Landspítalinn vinnur stöðugt að því að bæta þjónustu og gæði. Þetta er gert með gæðaeftirliti og sérstökum gæðaverkefnum.
Gæðaeftirlit og Gæðaverkefni
Gæðaeftirlit er hluti af venjulegri starfsemi spítalans til að meta gæði þjónustu. Það felur í sér að skoða gögn, vinnuferla og fleira.
Gæðaverkefni er markviss skoðun á gæðum starfsemi til að finna leiðir til umbóta.
Ekki þarf sérstakt leyfi frá vísindasiðanefnd eða Persónuvernd fyrir gæðaverkefnum, því þau teljast hluti af venjubundinni stjórnsýslu og lögbundinni skyldu Landspítalans, nema þau séu líka vísindarannsókn.
Gæðaverkefni verður að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Upplýsingaöflun: Safnað er upplýsingum til umbóta, til dæmis með viðtölum, könnunum, eða úttektum. Gögn geta komið frá sjúklingum, starfsmönnum eða skrám.
Framkvæmd: Starfsmenn Landspítalans sjá um verkefnið með samþykki stjórnenda.
Markmið: Verkefnið miðar einungis að innri umbótum á Landspítalanum. Niðurstöður má einnig nota til samanburðar við aðrar stofnanir.
Ef gögn úr gæðaverkefni eru síðar notuð í vísindarannsókn til að afla nýrrar þekkingar, þarf að sækja um leyfi fyrir þeirri rannsókn.
Vísindarannsóknir
Vísindarannsókn er skilgreind sem rannsókn til að auka þekkingu til að bæta heilsu eða lækna sjúkdóma, og fylgir skilgreindu rannsóknarferli. Öll upplýsingaöflun sem er ekki eingöngu til þjónustu eða umbóta, eða felur í sér íhlutun eða inngrip fyrir sjúklinga, telst vísindarannsókn.
Allar vísindarannsóknir þurfa leyfi frá vísindasiðanefnd eða siðanefndar Landspítalans og eftir atvikum, tilkynningu eða leyfi frá Persónuvernd.
Ef rannsókn felur í sér samband við sjúklinga á Landspítalanum sem ekki eru í umsjón rannsakanda, skal samráð haft við lækni sjúklingsins áður en rannsókn hefst.
Rannsakendur sem ætla að nota sjúkraskrár Landspítalans eða hafa samband við sjúklinga eftir útskrift, skulu afla leyfis hjá framkvæmdastjóra lækninga áður en rannsókn hefst.
Rannsókn er leyfisskyld ef eitt eða fleira af eftirfarandi á við
Upplýsingum er safnað fyrst og fremst til að afla nýrrar þekkingar.
Rannsóknin fylgir skilgreindu rannsóknarferli (research process).
Rannsóknin felur í sér íhlutun, inngrip, þátttöku, óþægindi eða ónæði fyrir sjúklinga eða aðstandendur.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru ætlaðar til birtingar á ráðstefnum eða í ritrýndum tímaritum.
Ef óvissa er um hvort verkefni sé gæðaverkefni eða vísindarannsókn, skal leita álits viðeigandi siðanefndar.
Þessar reglur eru byggðar á viðmiðum vísindasiðanefndar, staðfestar af framkvæmdastjórn Landspítalans og verða endurskoðaðar eftir þörfum.