Fara beint í efnið

Jafnlaunastefna

Markmið og gildissvið

Markmið jafnlaunastefnu Útlendingastofnunar er að tryggja launajafnrétti kynjanna. Greiða skal sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og þar með tryggja jafna stöðu kynja innan stofnunarinnar. Þá felur jafnlaunastefnan í sér skuldbindingu um stöðugar umbætur og eftirlit. Jafnlaunastefnan gildir fyrir allt starfsfólk Útlendingastofnunar.

Ábyrgð

Forstjóri ber ábyrgð á að jafnlaunakerfi stofnunarinnar sé í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST85:2012, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna auk annarra krafa sem hafa áhrif á jafnlaunakerfið.

Mannauðsstjóri er fulltrúi æðstu stjórnenda og annast daglega umsýslu jafnlaunakerfisins. Mannauðsstjóri skilar skýrslum til æðstu stjórnenda um jafnlaunakerfið, til að mynda gæði þess og skilvirkni auk tilmæla um úrbætur. 

Framkvæmd

Forstjóri og æðstu stjórnendur setja fram jafnlaunamarkmið sem ná til allra starfseininga Útlendingastofnunar og rýna jafnlaunakerfið árlega. Jafnlaunamarkmið skulu endurskoðuð út frá niðurstöðum launagreiningar.

Laun og önnur starfskjör skulu ákvörðuð eftir umfangi og eðli starfa og taka mið af kröfum starfa um þekkingu, hæfni og ábyrgð. Forsendur launaákvarðana skulu vera í samræmi við gildandi kjara- og stofnanasamninga og byggjast á málefnalegum forsendum óháð kyni.

Launagreiningu skal framkvæma árlega til að framfylgja jafnlaunastefnunni, þá eru borin saman jafnverðmæt og sambærileg störf og kanna hvort mælist munur eftir kyni. Mannauðsstjóri skal tryggja að stöðugar umbætur eigi sér stað. Stjórnendur skuldbinda sig til þess að vinna að stöðugum umbótum og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni.

Ef upp kann að koma óútskýrður munur á launum fyrir sambærileg störf skal leita skýringa og vinna að umbótum eins og við á. Mannauðsstjóri útbýr áætlanir um umbótarverkefni í samræmi við verklagsreglur.

Til þess að framfylgja jafnlaunastefnunni hefur Útlendingastofnun skuldbundið sig til að:

  • Skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins og viðhalda jafnlaunavottun í samræmi við gildandi lög og reglur á hverjum tíma

  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort kynbundinn launamunur sé til staðar

  • Kynna starfsfólki niðurstöður launagreiningar hvað varðar kynbundinn launamun

  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti

  • Framkvæma innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega

  • Birta jafnlaunastefnuna á innri vef og kynna hana öllu starfsfólki

  • Tryggja að jafnlaunastefnan sé aðgengileg almenningi á vef stofnunarinnar


Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Útlendingastofnunar.