Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Varað við að flytja inn vinnuvélar og tæki sem ekki eru CE-merkt eða ranglega CE-merkt 

16. desember 2025

Vinnueftirlitið hefur orðið vart við vaxandi innflutning á vinnuvélum og tækjum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem ekki eru CE-merkt eða ranglega CE-merkt. Áréttað er að þau þurfa að vera CE-merkt svo hægt sé að selja þau og nota hér á landi. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með að svo sé. 

Ástæða þessa að vélar og tæki þurfa að vera CE-merkt er að merkið gefur til kynna að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili ábyrgist að vinnuvélin eða tækið uppfylli ákveðnar öryggiskröfur sem hafa verið samræmdar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Öryggisins vegna er því afar mikilvægt að vinnuvélar og tæki séu framleidd í samræmi við þessar kröfur.

Vinnueftirlitið hefur heimildir til að banna sölu og markaðssetningu vinnuvéla og tækja sem eru ekki CE-merkt eða þegar rökstuddur grunur er um að þau hafi verið ranglega CE-merkt. Haldið er úti virku markaðseftirliti við skráningu og skoðun vinnuvéla og tækja sem sérfræðingar stofnunarinnar í vélaeftirliti annast.

CE-merkið á að vera greinilegt og óafmáanlegt af vélinni. Það eru hvorki að finna undanþágur í lögum eða reglugerðum enda er verið að tryggja öryggi og velferð starfsfólks og annarra sem koma til með að nota vélina eða tækið. Það getur því reynst kostnaðarsamt fyrir innflytjendur að flytja inn vinnuvélar og tæki sem ekki eru CE-merkt eða ranglega CE-merkt.

Vinnueftirlitið hvetur innflytjendur vinnuvéla og tækja að ganga úr skugga um að þau séu réttilega CE-merkt og uppfylli þannig þær öryggiskröfur sem íslensk lög og reglur gera kröfur um. Staldrið við áður en gengið er frá kaupum á vinnuvélum og tækjum og kannið málið vel. Það getur margborgað sig.

Tökum höndum saman og tryggjum að öll komi heil heim.