Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni
2. febrúar 2023
Vinnueftirlitið hefur hleypt af stað nýrri herferð gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir yfirskriftinni #TökumHöndumSaman. Tilgangurinn er að hvetja vinnustaði til að grípa til aðgerða með forvörnum, fræðslu og markvissum viðbrögðum.
Aðgerðavakning
Öflug vitundarvakning um neikvæð áhrif kynferðislegrar áreitni hefur átt sér stað á undanförnum árum. Vinnueftirlitið vill leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn þessari hegðun og hefur í samtarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins, embætti landlæknis, Jafnréttisstofu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hleypt af stað sérstakri aðgerðavakningu gegn kynferðislegri áreitni.
Með aðgerðavakningunni vill stofnunin hvetja vinnustaði til að gefa skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin og að brugðist verði við gerist þess þörf. Það er til mikils að vinna því kynferðisleg áreitni getur valdið starfsfólki heilsutjóni og haft neikvæð áhrif á árangur, framleiðni og orðspor vinnustaða.
Sjónvarpsauglýsing
Hér að neðan má sjá nýja sjónvarpsauglýsingu sem ætlað er að vekja athygli almennings og stjórnenda á vinnustöðum á aðgerðarvakningunni og þeim verkfærum sem til staðar eru til að bregðast við kynferðislegri áreitni.
Fræðsluefni og hagnýt verkfæri
Nýtt fræðsluefni hefur verið þróað og gert aðgengilegt hér á vefnum auk ýmissa hagnýtra verkfæra. Þeim er ætlað að styðja við atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólk í að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.
Meðal efnis og verkfæra má nefna fræðslumyndbönd um birtingamyndir og afleiðingar kynferðislegrar áreitni og æskileg viðbrögð vinnustaða og starfsfólks þegar slík mál koma upp. Einnig er hægt að nálgast nýtt stafrænt flæðirit fyrir vinnustaði sem skýrir feril máls með myndrænum hætti og fylgir því gátlisti um mikilvæg atriði sem þarf að hafa í huga til að tryggja góða málsmeðferð. Bæði fyrir ætlaða þolendur og gerendur.
Vinnueftirlitið hefur átt gott samstarf við alla þá sem standa að þessu mikilvæga verkefni en markmiðið er að endurspegla þarfir sem flestra vinnustaða í þessu tilliti. Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunninn að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi og stuðlar að því að öll komi heil heim.Vonast er til að verkfærin veiti stjórnendum og starfsfólki nauðsynlegar upplýsingar og stuðning til að grípa til aðgerða og taka höndum saman gegn kynferðislegri áreitni á vinnustað.
Starfsfólk Vinnueftirlitsins veitir nánari upplýsingar í síma 550-4600 eða í gegnum netspjall. Eins er hægt að senda tölvupóst á netfang stofnunarinnar vinnueftirlit@ver.is eða upplýsingafulltrúa, Veru Einarsdóttur, á vera.einarsdottir@ver.is