskipti rekstraraðila við Sjúkratryggingar, þar á meðal greiðsluskjöl og greiðsluyfirlit.

      2. Réttindaupplýsingar. Upplýsingar um réttindi og réttindastöðu einstaklinga, umsóknir, vottorð og aðrar upplýsingar sem tengjast umsýslu í tengslum við málefni notenda heilbrigðisþjónustu/umsækjenda.

      3. Gagnaskil. Gagnamiðlun í tengslum við einstök mál/umsóknir.

  3. Innskráning

    1. Við innskráningu í Gagnagátt er notuð innskráningarþjónusta Ísland.is. Einstaklingar sem skráðir eru sem aukanotendur geta skráð sig sem Einstaklingur. Aðalnotendur, það er einstaklingar sem hafa umboð fyrir rekstraraðila/veitendur heilbrigðisþjónustu (stofnanir/fyrirtæki) í gegnum Ísland.is, eiga að skrá sig sem Umboð gegnum Ísland.is.

    2. Ef notandi verður á einhvern hátt var/vör við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir rafræn skilríki skal notandi hafa strax samband við útgáfuaðila rafrænna skilríkja og óska eftir að viðkomandi skilríkjum sé lokað til þess að koma í veg fyrir að þau/hann sé(u) misnotuð af óviðkomandi aðilum í Gagnagátt.

    3. Vinsamlegast kynntu þér vel skilmála Ísland.is sem hægt er að nálgast á heimasíðu þeirra.

  4. Aðgangur

    1. Eftirtaldir aðilar geta fengið aðgang að Gagnagátt:

      1. Rekstraraðilar og veitendur heilbrigðisþjónustu (fyrirtæki/stofnanir) sem eru í viðskiptum við Sjúkratryggingar geta fengið aðgang að viðskiptaupplýsingum og gagnaskilum. Aðalnotandi getur skráð starfsmenn sem aukanotendur. Aðgangur er eingöngu veittur í gegnum kennitölu rekstraraðila/stofnunar.

      2. Heilbrigðisstarfsmenn geta fengið aðgang að réttindaupplýsingum í gegnum eigin kennitölu. Heilbrigðisstarfsmaður sem er í viðskiptum við Sjúkratryggingar í eigin kennitölu getur fengið aðgang að viðskiptaupplýsingum, réttindaupplýsingum og gagnaskilum.

      3. Persónuverndarfulltrúar geta fengið sérstakan aðgang að Gagnagátt.

  5. Notkun tengiliðaupplýsinga

    1. Aðalnotandi rekstraraðila eða veitanda heilbrigðisþjónustu skal skrá netfang stofnunar/fyrirtækis undir Stillingar. Heilbrigðisstarfsmenn og persónuverndarfulltrúar skulu skrá vinnunetföng, ekki einkanetföng undir Stillingar.

    2. Netfang sem skráð er í Gagnagátt er notað við:

      1. sendingu tilkynninga um ný bréf í Gagnagátt.

      2. samskipti

      3. önnur lögbundin verkefni Sjúkratrygginga, þjónustukannana og fleira.

  6. Skyldur notenda

    1. Notandi ber að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti við innskráningu og notkun Gagnagáttar.

    2. Notandi ber ábyrgð á öllum aðgerðum sem hann framkvæmir í kjölfar innskráningar í Gagnagátt.

    3. Notandi ber ábyrgð á að upplýsingar og gögn sem hann sendir í gegnum Gagnagáttina séu réttar. Ef um er að ræða upplýsingar sem eiga uppruna sinn hjá öðrum en notanda ber viðkomandi ábyrgð á réttleika þeirra.

    4. Notanda er eingöngu heimilt að nota aðgang að Gagnagátt í þágu starfa sinna.

    5. Notanda er bannað að nota aðganginn í eigin þágu, það er vegna réttinda og eða mála viðkomandi hjá Sjúkratryggingum.

    6. Notanda er óheimilt að leyfa öðrum aðilum að nýta aðgang eða miðla upplýsingum úr Gagnagátt til óviðkomandi aðila.

    7. Verði notandi var við að aðrir noti aðgang hans ber honum að upplýsa Sjúkratryggingar tafarlaust í gegnum netfangið hjalp@sjukra.is

    8. Aðgangsveiting aukanotenda er á ábyrgð rekstraraðila og veitenda heilbrigðisþjónustu (aðalnotanda).

    9. Notandi ber ábyrgð á því að notendaupplýsingar hans, þar á meðal netfang, séu réttar.

  7. Öryggi og varðveislutími

    1. Gerðar hafa verið viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga sem er að finna í Gagnagáttinni. Gagnagáttin er varin gegnum vefsel og eru öll samskipti dulkóðuð.

    2. Upplýsingar í Gagnagáttinni eru varðveittar í ótilgreindan tíma.

  8. Skyldur Sjúkratrygginga

    1. Sjúkratryggingar eru ábyrgðaraðili að þeim upplýsingum sem er að finna í Gagnagáttinni. Ef um er að ræða upplýsingar sem eiga uppruna sinn hjá öðrum en Sjúkratryggingum ber viðkomandi ábyrgð á réttleika þeirra. Um vinnslu persónuupplýsinga í Gagnagátt fer eftir ákvæðum 50. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og eftir lögum nr. 97/1997 um réttindi sjúklinga, þegar við á. Farið er með allar upplýsingar í Gagnagátt sem trúnaðarmál. Sjá nánar persónuverndarstefnu Sjúkratrygginga.

  9. Annað

    1. Sjúkratryggingar áskilja sér rétt til endurskoðunar skilmála þessara án sérstaks fyrirvara eða viðvörunar.

    2. Við brot notanda á skilmálum þessum áskilja Sjúkratryggingar sér rétt til að loka á aðgang notanda að Gagnagáttinni og krefja hann um skaðabætur eða beita öðrum lögmætum úrræðum vegna tjóns er Sjúkratryggingar eða viðskiptavinir stofnunarinnar kunna að verða fyrir vegna brotsins.

    3. Gögn og upplýsingar í Gagnagátt gætu innihaldið persónuupplýsingar, þar á meðal viðkvæmar. Ef gögn hafa borist röngum viðtakanda ber þeim aðila að gæta fyllsta trúnaðar og tilkynna Sjúkratryggingum um það. Ekki má skrá gögnin hjá sér eða notfæra sér þau á nokkurn hátt, samanber lög númer 70/2022 um fjarskipti. Verði notandi var við slíkt skal upplýsa persónverndarfulltrúa Sjúkratrygginga tafarlaust í gegnum netfangið personuvernd@sjukra.is

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar