Fara beint í efnið

Innflytjendamál

Sækja um langtímavegabréfsáritun

Umsókn um langtímavegabréfsáritun

Langtímavegabréfsáritun veitir heimild til dvalar á Íslandi í allt að 90 daga umfram þann tíma sem einstaklingur mætti að öllu jöfnu dvelja á landinu sem ferðamaður, hvort sem hann er áritunarskyldur eða ekki. 

Langtímavegabréfsáritun er einungis heimilt að gefa út einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili.

Handhafi langtímavegabréfsáritunar fær ekki kennitölu og má ekki stunda atvinnu á Íslandi.

Gjald fyrir umsókn um langtímavegabréfsáritun er 12.200 kr.

Skilyrði 

Þú getur fengið útgefna langtímavegabréfsáritun ef:

 • þú ert í löglegri dvöl hér á landi

 • þú ætlar þér ekki að setjast að á landinu

 • tilgangur dvalarinnar fellur ekki undir neinn dvalarleyfisflokk 

 • þú hefur ekki fengið útgefna langtímavegabréfsáritun á síðustu 12 mánuðum.

Dæmi um heimildir

Dæmi um tilvik þegar heimilt er að gefa út langtímavegabréfsáritun:

 • Til aðstandenda sem hyggjast koma í lengri heimsókn hingað til lands. Heimilt er að víkja frá aldursskilyrði foreldra umsækjanda við útgáfu langtímavegabréfsáritunar. Sjá nánar í 1. málsgrein 69. greinar laga um útlendinga.

 • Til vitna eða aðila að dómsmáli sem þurfa að dveljast hér vegna reksturs málsins.

 • Til útlendinga sem hingað koma í öðrum lögmætum tilgangi, svo sem listamanna, vísindamanna eða íþróttamanna, enda kalli dvöl þeirra ekki á útgáfu dvalar- og/eða atvinnuleyfis.

Umsóknarferli

Nauðsynlegt er að þú sækir um langtímavegabréfsáritun tímanlega. Ef þú ert áritunarskyldur þarftu að sækja um þegar minnst 14 dagar eru eftir af gildistíma áritunar. Ef þú ert undanþegin/-n áritunarskyldu þarftu að sækja um minnst 14 dögum áður en 90 dagar eru liðnir frá því að þú komst inn á Schengen-svæðið.

Ef fullnægjandi gögn berast ekki til Útlendingastofnunar með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.

Fylgigögn með umsókn

 • Greiðslukvittun, ef greitt hefur verið fyrir umsóknina í banka. Koma þarf skýrt fram fyrir hvern er verið að greiða. Skráið nafn umsækjanda, fæðingardag og fæðingarár í tilvísun.

 • Passamynd (35mm x 45mm) ekki eldri en 6 mánaða.

 • Ljósrit vegabréfs. Gildistími vegabréfs skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma áritunar. Ljósrit þarf að vera af:
  - persónusíðu
  - síðu með undirskrift umsækjanda
  - áritunum 
  - komu- og brottfararstimplum inn á og út af Schengen-svæðinu á síðastliðnu ári. 

 • Gögn sem staðfesta tilgang dvalar hér á landi, til dæmis:
  - boðsbréf frá gestgjafa
  - staðfesting á dvöl í listasetri
  - skjöl frá dómstólum vegna málsmeðferðar
  - eða greinargerð þar sem tilgangi dvalar hér á landi er lýst.

 • Gögn sem sanna að framfærsla umsækjanda sé trygg þann tíma sem dvalið er hér á landi. Sjá nánar um kröfur um framfærslu vegna dvalar á Íslandi.

 • Ferðasjúkratrygging fyrir þann tíma sem þú dvelur hér á landi. 

 • Farmiði fyrir heimferð eða sönnun þess að þú hafir fjárráð til að greiða fyrir heimför þegar dvöl hér á landi lýkur.

 • Sakavottorð, ef ástæða þykir til getur Útlendingastofnun farið fram á að umsækjandi skili inn sakavottorði.

Gögn sem er heimilt að leggja fram

Umboð þarf ekki að berast nema þú viljir að annar einstaklingur geti fengið upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar.

Umsókn um langtímavegabréfsáritun

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun