Fara beint í efnið

Slysatrygging – umsókn um bætur vegna slyss

Tilkynning um slys

Einstaklingar sem lenda í bótaskyldu slysi geta átt rétt á slysabótum. Bótaskyld eru, að öðrum forsendum uppfylltum, slys við vinnu, iðn- eða verknám, björgunarstörf og íþróttir. Slys við heimilisstörf eru einnig bótaskyld ef sótt var um tryggingu á skattframtali. Slysatrygging nær einnig til atvinnusjúkdóma sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi. Að jafnaði eru bílslys ekki bótaskyld.

Slysabætur hins slasaða geta verið endurgreiðsla sjúkrakostnaðar, greiðsla örorku- og miskabóta, og dánarbætur ef slysið leiddi til andláts. Slysadagpeningar greiðast einnig ef slysið leiddi til óvinnufærni. Ef vinnuveitandi greiðir laun í slysaforföllum greiðast slysadagpeningarnir til vinnuveitandans, annars beint til hins slasaða.

Hvernig fæst slysið bætt

Að jafnaði þurfa bæði hinn slasaði og atvinnurekandi að staðfesta tilkynningu um slys. Vegna slysa sjálfstætt starfandi eða slysa við heimilisstörf þarf eingöngu staðfestingu hins slasaða. Í tilfelli banaslysa tilkynnir nánasti aðstandandi í stað hins látna.

Til að sækja um slysabætur þarf að:

  1. Athuga hvort forsendum sé fullnægt

  2. Afla nauðsynlegra fylgiskjala

  3. Annar aðilinn (Slasaði eða vinnuveitandi) sækir um Tilkynningu um slys
    - einnig má koma tilkynningunni á eyðublaði til Sjúkratrygginga eða umboða sýslumanns utan höfuðborgarsvæðisins, þá þarf undirritun beggja aðila á eyðublaðið.

  4. Hinn aðilinn fær póst um tilkynninguna og staðfestir hana með rafrænum skilríkjum

Sjúkratryggingar yfirfara umsóknir og kalla eftir frekari gögnum ef þörf er á, sjá afgreiðslutíma umsókna. Öll slys skal að jafnaði tilkynna innan eins árs, en heimilt er að veita undanþágu frá þeirri reglu, að ákveðnum forsendum uppfylltum. Leita má aðstoðar lögreglu ef atvinnurekandi vanrækir að samþykkja tilkynningu.


Hvernig fæst sjúkrakostnaður endurgreiddur?

Ef óskað er endurgreiðslu sjúkrakostnaðar þarf að sækja um það samhliða tilkynningu um slys:

  • Skila undirritaðri beiðni um Endurgreiðslu vegna sjúkrakostnaðar til Sjúkratrygginga eða til umboða sýslumanns utan höfuðborgarsvæðisins.

  • Einnig þarf að skila reikningum vegna sjúkrakostnaðarins
    - ef greiðslumáti kemur ekki fram á reikningi þarf einnig staðfestingu á greiðslu í formi greiðslukvittanna.
    - ekki þarf frumrit reikninga, heimilt er að senda gögn rafrænt.

Sækja má aftur um endurgreiðslu fyrir sjúkrakostnað sem bætist við eftir að slys var tilkynnt, svo lengi sem kostnaðurinn er innan 5 ára frá slysdegi. Sjúkrakostnaður er endurgreiddur samkvæmt samningum sjúkratrygginga. Athugið að ekki fæst endurgreiddur kostnaður sem þegar hefur verið greiddur af stéttarfélagi, tryggingarfélagi eða öðrum aðilum.

Tekið er við fyrirspurnum og gögnum í Þjónustu- og símaveri Sjúkratrygginga og í gegnum Réttindagátt.

Tilkynning um slys

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar