Fara beint í efnið

Slysatrygging – umsókn um bætur vegna slyss

Tilkynning um slys

Slysabætur

Ef atvikið er talið bótaskylt er tekin afstaða til eftirfarandi bótaflokka:

  • Sjúkrahjálp, endurgreiðsla sjúkrakostnaðar

  • Slysadagpeningar vegna óvinnufærni

  • Eingreiðslu örorku- eða miskabóta vegna varanlegs tjóns

  • Dánarbætur vegna banaslysa

Eingöngu greiðast bætur, fyrir utan örorkulífeyri, tvö ár aftur í tíma frá því öll gögn bárust Sjúkratryggingum.

Sjúkrahjálp

Útlagður kostnaður vegna slyss fæst endurgreiddur, sækja þarf um endurgreiðslu sérstaklega. Greitt er samkvæmt samningum Sjúkratrygginga fyrir:

  • Læknishjálp

  • Lyf og umbúðir

  • Tannviðgerðir vegna löskunar á heilbrigðum eða vel viðgerðum tönnum
    - Greiðslur vegna viðgerða lélegri tanna takmarkast við áætlaðan kostnað ef þær hefðu verið heilbrigðar

  • Gervilimir og hjálpartæki
    - Gervilimir, spelkur, bæklunarskófatnaður og sambærileg hjálpartæki vegna beinna afleiðinga slyssins.

  • Sjúkraflutningur
    - Fyrst eftir slys sem og síðar ef nauðsyn krefst. Undanskildar eru endurteknar ferðir vegna meðferðar.

  • Sjúkraþjálfun

  • Ferðakostnaður innanlands
    - Greitt er fyrir nauðsynlegar ferðir vegna slyss. Ekki er endurgreiddur kostnaður vegna gistingar.

Slysadagpeningar

Ef hinn slasaði er óvinnufær vegna slyss í minnst 10 daga greiðast slysadagpeningar. Ef vinnuveitandi greiðir laun í slysaforföllum greiðast slysadagpeningarnir til vinnuveitandans, annars beint til hins slasaða. Um þá gildir að:

  • Greiða má í allt að 52 vikur vegna hvers slyss.
    - Heimilt er að greiða stuttan tíma til viðbótar vegna aðgerða.

  • Lífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun geta lent í skerðingu á lífeyrisgreiðslum vegna greiðslu dagpeninga.

Upphæð greiðslu byggist á reglugerð sem uppfærist árlega. Greiðslur mega að hámarki vera 3/4 af vinnutekjum umsækjanda fyrir slysið. Greitt er:

  • Frá 8. degi óvinnufærni

  • Viðbót vegna barna á framfæri umsækjanda
    - Vegna barna utan heimilis er greitt ef sannað er að umsækjandi greiðir meðlag með

Örorkubætur – vegna slysa sem urðu 31.12.2021 og fyrr

Ef hinn slasaði varð fyrir varanlegu tjóni vegna slyssins getur hann óskað eftir mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku. Matið er framkvæmt þegar stöðugleika er náð og ekki er að vænta frekari bata. Örorkubæturnar greiðast í eingreiðslu og jafngildir hún hlutfalli af mánaðarlegum örorkulífeyri fyrir tiltekinn fjölda ára. Hlutfallið byggist á prósentustigi örorkumatsins og árafjöldinn eftir eðli slyssins.

75% örorka eða meiri:

  • Eingreiðslan miðast við fullan örorkulífeyri.

10% - 74% örorka:

  • 50% örorka veitir 50% af mánaðarlega lífeyrinum, hvert örorkustig upp að 74% veitir svo aukalega 2%. Einstaklingur með 74% örorku fengi því 98% mánaðarlegs lífeyris. Ekki eru greiddar örorkubætur fyrir 9% eða minni örorku.

Miskabætur – vegna slysa sem urðu 01.01.2022 og síðar

Ef hinn slasaði varð fyrir varanlegu tjóni vegna slyssins getur hann óskað eftir mati á varanlegum miska. Matið er framkvæmt þegar stöðugleika er náð og ekki er að vænta frekari bata. Miskabætur eru reiknaðar eftir reglum skaðabótalaga og greiðast þær sem eingreiðsla. Ekki eru greiddar miskabætur nema matið sé 10 stig eða hærra.

Dánarbætur

Dánarbætur greiðast ef slys veldur dauða innan 2 ára frá slysdegi. Til maka hins látna greiðist eingreiðsla sem ákveðin er í lögum og uppfærð reglulega með reglugerð. Ef hinn látni átti ekki maka greiðist upphæðin til dánarbúsins.

Einnig er greidd eingreiðsla til barns 16 ára og eldri, ef barnið er 33% öryrki eða meira. Skilyrði er að barnið hafi verið á framfæri hins látna við slys, og upphæð eingreiðslu fer eftir að hve miklu leyti barnið naut stuðning hins látna.

Athugið að hægt er að sækja um barnalífeyri frá Tryggingastofnun vegna andláts foreldris.

Tilkynning um slys

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar