Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Heilbrigð vinnustaðamenning er besta forvörnin

8. nóvember 2025

Vinnueftirlitið hvetur vinnustaði landsins til að staldra við í tilefni forvarnardags gegn einelti sem er í dag og huga að vinnustaðamenningunni. Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks og er lykillinn að árangri.

Vinnustaðamenningin endurspeglar þau gildi, viðhorf og venjur sem ríkja á hverjum tíma og móta hvernig starfsfólk talar saman, leysir úr málum og á í samskiptum. Þegar menningin byggir á jákvæðum gildum og skýrum viðmiðum skapast traust og sálrænt öryggi. Ef ekki er hugað markvisst að því hvernig menningu vinnustaðurinn vill hafa er hætta á að hún móti sig sjálf og samskipti skorti mörk og ábyrgð. Með því eykst hætta á að jarðvegur skapist fyrir einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Þegar stjórnendur og starfsfólk vinnur saman að því að leggja rækt við heilbrigða vinnustaðamenningu verður til sameiginlegt leiðarljós fyrir samskipti og hegðun. Skýr gildi og viðmið hjálpa starfsfólki að setja mörk, axla ábyrgð og eiga í uppbyggilegum samskiptum.

Ein leið til að móta slík viðmið er að vinna að gerð samskiptasáttmála, þar sem starfsfólk og stjórnendur koma sér saman um hvernig vinsemd, virðing og traust birtast í daglegum samskiptum og vinnulagi. Með slíkri menningu verða samskipti opin og heiðarleg og starfsfólk treystir sér til að benda á mál sem þarf að leysa, til dæmis samskiptavanda tengdum einelti, áreitni og ofbeldi. Heilbrigð vinnustaðamenning er því ekki einungis markmið í sjálfu sér heldur árangursrík forvörn sem stuðlar að öryggi og vellíðan á vinnustað.

Heilbrigð vinnustaðamenning er samstarfsverkefni stjórnenda og starfsfólks. Stjórnendur leggja grunn að menningunni með því að skapa skýra sýn og ganga á undan með góðu fordæmi. Þeir setja viðmið með því hvernig þeir tala við starfsfólk, taka ákvarðanir og bregðast við málum sem koma upp. Starfsfólk leggur einnig sitt af mörkum með því að tileinka sér stefnu og gildi vinnustaðarins, axla ábyrgð á eigin hegðun og sýna samstarfsfólki virðingu og vinsemd. Þegar öll taka þátt, þekkja sín hlutverk og vita til hvers er ætlast af þeim er sköpuð menning sem styður við öryggi, virðingu og vellíðan allra og um leið dregur úr líkum á einelti, áreitni og ofbeldi.

Á vefsíðu Vinnueftirlitsins má finna fræðsluefni og hagnýt verkfæri til að efla heilbrigða vinnustaðamenningu. Þar má finna myndbönd um vinnustaðamenningu og traust, ásamt fróðleiksmolum um gerð samskiptasáttmála. Með því að nýta þessi verkfæri geta vinnustaðir lagt grunn að öflugum forvörnum gegn einelti, áreitni og ofbeldi og mótað vinnuumhverfi þar sem starfsfólki líður vel, upplifir öryggi og nær árangri.

Öll heil heim starfsævina á enda.