Atvikaskráning og gæðamál
Atvik og öryggiskross
Hægt er að fyrirbyggja flesta þrýstingsskaða og því er það frávik frá meðferð ef þrýstingsskaði myndast hjá sjúklingi. Heilbrigðisstarfsfólki ber að skrá þrýstingsskaða sem atvik.
Öryggiskross er gott tæki til að halda utan um atvik tengd þrýstingsskaða sem verða á deild og ætti að vera hluti af umbótatöflu deilda. Öryggiskross inniheldur einn reit fyrir hvern mánaðardag. Á hverjum degi er mánaðardagurinn á undan litaður með grænu ef enginn nýr þrýstingsskaði myndaðist þann dag á deildinni en reiturinn er merktur rauður ef nýr þrýstingsskaði myndaðist á deildinni.
Sjá nánar um notkun öryggiskrossins í gæðaskjali LSH-1111.

Skráning tengd þrýstingskaðavörnum
Leiðbeiningar um skráningu tengda þrýstingsskaðavörnum á Landspítala er að finna í gæðaskjali LSH-435.
Gæðastaðall
Á Landspítala er til gæðastaðall um þrýstingsskaða, yfirmarkmið hans eru:
Að nýgengi þrýstingsskaða á Landspítala sé nálægt 0%.
Að skráning sé samkvæmt gæðaskjölum.
Að allir sjúklingar fái viðeigandi þrýstingsskaðavarnabúnað þegar þörf krefur.
Að þrýstingsskaðavarnabúnaður sé í lagi, yfirfarinn, hreinn og aðgengilegur þegar þörf er á honum.
Að unnið sé eftir HAMUR verklaginu hjá sjúklingum í áhættu á öllum deildum Landspítala.
Að húðskoðun sé alltaf framkvæmd við innlögn, við flutning á milli deilda og tvisvar á dag hjá sjúklingum í áhættu.
Að starfsmenn fái viðeigandi þjálfun og fræðslu tengt innleiðingu HAMUR verklags og bættrar skráningar.
Að allir sjúklingar séu áhættumetnir við innlögn, vikulega eftir það eða fyrr ef ástand þeirra breytist.
Að allur þrýstingsskaði sem myndast á Landspítala sé atvikaskráður, rýnt sé í verklag og gerðar úrbætur.
Að skráð sé í sjúkraskrá hvort sjúklingar séu með þrýstingsskaða við innlögn.
