Um Matsferil
Matsferill byggir á hugmyndinni um hringrás mats og kennslu. Hringrásin hefst á því að kennari, skóli eða sveitarfélag ákveða að afla upplýsinga um stöðu nemenda sinna með því að leggja fyrir próf. Þegar niðurstöður liggja fyrir er rýnt í niðurstöður einstakra nemenda og heils hóps. Þær eru settar í samhengi við það sem átt hefur sér stað í kennslu, og aðrar upplýsingar og reynslu sem kennari hefur af vinnu sinni með nemendum fram að mati. Niðurstöður eru einnig túlkaðar út frá frammistöðu nemenda eða hópa á öðrum prófum.
Þegar búið er að greina og túlka niðurstöður hefst vinna við að skipuleggja eða endurskipuleggja áherslur í kennslu út frá stöðu einstakra nemenda eða hóps. Mikilvægt er að hafa í huga að við öflun upplýsinga um stöðu nemenda skapast siðferðileg skylda hjá kennara, skóla og sveitarfélögum að bregðast við þeim með réttum hætti og í þágu nemenda – sérstaklega ef grunur leikur á vanda hjá barni eða þegar staða hóps er einhverra hluta vegna slök.
Veigamesti þátturinn í hringrásinni er sjálf kennslan en þar reynir mest á þekkingu, reynslu og samvinnu kennara. Haga þarf kennsluskipulagi í bekk eða innan skóla þannig að komið sé til móts við alla nemendur og að vönduð kennsla og öflug stoðþjónusta þoki öllum nemendum í átt að betri árangri í námi út frá styrk- og veikleikum þeirra. Að lokinni kennslulotu fer fram endurmat á stöðu nemanda eða hópa og þegar niðurstöður þess liggja fyrir hefst hringrásin aftur.
Með því að nota gögn og upplýsingar sem fást úr Matsferli með markvissum hætti er hægt að leggja traustan grunn að gæðaskólastarfi. Notkun Matsferils á þátt í að eyða óvissu því staðan er metin reglulega og niðurstöður notaðar til að varða leiðina í átt að árangursríku námi.

Matstækin – ólíkar gerðir af prófum
Til þess að fylgjast með þroska og námsframvindu barna þarf fjölbreytt matstæki. Matsferill inniheldur þessi matstæki og aflar upplýsinga um stöðu og framfarir nemenda á mörgum sviðum, svo sem málþroska, lesfimi, stærðfræði og lesskilningi.
Matstæki Matsferils innihalda verkefni sem eru lögð fyrir nemendur til að fá upplýsingar um hvernig þeim gengur í námi. Þegar fylgst er með framvindu nemandans er matstækið lagt fyrir reglulega og skoðað hversu vel viðkomandi gengur að ná tökum á námsefninu. Sum matstæki Matsferils veita líka upplýsingar um hvort nemendur séu að glíma við einhverja tiltekna erfiðleika og hvort þurfi að aðstoða þá sérstaklega á því sviði.
Samhliða útgáfu hvers matstækis þarf að útbúa náms- og íhlutunarefni, skipuleggja innleiðingu og veita sveitarfélögum, skólum og forsjáraðilum fræðslu og ráðgjöf svo hægt sé að bregðast við niðurstöðum með árangursríkum hætti. Allt byggist þetta á fræðilegum grunni þar sem nýjustu rannsóknir eru hafðar til hliðsjónar.
Matstæki eru ólík í eðli sínu og mikilvægt er að notendur þeirra hafi góðan skilning á því hvað þau meta, hvaða upplýsingar eru fólgnar í niðurstöðunum og hvernig er rétt að túlka þær og nota. Hér er hægt að kynna sér helstu flokka prófa sem finna má í Matsferli.