Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Beitum okkur rétt við vinnu í mannvirkjagerð

27. apríl 2023

Í tilefni af alþjóðadegi vinnuverndar 28. apríl vekur Vinnueftirlitið athygli á mikilvægi þess að starfsfólk gæti að góðri líkamsbeitingu við vinnu. Gildir það um hvaða störf sem er en að þessu sinni er sjónum beint að starfsfólki sem starfar við mannvirkjagerð og hefur stofnunin gefið út þrjú ný veggspjöld því tengt. Eitt fjallar almennt um góða líkamsbeitingu við vinnu í mannvirkjagerð, annað um einhæfa álagsvinnu og þriðja um það að lyfta þungu.

vinna i mannvirkjagerð

Vinna í mannvirkjagerð getur falið í sér líkamlegt álag og þegar ekki er farið rétt að getur það haft neikvæð áhrif síðar á ævinni. Öll viljum við komast hjá því að þurfa að líta í baksýnisspegilinn ef þrálátir stoðkerfisverkir láta á sér kræla svo sem verkir í baki, öxlum, hálsi og hnjám. Þess vegna skiptir rétt líkamsbeiting svo miklu máli og má ekki gleymast í erli hversdagsins.

Atvinnurekendur þurfa að tryggja eins góðar vinnuaðstæður og kostur er, svo sem viðeigandi hlífðarbúnað og léttitæki, en á sama tíma þarf starfsfólkið sjálft að huga að því hvernig það beitir líkamanum frá degi til dags.

Mikið er í húfi því stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og ein algengasta orsök örorku. Öll viljum við hins vegar koma heil heim úr vinnu – starfsævina á enda.

Veggspjöldunum er ætlað að minna á æskilegar vinnustellingar og hvað er hægt að gera til að draga úr álagi. Hægt er að velja um þrjár mismunandi stærðir til útprentunar á íslensku, ensku og pólsku.

Vinnueftirlitið hvetur vinnustaði til að prenta þau og hafa sýnileg á vinnustöðum eða gera starfsfólki aðgengileg á vefformi.