Afleiðingar, stigun og mismunagreining
Þrýstingsskaði getur verið allt frá roðabletti á órofinni húð að djúpu sári sem nær inn í bein. Þrýstingsskaði er stigaður eftir alvarleika vefjaskemmdar.
Fyrsta stigs þrýstingsskaði
Fyrsta stigs þrýstingsskaði er roðablettur á húð sem ekki hvítnar (non- blanchable) þegar þrýst er á með fingri. Um er að ræða vefjaskaða á yfirborði húðar.

Fingurprófið er framkvæmt þannig að fingri er þrýst á roðablett í stutta stund og sleppt snöggt. Ef roðablettur hvítnar við fingurprófið er um eðlileg viðbrögð líkamans við tímabundnum þrýstingi að ræða. Ef roðablettur hvítnar hins vegar ekki undan þrýstingnum er það merki um vefjaskemmd þ.e. 1. stigs þrýstingsskaða.
Hjá einstaklingum með dökka húð getur verið erfitt að greina roðablett en vísbendingar um fyrsta stigs þrýstingsskaða getur birst sem hiti í húð, hersli og eymsli.
Annars stigs þrýstingsskaði
Þrýstingsskaði á öðru stigi er vefjaskemmd inn í eða að leðurhúð. Þrýstingsskaðinn getur verið órofin blaðra eða fleiður.

Þriðja stigs þrýstingsskaði
Þriðja stigs þrýstingsskaði er vefjaskemmd sem nær niður í undirhúð, allt að bandvefshimnu en fer ekki í gegnum hana. Það fer eftir staðsetningu þrýstingsskaðans hversu djúpur 3. stigs þrýstingsskaði er. Á hæl er grunnt að beini og því þarf þrýstingsskaði ekki að vera orðinn djúpur þar til að teljast vera á stigi þrjú.

Fjórða stigs þrýstingsskaði
Fjórða stigs þrýstingsskaði er alvarlegasti og jafnframt kostnaðarsamasti þrýstingsskaðinn. Í fjórða stigs þrýstingsskaða er vefjaskemmdin eða drepið komið í gegnum bandvefshimnuna og nær inn í undirliggjandi vöðva, sinar eða bein.

Óstigaður þrýstingsskaði - Grunur um djúpan þrýstingsskaða
Grunur um djúpan þrýstingsskaða eða óstiganlegur þrýstingsskaði er þegar ekki sést í sárabotninn. Húðin getur bæði verið rofin og órofin í þessum flokki þrýstingsskaða en oftast er um alvarlegan þrýstingsskaða að ræða.


Mismunagreining
Vert er að benda á að húðbruni vegna þvags- og/eða hægðaleka (IAD) getur líkst þrýstingsskaða. Til að auðvelda aðgreiningu þá er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
IAD orsakast af þvag og/eða hægðaleka. Ef sjúklingur er ekki með þvag- og /eða hægðaleka þá má gera ráð fyrir að roði eða sár sé þrýstingsskaði.
IAD fylgir oft sviði, kláði og stingir ásamt verkjum en oftast eru eingöngu verkir í þrýstingsskaða.
IAD er oft á svæðum þar sem bein eru ekki útstæð eins og innanvert á lærum og kynfærum. Roðinn eða sárin geta verið á stórum húðsvæðum og jaðrar svæðisins stundum óljósir.
Þrýstingsskaði er oftast yfir útstæðum beinum (spjaldbein og setbein) eða vegna þrýstings frá íhlutum og jaðrar roða eða sárs eru frekar afmarkaðir.
Roði í IAD hvítnar við fingurprófið en ekki í 1. stigs þrýstingsskaða.
Í IAD er stundum talað um fiðrildi þ.e. sár eru samhverf á rasskinnum eða þar sem húð liggur við húð.

