Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Algengar staðsetningar skaða

Spjaldhryggur

Langflestir þrýstingsskaðar myndast á spjaldhrygg eða hæl.

Í baklegu hvílir þungi mjaðmasvæðis, sem er eitt af þyngstu svæðum líkamans, á spjaldhrygg.

Beinendar spjaldhryggs eru útstæðir og auðvelt er að finna hversu grunnt er á þessi bein við þreifingu.

Einstaklingar með hreyfiskerðingu eiga erfitt með að lyfta spjaldbeinssvæði upp við hreyfingu í rúmi og því myndast oft núningur og tog á húð á spjaldhrygg þegar þeir hagræða sér og hreyfa í rúmi.

Setbein

Þegar setið er í stól eða rúmi liggur megin þungi líkamans á setbeinum og því myndast mikill þrýstingur á húðsvæði og mjúkvefi þar undir. Hjá sjúklingum sem eiga erfitt með að hagræða sér og skipta um stellingu getur myndast tog á húð og innri vefi þegar þeir síga niður í rúmi eða stól.

Mjöðm

Við 90° hliðarlegu liggur þungi líkamans á stóru lærhnútunni (trochanter major) og því verður þrýstingur á húð og mjúkvefi þar í kring.

Hæll

Í baklegu hvílir mikill þungi á litlu húðsvæði hælsins þar sem grunnt er að beini og við það myndast þrýstingur sem oft veldur alvarlegum þrýstingsskaða á hæl. Núningur getur auk þess orsakað blöðrumyndun á hæl hjá sjúklingum sem eru með hreyfiskerðingu eða ósjálfráðar hreyfingar. Þessar blöðrur eru vessa- eða blóðfylltar og getur djúpur vefjaskaði myndast þó svo að húðin sé órofin.

Ökkli

Ökklabeinin eru útstæð og auðvelt er að þreifa þau. Við hliðarlegu er hætta á þrýstingi á húð og mjúkvefi, ýmist yfir innan- eða utanverðum ökklabeinum. Í einhverjum tilvikum getur einnig orðið núningur á ökklabeinssvæðunum sem veiklar húðina.

Hnakki

Á hnakkanum er mjög grunnt að beini líkt og á öllum stöðum höfuðkúpunnar en í baklegu liggur þungi höfuðsins á hnakkanum og veldur þrýstingi á undirliggjandi húð.

Eyra

Á eyranu er grunnt að brjóski og myndast þrýstingur á húðsvæði eyrans við hliðar- og magalegu.

Hryggur

Herðablað og í raun öll hryggjarsúlan er beinabert svæði, sérstaklega hjá þeim sem eru grannholda. Við baklegu verður oft mikill þrýstingur og tog á þessi húðsvæði en einnig við setu í stól.

Olnbogi

Olnbogar eru beinaberir. Oft liggur þungi bols og höfuðs á olnbogum við setu í rúmi og í stól með örmum, einnig við notkun hárra göngugrinda. Á olnbogum verður oft núningur sem veikir varnir húðarinnar.

Húðsvæði undir íhlutum, lækningatækjum o.fl.

Þrýstingsskaði sem ekki er yfir beinaberum svæðum myndast oftast vegna þrýstings af völdum íhluta, lækningatækja eða utanaðkomandi hluta sem þrýsta á húð. Dæmi um hluti sem geta valdið svona þrýstingsskaða eru

  • mettunarmælar

  • súrefnisslöngur

  • þvagleggir

  • fatnaður eins og sokkar og nærföt

  • hlutir sem hafa óviljandi lent í rúmi eða stól sjúklings t.d. nálahulstur, tappar, hnífapör o.fl.

Á myndinni er lítið læknistæki sem hefur legið upp við húð og valdið þrýstingsskaða