Reglur dómstólasýslunnar
Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2024
LEIÐBEINANDI
1. grein
Ákvörðun málsvarnarlauna verjanda þegar fram fer sókn og vörn
1. Bóka skal nákvæmlega hvenær þinghald hefst og hvenær því lýkur og miða málsvarnarlaun við þann tíma, þó þannig að brot úr klukkustund telst heil klukkustund.
2. Dómari skal ætla verjanda tíma fyrir yfirlestur málsins og undirbúning málflutnings með tilliti til eðli sakarefnisins og umfangs málsins.
3. Fyrir fjölda klukkustunda samkvæmt töluliðum 1 og 2 skal greiða 26.000 krónur á tímann.
4. Málsvarnarlaun skulu þó aldrei vera lægri en 130.000 krónur.
5. Leggi verjandi fram tímaskýrslu skal framangreint haft í huga við mat á réttmæti hennar.
2. grein
Ákvörðun þóknunar verjanda þegar ekki fer fram sókn og vörn
1. Þegar mál er ekki sótt og varið er ákvörðunin nefnd þóknun en ekki málsvarnarlaun.
2. Fyrir þessi störf skulu greiddar 104.000 til 182.000 krónur, sem dómari ákveður í samræmi við þá vinnu sem hann telur verjanda hafa innt af höndum.
3. Miða skal við þegar verjandi fer með mál vegna einfaldra játaðra brota, t.d. vegna eins brots, aksturs eftir sviptingu eða ölvunaraksturs, að fjárhæðir séu lægri en þegar um mikinn lestur málskjala að ræða. Í síðarnefndum tilvikum getur þóknun farið fram úr framangreindu hámarki og það sama gildir ef verjandi þarf að mæta oftar en einu sinni vegna erfiðleika við að ná til ákærða.
4. Að öðru leyti gilda 1. til 3. töluliður 1. gr.
3. grein
Ákvörðun þóknunar lögmanns þegar krafa er gerð um símahlustun eða önnur sambærileg úrræði
Í þóknun skipaðs lögmanns við símahlustun eða önnur sambærileg úrræði á grundvelli IX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal greiða 52.000 krónur en sé um fleiri mál að ræða sem tekin eru fyrir samhliða skal fjárhæðin lækka í eðlilegu samræmi við það.
4. grein
Ákvörðun þóknunar verjanda á rannsóknarstigi
Þóknun fyrir störf verjanda á rannsóknarstigi skal greidd samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu um starf hans og skal tímagjaldið vera 26.000 krónur. Ef líkur eru á að yfirheyrsla hafi staðið í skemmri tíma en í tímaskýrslu greinir er dómara rétt að óska eftir því að fá lögregluskýrslu í hendur eða leita upplýsinga lögreglu um tímalengd. Enn fremur er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.
5. grein
Ákvörðun þóknunar réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi
Þóknun skal greidd samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu um starf réttargæslumanns og skal tímagjaldið vera 26.000 krónur. Ef líkur eru á að yfirheyrsla hafi staðið í skemmri tíma en í tímaskýrslu greinir er dómara rétt að óska eftir því að fá lögregluskýrslu í hendur eða leita upplýsinga lögreglu um tímalengd. Enn fremur er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.
6. grein
Þóknun vegna þess tíma sem fer í ferðalög og ferðakostnaður
1. Þegar verjandi eða réttargæslumaður þarf vegna starfa sinna að ferðast lengur en hálfa klukkustund skal tekið tillit til þess við ákvörðun þóknunar og málsvarnarlauna.
2. Enn fremur skal á rannsóknarstigi ákveðinn ferðakostnaður í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar, sbr. nú auglýsingu nr. 1/2019 um akstursgjald ríkisstarfsmanna. Nauðsynlegar flugferðir ber að greiða samkvæmt reikningi. Þá skulu einnig ákveðnir dagpeningar ef skilyrðum til greiðslu þeirra er fullnægt, sbr. nú auglýsingu nr. 3/2019 um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands.
7. grein
Virðisaukaskattur
Þegar fjárhæð þóknunar verjanda, skipaðs lögmanns við símahlustun eða sambærileg úrræði eða réttargæslumanns brotaþola er ákveðin skal það gert að viðbættum virðisaukaskatti og þegar máli lýkur með dómsúrlausn skal greint frá því í forsendum hennar að tekið hafi verið tillit til skattsins. Sama á við þegar þóknun er ákveðin með viðurlagaákvörðun, bókun eða bréfi dómara.
8. grein
Greiðslur til lögreglumanna
Lögreglumönnum sem gefa skýrslu fyrir dómi skal aðeins greiddur ferðakostnaður eða annar útlagður kostnaður.
9. grein
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2024 og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1/2023 um málsvarnarlaun eða þóknun til verjanda og þóknun til réttargæslumanna og fleiri.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. desember 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2024
LEIÐBEINANDI
1. grein
Almennt
Eftirfarandi reglur gilda um ákvörðun málskostnaðar þegar stefna er árituð í útivistarmáli eftir 113. gr. laga nr. 91/1991. Miðað er við að ákvörðun um málskostnað, skv. 4. gr. þessara reglna, taki tillit til kostnaðar af samningu stefnu í máli. Ekki er tekið tillit til kostnaðar við birtingu stefnu, þingfestingargjalda sem renna í ríkissjóð vegna málsins, sannanlegs milliinnheimtukostnaðar eða annars kostnaðar af því tagi. Sá kostnaður bætist því við fjárhæð sem ákveðin er skv. 4. gr.
Reglur þessar taka mið af XXI. kafla laga nr. 91/1991, IV. kafla lögmannalaga nr. 77/1998 og innheimtulaga nr. 95/2008.
2. grein
Grundvöllur viðmiðunar
Þegar stefna er árituð í útivistarmáli liggja til grundvallar ákvörðun um málskostnað öðru fremur sjónarmið um vinnu að baki gerð stefnunnar. Þó er í undantekningartilfellum heimilt að líta til annarra atriða, svo sem ef um sérfræðilega ráðgjöf er að ræða. Við ákvörðun málskostnaðar er heimilt að líta til þess ef um mörg samkynja mál er að ræða milli sömu aðila sem öll eru þingfest í sama þinghaldi. Einnig má líta til þess ef útivist hefur orðið af hálfu stefnda í máli sem áður hefur ítrekað verið frestað að kröfu stefnda.
3. grein
Áhrif þess að vanrækja að senda innheimtuviðvörun
Nú hefur innheimtuviðvörun skv. 7. gr. laga nr. 95/2008 ekki verið send skuldara áður en mál er höfðað og samningi er ekki fyrir að fara þar sem vikið er frá því ákvæði og skal þá málskostnaður að jafnaði ákveðinn í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009 um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. Ef mörg mál eru rekin milli sömu aðila skal tekið tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
4. grein
Einstaka fjárhæðir málskostnaðarákvörðunar
Málskostnaður skal að jafnaði ákveðinn innan eftirfarandi viðmiðunarflokka. Fjárhæð miðast við aðila sem er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi:
a. Einfalt innheimtumál 68.000 – 136.000 krónur
Í þennan flokk falla að jafnaði kröfur samkvæmt skuldabréfi, víxli, tékka, reikningi eða reikningsyfirliti.b. Viðameiri innheimtumál 136.000 – 204.000 krónur
Miðað er við að mál taki til viðameiri álitaefna en mál samkvæmt staflið a.c. Viðamikil mál með umfangsmikilli gagnaöflun 204.000 – 340.000 krónur
Miðað er við að um sé að ræða mál þar sem veruleg gagnaöflun hefur farið fram og álitaefni eru flókin.
Ef mál eru enn stærri í sniðum hvað varðar álitaefni og hagsmuni er heimilt að ákveða málskostnað hærri en að framan greinir, þó að hámarki 680.000 krónur.
5. grein
Endurskoðun
Reglur þessar sæta endurskoðun um viðmiðunarfjárhæðir þegar dómstólasýslan telur þess þörf í ljósi verðlagsþróunar.
6. gr.
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2024 og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1/2021.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. desember 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2024
LEIÐBEINANDI
1. grein
Tilnefning sérfróðs meðdómsmanns
Sérfróður meðdómsmaður skal tilnefndir úr röðum umsækjenda að undangenginni opinberri auglýsingu. Einnig verður meðdómsmaður tilnefndur eftir ábendingu dómara eða að tilhlutan dómstólasýslunnar. Þá getur dómstólasýslan tilnefnt meðdómsmann til meðferðar einstaks máls.
Dómstólasýslan skal ganga úr skugga um að þeir sem eru tilnefndir hafi fullnægjandi þekkingu og reynslu til að geta gengt starfi sérfróðs meðdómanda í dómsmálum á viðkomandi sérsviði og að þeir fullnægi almennum hæfisskilyrðum, samanber 3. mgr. 39. gr. laga um dómstóla númer 50/2016.
Dómstólasýslan ákveður eftir þörfum hvenær auglýst er eftir sérfróðum meðdómsmönnum til tilnefningar. Upplýsingar um tilnefningu sérfróðra meðdómsmanna skulu vera á vefsíðu dómstólasýslunnar.
Dómstólasýslan ákveður á hvaða fagsviðum sérfróðir meðdómsmenn skuli tilnefndir og hversu margir á hverju fagsviði. Ákvarðanir dómstólasýslunnar um fagsvið og fjölda tilnefninga skulu miðast við það að tryggja að þörfum dómstólanna sé mætt hverju sinni.
2. grein
Umsókn um tilnefningu
Í umsókn um tilnefningu sem sérfróður meðdómsmaður skal umsækjandi gera ítarlega grein fyrir menntun sinni og starfsreynslu á viðkomandi fagsviði. Umsóknareyðublað fyrir tilnefningu skal vera aðgengilegt á vefsíðu dómstólasýslunnar.
Með umsókn skal fylgja nýlegt sakavottorð og námsskírteini umsækjanda. Ef ástæða þykir til getur dómstólasýslan óskað eftir frekari gögnum frá umsækjanda.
3. grein
Listi yfir tilnefnda meðdómsmenn og tilkynning um tilnefningu
Þeir sem hljóta tilnefningu sem sérfróðir meðdómsmenn skal skipað á lista yfir þá og skal hann birtur á vefsíðu dómstólasýslunnar. Listi yfir sérfróða meðdómsmenn skal uppfærður reglulega.
Dómstólasýslan skal tilkynna með tölvupósti um tilnefningu til þess sem hana hefur hlotið. Nú hefur sérfróður meðdómsmaður verið tilnefndur til meðferðar einstaks máls, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016, og skal þá tekið fram í tilkynningunni að tilnefningin sé bundin við það mál.
Með tilkynningu samkvæmt 2. mgr. skal fylgja til undirritunar drengskaparheit sérfróðs meðdómsmanns og skal það endursent dómstólasýslunni.
4. grein
Upphaf og lok tilnefningar
Tilnefning sérfróðs meðdómsmanns tekur gildi þegar honum er send tilkynning um tilnefninguna skv. 2. mgr. 3. gr.
Tilnefning er til fimm ára og fellur hún sjálfkrafa niður að þeim tíma liðnum. Eftir ósk viðkomandi verður tilnefning endurnýjuð til fimm ára í senn.
Þegar tilnefning tekur til meðferðar einstaks máls fellur hún niður þegar máli er lokið.
Tilnefning fellur sjálfkrafa niður ef sá sem tilnefndur er missir almennt hæfi sitt skv. 3. mgr. 39. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016. Jafnframt getur dómstólasýslan fellt tilnefninguna niður ef veigamiklar ástæður mæla með því eða sá sem tilnefndur er óskar þess.
5. grein
Þóknun
Við ákvörðun þóknunar til sérfróðs meðdómsmanns skal dómsformaður áætla fjölda vinnustunda vegna yfirlesturs málsgagna og annars undirbúnings fyrir aðalmeðferð og fjölda vinnustunda eftir dómtöku máls. Við mat á þessu getur dómsformaður óskað eftir að meðdómsmaðurinn leggi fram sundurliðaða tímaskýrslu.
Fyrir áætlaðan fjölda vinnustunda skv. 1. mgr. að viðbættum þeim tíma sem þinghöld með meðdómsmanninum hafa tekið skulu greiddar 17.000 krónur fyrir hverja klukkustund. Frá því tímagjaldi má víkja ef sérstakar ástæður eru til.
6. grein
Útlagður kostnaður
Greiða skal útlagðan ferðakostnað sérfróðs meðdómsmanns í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar, sbr. auglýsing nr. 3/2015 um akstursgjald ríkisstarfsmanna. Ef meðdómsmaður þarf að ferðast um lengri veg vegna meðferðar málsins skulu greiddir dagpeningar, sbr. auglýsing nr. 2/2017. Annar útlagður kostnaður skal greiddur eftir reikningi.
7. grein
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Reglurnar öðlast gildi 1. janúar 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar 21. desember 2023.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
1. grein
Réttur til námsleyfis
Á hverju starfsári ávinnur dómari sér rétt til þriggja vikna námsleyfis. Leyfið getur hann fyrst tekið eftir að hafa starfað í fjögur ár og síðan á fjögurra ára fresti eftir það. Leyfi getur lengst orðið sex mánuðir. Dómari ávinnur sér ekki rétt til námsleyfis meðan á námsleyfi stendur.
Dómari heldur launum í námsleyfi og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað frá þeim dómstól sem hann starfar við.
Eigi dómari ekki kost á að ljúka námsleyfi sem honum hefur verið veitt heldur hann þó réttindum sem svara þeim hluta námsleyfisins sem hann átti ekki kost á að nýta.
Réttur til námsleyfis greiðist ekki út við starfslok.
2. grein
Umsókn um leyfi
Umsókn um námsleyfi skal skilað til dómstólasýslunnar á þar til gerðu eyðublaði fyrir 1. maí vegna leyfis á næsta almanaksári. Í umsókn um leyfi skal eftirfarandi koma fram:
a. Hvenær umsækjandi fékk skipun í embætti dómara.
b. Hvort umsækjandi hafi áður fengið námsleyfi og þá hvenær.
c. Hvaða nám eða fræðistörf umsækjandi ætli að leggja stund á í leyfi og hvernig það muni nýtast í starfi hans sem dómari. Ef við á skal tilgreina við hvaða skóla umsækjandi ætlar að stunda nám eða rannsóknir og hvort fyrirhugað sé að birta efni á grundvelli rannsókna umsækjenda.
d. Hvar umsækjandi ætli að dvelja á leyfistíma, hvort nauðsynlegt verði að stofna til ferða- og dvalarkostnaðar og áætlaðan ferða- og dvalarkostnað, ef við á.
e. Hvenær umsækjandi óskar eftir að taka námsleyfi.
3. grein
Meðferð umsókna
Dómstólasýslan skal fjalla um umsókn um námsleyfi svo fljótt sem kostur er. Eftir því sem efni eru til getur hún óskað frekari upplýsinga og gagna frá umsækjanda.
Dómstólasýslan skal leita umsagnar forstöðumanns viðkomandi dómstóls áður en ákvörðun er tekin um að veita dómara leyfi. Þá skal hún tilkynna forstöðumanni viðkomandi dómstóls um ákvörðun um að veita leyfi.
4. grein
Ákvörðun um leyfi
Heimilt er að takmarka rétt til námsleyfis við héraðsdómstóla þannig að við Héraðsdóm Reykjavíkur verði ekki fleiri en tveir dómarar í leyfi samtímis. Við aðra héraðsdómstóla þar sem dómarar eru fleiri en einn má takmarka réttinn þannig að ekki verði fleiri en einn dómari í leyfi í hvert sinni. Við Landsrétt og Hæstarétt má binda rétt til leyfis við einn dómara við hvorn rétt hverju sinni.
Dómari sem gegnt hefur embætti lengst án þess að hafa tekið leyfi skal ganga fyrir en að því frágengnu sá sem sjaldnar hefur fengið námsleyfi og því næst sá sem hefur lengri embættisaldur. Við mat á embættisaldri skal talinn sá tími sem dómari hefur verið settur í embætti. Ef tveir eða fleiri dómarar eru jafnsettir ræður hlutkesti.
Við ákvörðun um veitingu leyfis er dómstólasýslunni heimilt, að fenginni umsögn forstöðumanns dómstóls skv. 3. gr. að fresta upphafstíma námsleyfis dómara ef hætta er á að leyfið raski verulega starfsemi viðkomandi dómstóls, svo sem vegna annarra leyfa dómara eða óvenjulega mikils álags við dómstólinn. Námsleyfi verður þó ekki frestað lengur en í eitt ár.
5. grein
Staðfesting á töku leyfis
Þegar umsókn um leyfi hefur verið samþykkt skal dómari innan mánaðar staðfesta við dómstólasýsluna að hann muni taka leyfið.
6. grein
Ferða- og dvalarkostnaður
Dómari í námsleyfi á rétt á að fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Greiðslan getur numið allt að 1.500.000 krónum á sex mánaða leyfistíma og lækkar í hlutfalli við lengd námsleyfis. Til ferða- og dvalarkostnaðar telst eingöngu kostnaður sem nauðsynlegt er að stofna til vegna náms- eða fræðistarfa á leyfistímanum, s.s. vegna námskeiða eða rannsókna við menntastofnanir.
Umsókn um greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar skal senda dómstólasýslunni að loknu námsleyfi á þar til gerðu eyðublaði til samþykktar og afgreiðslu.
7. grein
Skýrsla um leyfi
Innan þriggja mánaða frá því dómari kemur aftur til starfa að loknu námsleyfi skal hann skila dómstólasýslunni skriflegri skýrslu um fræðistörf á leyfistíma. Ef dómari hefur sótt námskeið eða verið í formlegu námi skal fylgja skýrslunni skrifleg staðfesting á því. Einnig skal fylgja skýrslunni ritað efni sem dómari hefur samið í leyfinu til að fá birt.
Dómari skal jafnframt kynna niðurstöður fræðistarfa sinna eða þekkingu sem hann hefur aflað sér í námsleyfi fyrir starfsfólki dómstóla. Dómstólasýslan skal veita dómara aðstoð við undirbúning kynningar.
Réttur til að taka aftur námsleyfi stofnast ekki nema dómari skili skýrslu skv. 1. mgr. og geri grein fyrir fræðistörfum á fundi samkævmt 2. mgr.
8. grein
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 7. gr. og 3. mgr. 43. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, og úrskurði og bókun kjararáðs frá 17. desember 2015 og eru bindandi. Þær öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 4/2019 um námsleyfi dómara.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
29. desember 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2024
LEIÐBEINANDI
1. grein
Gildissvið
Reglur þessar gilda um fjárhæðir skiptatrygginga og skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum eftir lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
2. grein
Skiptatryggingar
Ef gögn með gjaldþrotaskiptabeiðni taka ekki af tvímæli um að eignir skuldarans muni nægja fyrir greiðslu skiptakostnaðar, ef krafan yrði tekin til greina, skal héraðsdómari krefja þann sem hefur gert hana um tryggingu tiltekinnar fjárhæðar fyrir kostnaðinum áður en krafan verður tekin fyrir, enda hafi henni ekki verið vísað á bug skv. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991.
Héraðsdómari skal ákveða tiltekinn skamman frest til að leggja fram tryggingu og tilkynna það hlutaðeiganda á sannanlegan hátt, en komi trygging ekki fram innan frestsins skal krafan skoðast afturkölluð þá þegar.
Rísi ágreiningur um skyldu til að setja tryggingu eða fjárhæð hennar getur sá sem er krafinn um hana krafist fyrirtöku málefnisins á dómþingi og úrskurðar héraðsdómara um það. Lengist þá frestur til að setja tryggingu meðan málefnið er óútkljáð, en héraðsdómari kveður upp úrskurð sinn án þess að aðrir þurfi að eiga kost á að tjá sig um málefnið en sá sem er krafinn tryggingar, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991.
Ef þörf þykir á að sett sé trygging fyrir greiðslu kostnaðar af aðgerðum við undirbúning og gerð nauðasamnings, skv. 4. tölulið 1. mgr. 35. gr. laga nr. 21/1991, kostnaðar við opinber skipti á dánarbúum skv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 20/1991 og opinber skipti til fjárslita milli hjóna o.fl. skv. 4. mgr. 101. gr. sömu laga, er rétt að fjárhæð hennar sé 500.000 krónur.
Trygging fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991, verður að jafnaði ákveðin:
a. 280.000 krónur þegar um er að ræða bú einstaklings
b. 450.000 krónur þegar um er að ræða bú lögaðila sem ekki fellur undir c-lið.
c. 1.000.000 krónur þegar um er að ræða bú lögaðila og stjórn hans óskar sjálf eftir skiptum eða þegar ætla má, með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum, að lögaðilinn hafi verið í mjög umfangsmiklum atvinnurekstri. Til viðmiðunar skal líta til þess hvort lögaðilinn hafi verið með fleiri en fimm starfsmenn á launaskrá og yfir 150.000.000 króna árlega veltu.
3. grein
Skrá yfir þau sem óska eftir skipun sem skiptastjórar eða umsjónarmenn
Við hvern héraðsdómstól skal haldin skrá yfir þau sem óskað hafa eftir að verða skipuð skiptastjórar eða umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Skal skráin uppfærð reglulega.
Í þessa skrá skulu meðal annars færðar eftirfarandi upplýsingar:
a. Dagsetning umsóknar um að komast á listann.
b. Upplýsingar um hæfi til að gegna skiptastjórn, þ. á m. málflutningsréttindi, nám, gilda ábyrgðartryggingu vegna starfans, yfirlýsingu um að viðkomandi hafi ekki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára.
c. Í hvaða búum (nægir að tilgreina málanúmer G-máls) hvert þeirra hefur fengið skipun sem skiptastjóri og hvenær.
d. Í hvaða flokki hvert umræddra búa eru.
e. Hvenær tilkynning um skiptalok í búi bárust.
f. Hvort engar eða ófullnægjandi skýringar hafi borist frá skiptastjóra við fyrirspurnum frá dómstóli vegna dráttar á skiptalokum.
g. Kvartanir eða athugasemdir við framkvæmd skipta á búi og hvers eðlis þær eru.
h. Aðrar upplýsingar sem skipta máli varðandi störf skiptastjóra og skipun þeirra sem skiptastjóra í fleiri búum.
Skrár allra dómstóla skulu vera aðgengilegar á innra neti dómstólanna. Dómstólasýslan stefnir að því að útbúa sameiginlega skrá um skipun skiptastjóra á árinu 2024.
4. grein
Skipun skiptastjóra og umsjónarmanns
Þegar héraðsdómari skipar skiptastjóra eða umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum skal meðal annars litið til eftirfarandi atriða:
a. Að lögmenn og aðrir lögfræðingar sem til greina koma að verði skipuð uppfylli öll skilyrði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
b. Að verkefnum verði eftir því sem kostur er skipt jafnt á milli þeirra sem óskað hafa eftir að vera skipuð.
c. Hvernig reynsla hefur fengist af störfum viðkomandi við skiptastjórn, þar með talið hvort dráttur sem ekki hefur verið skýrður með fullnægjandi hætti hafi orðið á því að ljúka skiptum á búum eða opinberum skiptum af öðru tagi þar sem viðkomandi hefur verið skiptastjóri eða hvort borist hafa kvartanir yfir störfunum sem ekki verður vísað á bug sem haldlausum.
d. Hvort viðkomandi hafi aflað sér sérstakrar þekkingar á þeim sviðum sem koma að notum við þessi störf.
e. Hvort viðkomandi hafi gilda starfsábyrgðartryggingu.
f. Að jafnaði skal ekki skipa þau skiptastjóra sem ekki hafa tilkynnt lok á skiptum í fjórum eða fleiri búum sem þau hafa verið skipuð skiptastjóri í. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í einu eða fleirum þessara búa og skipa þá viðkomandi skiptastjóra í sama fjölda búa.
g. Að jafnaði skal ekki skipa þau skiptastjóra sem hafa haft eitt eða fleiri bú til skipta í tvö ár eða meira. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í þessum búum.
h. Ef alvarlegar aðfinnslur, sem þykja hafa verið á rökum reistar, hafa verið gerðar við störf skiptastjóra verður viðkomandi ekki aftur skipaður sem skiptastjóri a.m.k. ekki næstu þrjú ár.
i. Við skipun skiptastjóra er rétt að gæta jafnréttis milli kynja.
Þegar búum samkvæmt c-lið 3. mgr. 2. gr. er úthlutað skal jafnframt litið til eftirfarandi atriða:
a. Að jafnaði sé skipaður sem skiptastjóri lögmaður með réttindi til að flytja mál fyrir Landsrétti.
b. Að viðkomandi hafi umtalsverða og farsæla reynslu af störfum sem skiptastjóri en í því felst m.a. að hafa lokið skiptum á a.m.k. 10 búum, ekki farið á svig við ákvæði laga nr. 21/1991 og ekki hafi komið fram alvarlegar aðfinnslur um störf viðkomandi við skiptastjórn sem ekki hefur verið vísað á bug sem haldlausum.
c. Að jafnaði skal ekki skipa lögmann skiptastjóra til að skipta slíku búi meðan viðkomandi hefur ekki tilkynnt skiptalok í tveimur eða fleiri slíkum búum eða í fjórum búum alls. Frá þessu má þó víkja ef skiptastjóri hefur komið fram með fullnægjandi skýringar sem þykja réttlæta drátt á skiptalokum í þessum búum.
Verði því við komið skal úthluta fjórum búum í einu til sama skiptastjóra þegar um er að ræða bú sem falla undir a- eða b-lið 3. mgr. 2. gr.
5. grein
Upplýsingagjöf
Í ársbyrjun hvert ár skal dómstólasýslan birta upplýsingar um hversu mörgum búum hverjum skiptastjóra hefur verið falið að skipta á árinu hjá hverjum og einum héraðsdómstól og samtals á þeim öllum svo og upplýsingar um það í hversu mörgum búum hver skiptastjóri hefur ekki tilkynnt skiptalok fyrir árslok.
6. grein
Eftirlit með störfum skiptastjóra
Þegar bú hefur verið undir skiptum í eitt ár skal héraðsdómari kalla eftir skýringum frá skiptastjóra á því hvers vegna skiptum hafi ekki verið lokið og óska eftir upplýsingum um það hvenær hann reikni með því að skiptum verði lokið.
Verði skiptastjóri ekki við beiðni héraðsdómara um skýringar á drætti á skiptum eða að héraðsdómari meti skýringar skiptastjóra á drættinum og upplýsingar um fyrirhuguð skiptalok ófullnægjandi skal hann boða skiptastjóra á fund í samræmi við 1. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 og færa niðurstöður fundar í skrá samkvæmt 3. gr. og líta til þeirra við skipun skiptastjóra.
7. grein
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. desember 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 6/2024
1. gr.
Gildissvið
Reglur þessar eiga við um aðgang almennings að endurritum af dómum og úr þingbók og að afritum af framlögðum skjölum sem og upplýsingum um einstök mál hjá Landsrétti og héraðsdómstólum, eftir að málum er endanlega lokið fyrir dómstólum. Í aðgangi felst afhending endurrits eða afrits gagna nema annað sé tekið fram í reglunum eða ákvörðun dómstjóra, eða eftir atvikum forseta Landsréttar.
Reglurnar eiga ekki við um aðila að því dómsmáli sem beiðni um aðgang tekur til. Brotaþoli í sakamáli og sakborningur á rannsóknarstigi skoðast sem málsaðilar í þessum skilningi.
Um rétt til að fá endurrit úr þingbók og dómabók eða afrit málsskjala á meðan mál er rekið fyrir æðra dómi eða héraðsdómi fer, eftir því sem við á, samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Um afhendingu og aðgang að hljóð- og myndupptökum héraðsdómstóla og Landsréttar gilda reglur dómstólasýslunnar þar um.
2. gr.
Beiðni um aðgang að gögnum
Beiðni um aðgang að gögnum skal beina skriflega til viðkomandi dómstóls. Í beiðni skal nafn og kennitala beiðanda koma fram. Einnig skal tilgreina það dómsmál sem um ræðir eins nákvæmlega og unnt er og hvaða gögnum er óskað eftir aðgangi að. Þegar um einkamál er að ræða skal sérstaklega rökstutt á hvaða grundvelli réttur til aðgangs að gögnum byggir.
Í beiðni um aðgang að gögnum skal tekið fram hvort óskað sé eftir því að fá skoðunaraðgang eða afrit eða endurrit umbeðinna gagna afhent á pappír eða rafrænu formi.
3. gr.
Málsmeðferð
Dómstjóri, eða eftir atvikum forseti Landsréttar, tekur afstöðu til beiðni um aðgangs að gögnum.
Ef kostur er skal gefa aðilum einkamáls, sem beiðni tekur til, tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin um að heimila aðgang að umbeðnum gögnum.
Heimilt er að krefjast úrskurðar um synjun um aðgang að umbeðnum gögnum, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 og 7. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008. Skal þeim sem er ólöglærður bent á þann rétt sinn.
Beiðni skal afgreidd eins fljótt sem við verður komið og almennt ekki síðar en innan mánaðar frá því að hún berst.
4. gr.
Réttur til aðgangs að gögnum í sakamáli
Almenningur á rétt á að fá afhent gegn greiðslu gjalds afrit af ákæru og greinargerð ákærða sem og staðfest endurrit úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal synja um að láta í té afrit af þeim hlutum ákæru og greinargerðar sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Enn fremur ef mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess, svo sem ef um er að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál eða samskipti þess við önnur ríki eða alþjóðastofnanir.
Áður en endurrit samkvæmt 1. mgr. eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Við mat á því hvað skuli afmáð skal litið til reglna dómstólasýslunnar um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla.
Um aðgang að gögnum í sakamáli sem lokið var fyrir 1. janúar 2009 fer eftir ákvæðum eldri laga.
5. gr.
Réttur til aðgangs að gögnum í einkamáli
Réttur almennings til aðgangs að gögnum í einkamáli samkvæmt reglum þessum er bundinn við þá sem sýnt geta fram á sérstaka hagsmuni, s.s. vegna náinna tengsla við málið eða vegna málarekstrar fyrir dómstóli eða stjórnvaldi í sambærilegu máli. Réttur almennings tekur þó ekki til gagna sem hafa fjárhagslegt virði, s.s. matsgerða sem aðilar að viðkomandi máli hafa greitt fyrir, eða gagna sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna-, fjárhags-, viðskipta- eða einkahagsmuna.
Áður en veittur er aðgangur að gögnum eða þau afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tillit til almanna-, fjárhags-, viðskipta eða einkahagsmuna. Við mat á því hvað skuli afmáð skal litið til reglna dómstólasýslunnar um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla.
6. gr.
Aðgangur að upplýsingum
Umfram það sem mælt er fyrir í reglum þessum verður ekki veittur aðgangur að upplýsingum um einstök mál sem ekki hafa verið gerðar opinberar af hálfu dómstólanna. Gildir það um hvers kyns upplýsingar úr málaskrá viðkomandi dómstóls, þar á meðal um það hvort tilteknir einstaklingar eða lögaðilar eigi eða hafi átt aðild að dómsmáli. Einstaklingur eða lögaðili getur þó veitt samþykki fyrir því að upplýsingar af þessu tagi hvað hann varðar séu veittar tilteknum aðila.
Dómstólasýslunni er þó heimilt að afhenda opinberum aðilum svo og einkaaðilum, ef það rúmast innan þeirra heimilda sem þeir hafa til vinnslu persónuupplýsinga, safn upplýsinga sem mikilvægt er að teknar séu saman vegna ríkra almannahagsmuna.
7. gr.
Aðgangur að gögnum og upplýsingum í þágu vísinda
Heimilt er að veita aðgang að gögnum og upplýsingum úr dómsmálum í þágu fræðirannsókna. Slíkan aðgang má veita fræðimönnum sem starfa við menntastofnanir eða aðrar stofnanir þar sem rannsóknir í lögfræði eða á öðrum fræðasviðum eru stundaðar ef þeir sýna fram á að þeir þarfnist aðgangs vegna rannsókna sinna og fræðistarfa.
Aðgangur í skilningi 1. mgr. felur aðeins í sér heimild til að kanna gögn og upplýsingar á aðsetri dómstóls og skal gripið til viðeigandi úrræða til að koma í veg fyrir að gögn verði afrituð.
Ef ástæða þykir til skal leyfi til aðgangs að gögnum og upplýsingum bundið því skilyrði að fyrir liggi heimild Persónuverndar til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða eftir atvikum leyfi vísindasiðanefndar á grundvelli laga nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
Áður en aðgangur að gögnum eða upplýsingum samkvæmt 1. mgr. er veittur skal viðkomandi undirrita yfirlýsingu um trúnað.
8. gr.
Gjaldtaka
Um gjaldtöku fyrir aðgang að gögnum fer samkvæmt lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Heimilt er að krefjast greiðslu áætlaðs gjalds samkvæmt 1. mgr. áður en afhending fer fram.
9. gr.
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í f-lið 15. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og f-lið 17. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og eru bindandi. Þær öðlast þegar gildi og falla þá úr gildi reglur nr. 9/2018 um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólunum.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. mars 2024.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 7/2024
1. gr.
Markmið útgáfu dagskrár
Útgáfa dagskrár miðar að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
2. gr.
Útgáfa dagskrár
Hver héraðsdómstóll birtir dagskrá þar sem fram kemur listi yfir þau dómsmál þar sem dagsetning þinghalds hefur verið ákveðin.
Þinghöld í rannsóknarmálum eru ekki birt á dagskrá.
Dagskrá skal birt á vef hvers dómstóls þegar dagsetning þinghalds liggur fyrir nema sérstakar ástæður er varða málsaðila réttlæti frávik frá því, svo sem þegar beðið er eftir staðfestingu á móttöku fyrirkalls.
Dagskrá hvers dags skal birt á áberandi stað í dómhúsi.
3. gr.
Upplýsingar sem koma skulu fram á dagskrá
Á dagskrá skulu koma fram upplýsingar um málsnúmer, dagsetningu og tíma þinghalds, dómsal, nafn dómara málsins, eðli þinghaldsins og þegar við á að þinghaldið sé lokað.
Þegar um einkamál er að ræða skulu koma fram á dagskrá upplýsingar um nöfn aðila máls, sbr. þó 4. gr., lögmanna svo og upplýsingar um tegund máls.
Þegar um sakamál er að ræða skulu koma fram upplýsingar um nöfn sakbornings eða sakborninga, sbr. þó 4. gr., verjanda svo og upplýsingar um tegund máls.
Fram skulu koma upplýsingar um hvenær reglulegt dómþing er haldið en ekki skal birta upplýsingar um mál á reglulegu dómþingi.
4. gr.
Um nafnleynd við útgáfu dagskrár
Ákveði dómari að þinghald skuli vera lokað af ástæðum sem varða ákærða eða tengsl hans við brotaþola skulu nöfn aðila ekki koma fram á útgefinni dagskrá.
Nöfn aðila máls skulu ekki birt á dagskrá þegar málið varðar viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd.
5. gr.
Gildistaka og lagastoð
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. júlí 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. mars 2024.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 8/2024
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
Reglurnar taka til forms og afhendingar hvers kyns skjala til héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar í dómsmáli.
Reglurnar taka ekki til málskotsbeiðna og skjala sem send eru Landsrétti eða Hæstarétti í tengslum við málskotsbeiðnir.
2. gr.
Skilgreiningar.
Réttarvörslugátt er vefgátt til miðlunar skjala, tilkynninga og annarra samskipta í dómsmálum og á milli stofnana réttarvörslukerfisins.
Vefgáttir dómstóla eru tímabundnar gáttir sem notaðar eru til miðlunar skjala í dómsmálum þar til réttarvörslugátt hefur verið tekin í notkun í öllum málaflokkum.
Ljóslestur (e. Optical Character Recognition, OCR) er tækni sem notuð er til að færa ritað mál af pappír yfir á stafrænt og leitarhæft form.
Skjal er samheiti yfir málsóknarskjöl, málsskjöl og aðrar skriflegar tilkynningar og erindi sem lúta að meðferð máls.
Málsóknarskjöl hafa að geyma kröfur og málatilbúnað aðila, s.s. ákæra, stefna, greinargerð, bókun, kæra og áfrýjunarstefna. Einnig teljast til málsóknarskjala hvers kyns aðrar kröfur og beiðnir um úrlausn dómstóls þ.m.t. krafa um aðgerð á rannsóknarstigi og beiðni um dómkvaðningu matsmanna.
Málsskjöl eru málsgögn á skriflegu formi önnur en málsóknarskjöl sem dómari getur byggt niðurstöðu sína á.
3. gr.
Afhendingarmáti skjala.
Í öðrum málum en rannsóknarmálum skv. 3. mgr. ber að afhenda dómstóli tilskilinn fjölda eintaka skjala á pappír. Heimilt er að senda dómstóli jafnframt skjöl rafrænt enda berist tilskilinn fjöldi pappírseintaka dómstóli án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi í næsta þinghaldi málsins.
Málsaðila sem sendir dómstóli skjöl rafrænt er skylt að afhenda gagnaðila þau samtímis. Það á þó ekki við ef gögn eru send dómstóli í gegnum réttarvörslugátt.
Skjöl í rannsóknarmálum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skulu berast héraðsdómstólum og Landsrétti í gegnum réttarvörslugátt. Ekki er þörf á að dómstóli séu afhent sömu skjöl á pappír.
Sé aðili að rannsóknarmáli skv. 3. mgr., eða sá sem gætir hagsmuna hans, ekki með aðgang að réttarvörslugátt skulu skjölin send dómstóli í gegnum vefgátt viðkomandi dómstóls eða aðra gátt sem dómstólasýslan hefur samþykkt. Sé það ekki mögulegt er heimilt að senda dómstóli skjöl eingöngu á pappír.
4. gr.
Móttaka og framlagning skjala hjá dómstóli.
Skjal telst móttekið hjá dómstóli þegar það hefur verið afhent í samræmi við 3. gr. og er aðgengilegt dómstóli hvort sem það er í réttarvörslugátt, vefgátt dómstóla eða á pappír.
Skjal telst þó ekki lagt fram í máli fyrr en við þingfestingu þess eða í næsta þinghaldi eftir að skjalið barst dómstóli.
5. gr.
Staðfesting málsóknarskjala.
Hvorki er þörf á að undirrita með eigin hendi né rafrænt, málsóknarskjöl sem send eru dómstóli með rafrænum hætti í gegnum réttarvörslugátt, vefgátt dómstóla eða aðra vefgátt sem dómstólasýslan hefur samþykkt ef sendandinn hefur auðkennt sig með rafrænum skilríkjum. Skjölin skulu þó bera það skýrt með sér frá hverjum þau stafa. Málsóknarskjöl sem afhent eru á pappír skulu undirrituð.
II. KAFLI
Rafræn afhending skjala.
6. gr.
Heiti skjala.
Málsóknarskjal sem afhent er rafrænt skal hafa rafrænt heiti sem er lýsandi um efni þess og skal dagsetning þess koma fram í heitinu. Ef ástæða er til skal koma fram í heitinu frá hverjum skjalið stafar, svo sem ef um er að ræða greinargerð varnaraðila þegar fleiri en einn eru til varnar í máli.
Málsskjal sem afhent er rafrænt skal hafa rafrænt heiti sem er lýsandi um efni þess og skal dagsetning skjalsins jafnframt koma fram í heitinu, sé hún þekkt. Ef um tölvupóstsamskipti er að ræða skal tilgreina dagsetningu fyrstu samskipta.
7. gr.
Form skjala.
Rafræn skjöl sem afhent eru dómstóli skulu vera á PDF-formi og leitanleg. Í því felst að afhent málsskjöl skulu eftir því sem þörf er á hafa verið vera ljóslesin (OCR) nema að það sé tæknilega ómögulegt, svo sem þegar um er að ræða handskrifuð skjöl.
Ljósmyndir skulu vera á upprunalegu formi.
Hvert skjal skal afhent í sérstöku rafrænu skjali.
III. KAFLI
Skjöl afhent á pappír.
8. gr.
Skjöl á pappír.
Skjöl sem afhent eru héraðsdómstóli á pappír skulu vera skipulega sett fram. Ef um mörg skjöl er að ræða skal fylgja þeim skjalaskrá með lýsandi heiti skjala og dagsetningu sem skjal varð til.
Skjöl skulu afhent Hæstarétti og Landsrétti í samræmi við reglur viðkomandi dómstóla þar um.
IV. KAFLI
Heimild og gildistaka.
9. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í g-lið 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og g-lið 2. mgr. 17. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og eru bindandi.
Þær öðlast gildi 1. júlí 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar, 27. júní 2024.
Sigurður Tómas Magnússon,
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 9/2024
LEIÐBEINANDI
I. KAFLI
Almennar reglur
1. gr.
Gildissvið
Reglur þessar eiga við um þinghöld, þar með talið þingfestingu og aðalmeðferð, sem fara í heild eða að hluta til fram í gegnum fjarfundarbúnað (fjarþinghald). Þær eiga jafnt við í einkamálum og sakamálum nema annað sé sérstaklega tekið fram.
2. gr.
Markmið
Reglunum er ætlað að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni við rekstur mála fyrir dómi með notkun fjarfundarbúnaðar þar sem við á og að gættum grunnreglum um opinbera og réttláta málsmeðferð. Þá er reglunum ætlað að tryggja samræmda framkvæmd fjarþinghalda og stuðla með því að jafnræði allra fyrir dómstólum.
3. gr.
Opinber málsmeðferð
Í samræmi við meginregluna um opinbera málsmeðferð skal fjarþinghald haldið í dómsal ef um opið þinghald er að ræða enda sé þinghald ekki háð utan reglulegs þingstaðar. Dómari máls skal vera viðstaddur í dómsal. Í fjölskipuðum dómi geta þó aðrir en dómsformaður tekið þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað ef aðstæður krefja.
4. gr.
Skipulag og stjórnun fjarþinghalds
Við boðun þinghalds leggur dómari mat á hvort að boða skuli til fjarþinghalds. Áður en dómari ákveður að þinghald skuli fara fram á fjarfundi eða að skýrslugjöf fari í heild eða hluta fram í fjarfundarbúnaði er rétt að dómari hafi samráð við málsaðila þar um ef tilefni er til.
Ef rétt er að vísa manni úr þinghaldi samkvæmt lögum um meðferð einkamála eða lögum um meðferð sakamála getur dómari lokað fyrir tengingu viðkomandi inn á fjarþinghaldið.
5. gr.
Öryggi og virkni fjarfundarbúnaðar
Tryggt skal að fjarfundarbúnaður hafi fullnægjandi varnir og að streymi um hann sé öruggt svo friðhelgi einkalífs sé sem best tryggð.
Fjarfundarbúnaður skal settur upp með þeim hætti að þátttakendur í þinghaldi og allir sem staddir eru í dómsal heyri og eftir atvikum sjái vel það sem fram fer.
Áður en þinghald hefst skal gengið úr skugga um að fjarfundarbúnaður virki sem skyldi.
Ef tekin er ákvörðun um að fresta þinghaldi vegna tæknilegra örðugleika skal færa ákvörðun um það í þingbók.
II. KAFLI
Þinghöld í sakamálum
6. gr.
Notkun fjarfundarbúnaðar í þinghaldi
Í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur dómari heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað, enda verði því háttað þannig að allir sem viðstaddir eru geti fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.
Dómari getur ákveðið að ákærði gefi skýrslu í fjarfundarbúnaði með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni ákærða og tryggt þyki að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar, sbr. nánar 8. gr. reglnanna.
Ákærða eða sakborningi verður þó ekki gert, gegn vilja sínum, að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað skv. 1. og 2. mgr. nema ríkar ástæður séu fyrir hendi og ákvörðunin þjóni lögmætum markmiðum, s.s. til verndar allsherjarreglu, til verndar heilsu manna, til að firra glæpum og til verndar vitnum og brotaþolum, eða til þess að málsmeðferð ljúki innan hæfilegs tíma.
Einnig skal vera tryggt að ákærði eða sakborningur njóti réttlátrar málsmeðferðar, þ.m.t. réttar til að spyrja spurninga og geti á öllum stigum máls notið virkrar aðstoðar verjanda og hafi tækifæri til að ráðfæra sig við verjanda í einrúmi og trúnaði meðan á þinghaldi stendur, svo sem með því að gera hlé á þinghaldi fyrir símtal.
7. gr.
Skýrslugjöf vitnis
Í samræmi við 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála getur dómari ef vitni, þar á meðal brotaþoli og matsmaður, er statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi í gegnum fjarfundarbúnað með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar.
Ef sérstaklega stendur á getur dómari þó ákveðið að skýrslugjöf fari einungis fram með hljóði enda megi ekki ætla að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnis og skýrslugjöf verði hagað þannig að viðstaddir heyri orðaskipti við vitnið.
8. gr.
Aðstæður við skýrslugjöf
Í þeim tilgangi að tryggja að ákærði eða vitni, þar á meðal brotaþoli og matsmaður, geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar getur dómari ákveðið að skýrslugjöf fari fram í gegnum fjarfundarbúnað á starfstöð annars dómstóls eða opinberrar stofnunar, s.s. lögreglu, sýslumanns eða sendiráðs eða annarri sambærilegri starfsstöð hér á landi eða erlendis.
III. KAFLI
Þinghöld í einkamálum
9. gr.
Notkun fjarfundarbúnaðar
Dómari getur heimilað þátttöku í þinghaldi, þar með talið þingfestingu og aðalmeðferð, í gegnum fjarfundarbúnað í samræmi við 4. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila. Mat dómara byggir á því hvað talist getur sanngjarnt og eðlilegt í því máli sem um ræðir, svo sem með hliðsjón af umfangi máls, hagsmunum sem ágreiningur lýtur að og sönnunarmati.
10. gr.
Skýrslugjöf vitnis
Í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála getur dómari ef vitni er statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm eða það er til þess fallið að greiða fyrir meðferð málsins að öðru leyti, ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, eftir atvikum í hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafa á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar.
Skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað skal hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.
11. gr.
Aðstæður við skýrslugjöf
Telji dómari þess þörf, meðal annars til að tryggja að vitni geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar, getur dómari ákveðið að vitni gefi skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað á starfstöð annars dómstóls eða opinberrar stofnunar, s.s. lögreglu, sýslumanns eða sendiráðs eða annarri sambærilegri starfstöð hér á landi eða erlendis.
12. gr.
Skýrslugjöf aðila og matsmanns
Ákvæðum 10. og 11. gr. verður eftir því sem þau geta átt við beitt um skýrslugjöf aðila máls, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga um meðferð einkamála og um skýrslugjöf matsmanns, sbr. 2. mgr. 65. gr. sömu laga.
13. gr.
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 9. gr. laga um meðferð sakamála og 5. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. nóvember 2024.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar, 9. október 2024.
Sigurður Tómas Magnússon,
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
2023
Reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2023
LEIÐBEINANDI
1. grein
Almennt
Dómari tekur ákvörðun um þóknun til skiptastjóra og greiðslu útlagðs kostnaðar vegna kröfu um atvinnurekstrarbann samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 133/2022, í samræmi við reglur þessar. Þóknun skiptastjóra samkvæmt 2. og 3. gr., og útlagður kostnaður samkvæmt 4. gr., greiðist úr ríkissjóði.
2. grein
Þóknun skiptastjóra þegar krafa fær ekki efnislega meðferð
Hafni dómari því að taka kröfu um atvinnurekstrarbann til efnislegrar meðferðar skal ákveða þóknun skiptastjóra sem nemur tímagjaldi fyrir tvær til þrjár vinnustundir, sbr. 3. gr., að teknu tilliti til umfangs beiðninnar og þeirrar vinnu sem ætla má að skiptastjóri hafi lagt af mörkum.
3. gr.
Þóknun skiptastjóra þegar krafa er tekin til efnislegrar meðferðar
Verði krafa um atvinnurekstrarbann tekin til efnislegrar meðferðar skal þóknun miðast við sama tímagjald og fram kemur á hverjum tíma í reglum dómstólasýslunnar um málsvarnarlaun eða þóknun til verjenda og þóknun réttargæslumanna svo og hæfilegan fjölda vinnustunda að mati dómara. Við ákvörðun um tímafjölda er dómara rétt að líta til réttmætrar sundurliðaðrar tímaskýrslu skiptastjóra.
4. grein
Útlagður kostnaður
Dómari ákveður hvaða útlagður kostnaður sem stofnað hefur verið til vegna kröfu um atvinnurekstrarbann greiðist úr ríkissjóði. Við mat á réttmæti kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar er dómara rétt að krefjast nánari skýringa á útlögðum kostnaði telji hann þess þörf.
5. grein
Gildistaka og lagastoð
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 188. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. gr. laga nr. 133/2022, og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
23. mars 2023
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Í því skyni að efla sjálfstæði, skilvirkni og gagnsæi dómstólanna, og auka traust á þeim, staðfestir dómstólasýslan siðareglur fyrir starfsmenn dómstóla, samanber 4. meðalgrein fimmtándu greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Siðareglur þessar taka til allra starfsmanna dómstólanna. Reglur þessar skal endurskoða á tveggja ára fresti.
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og lögum um dómstóla nr. 50/2016 eru dómarar sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara þeir eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra.
Starfsmenn dómstólanna gæta að því, hver fyrir sitt leyti, að farið sé eftir siðareglunum. Forsetar Hæstaréttar og Landsréttar og dómstjórar héraðsdómstólanna skulu sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi dómstólanna.
Siðareglur þessar verður að skoða í samhengi við lög um dómstóla nr. 50/2016, almennar siðareglur starfsmanna ríkisins nr. 491/2013, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur sem gilda um ákveðna starfsmenn dómstólanna. Siðareglurnar endurspegla tiltekin grunngildi í störfum hjá ríkinu eins og heilindi, óhlutdrægni og skilvirkni.
1. grein
Vinnubrögð og samskipti á vinnustað
Samvinna, traust og virðing einkennir samskipti starfsmanna. Í öllum samskiptum láta starfsmenn samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni og sýna tillitsemi í hvívetna.
Samráð, gagnsæi og jafnræði einkennir starfsvettvang dómstólanna.
Starfsmenn vinna störf sín af heilindum, virðingu og heiðarleika og gæta trúnaðar eftir því sem við á.
Starfsmenn fara að löglegum fyrirskipunum um starf sitt og virða þær.
Starfsmenn sýna ráðdeild við meðferð fjármuna dómstólanna og stuðla að því sama meðal samstarfsmanna.
2. grein
Háttsemi og framkoma
Starfsmenn draga skýr mörk á milli einkalífs og vinnu. Við notkun tölvupósts skal taka mið af þessari meginreglu.
Starfsmenn notfæra sér ekki stöðu sína eða upplýsingar, sem þeir fái í starfi sínu, í eiginhagsmunaskyni eða fyrir aðra.
Starfsmenn rýra ekki trúverðugleika dómstólanna með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi.
Starfsmenn þiggja ekki persónulegar gjafir vegna starfs síns.
Í samskiptum utan vinnu, þar á meðal við notkun samfélagsmiðla, virða starfsmenn trúnað við samstarfsfólk og gagnvart vinnustað.
3. grein
Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar
Starfsmenn gæta þess að vinatengsl, hagsmunatengsl og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf sín.
Starfsmenn upplýsa forseta eða dómstjóra um aukastörf sín. Aðstoðarmenn dómara upplýsa dómstjóra einnig um eignarhlut sinn í félögum og atvinnufyrirtækjum. Um dómara gilda hins vegar reglur um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum og skráningu þeirra nr. 1165/2017.
Gæta skal þess að slík tengsl eða aukastörf valdi ekki hagsmunaárekstrum, eða séu til þess fallin að rýra traust á dómstólunum.
4. grein
Upplýsingagjöf og samskipti
Starfsmenn leggja sig fram við að veita upplýsingar um starfsemi dómstólanna og málsmeðferðað þvímarki sem gildandi lög og reglur kveða á um.
Starfsmenn sýna þeim sem til dómstólanna leita virðingu og umburðalyndi og gæta jafnræðis og jafnréttis í hvívetna.
5. grein
Ábyrgð og eftirfylgni
Hver starfsmaður dómstóla er ábyrgur fyrir því að athafnir hans og gjörðir séu í samræmi við siðareglur þessar.
Forsetar Hæstaréttar og Landsréttar og dómstjórar héraðsdómstólanna kynna starfsmönnum reglur sem um starfið gilda, eru á varðbergi gagnvart aðstæðum sem auka líkur á að ekki sé farið eftir reglum, bregðast við þegar þörf krefur og ganga á undan með góðu fordæmi.
Verði starfsmaður áskynja um siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi á vinnustað skal hann koma ábendingu þar um til næsta yfirmanns, sem ekki á sjálfur hagsmuna að gæta, eða annarra viðeigandi aðila.
Starfsmenn gjalda ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji þeir á sér brotið.
6. grein
Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi nú þegar og og falla þá úr gildi reglur nr. 2/2018 um siðareglur fyrir starfsmenn dómstóla.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar 23. maí 2023.
Sigurður Tómas Magnússon,
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Frekari upplýsingar:
2022
Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2022
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Útgáfa dómsúrlausna og markmið hennar
Um útgáfu dóma og úrskurða á öllum dómstigum og úrskurða Endurupptökudóms á vefsíðum dómstólanna fer eftir því sem segir í 6. mgr. 7., 20., 28. og 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og reglum þessum.
Útgáfa dómsúrlausna skal miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Við útgáfu dómsúrlausna skal gætt að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og lagaákvæðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
2. gr.
Frestur til útgáfu
Dómsúrlausn sem gefin er út samkvæmt reglum þessum skal að jafnaði gefin út á vefsíðu viðkomandi dómstóls innan fimm virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar, þó eigi síðar en innan 14 virkra daga frá uppkvaðningu.
Dómsúrlausn skal þó ekki gefin út fyrr en liðin er að lágmarki ein klukkustund frá uppkvaðningu svo lögmanni, verjanda eða réttargæslumanni gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.
Landsréttur getur eigi að síður ákveðið að fresta útgáfu úrskurðar þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds undir rannsókn sakamáls ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess.
3. gr.
Viðbótarupplýsingar
Með útgáfu á dómsúrlausn skal fylgja stutt lýsing á sakarefni máls og niðurstöðu þess. Enn fremur skulu fylgja útgáfu efnisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem eiga við um mál auk þess sem tilgreina skal í leitarvél þau lagaákvæði sem reyndi á í máli.
4. gr.
Aðferðir til að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga
Unnt er að beita eftirfarandi aðgerðum við útgáfu dómsúrlausnar í þeim tilgangi að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga aðila dómsmáls eða annarra sem koma þar við sögu, eftir því sem nánar er tilgreint í reglunum.
Gefa dómsúrlausn ekki út, sbr. 6. og 7. gr.
Gæta nafnleyndar um þá sem greindir eru í dómsúrlausn í samræmi við 9. og 10. gr.
Afmá í dómsúrlausn upplýsingar í samræmi við 12. gr.
Nú verður ekki tryggt að leynd ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og/eða eftir atvikum afmá önnur atriði úr dómsúrlausn. Er þá heimilt í stað þess að gefa út dómsúrlausnina sjálfa að gefa út útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt má ákveða að fresta útgáfu slíks útdráttar sé það til þess fallið að tryggja betur persónuvernd.
Ef sérstakar ástæður mæla með geta forstöðumenn dómstólanna ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmá upplýsingar úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem ef útgáfa hennar án þess að nöfn eða aðrar upplýsingar séu afmáðar yrði sérstaklega þungbær fyrir aðila eða aðra eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.
II. KAFLI
Dómsúrlausnir sem gefa skal út
5. gr.
Útgáfa dómsúrlausna Hæstaréttar og Landsréttar
Gefa skal út allar dómsúrlausnir Landsréttar og Hæstaréttar.
Þegar dómsúrlausn Landsréttar eða dómur Hæstaréttar er gefinn út skulu fylgja viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar eða hlekkur á þær. Skal þá gætt að því að útgáfa á dómsúrlausnum lægri réttar sé í samræmi við ákvæði I., III. og IV. kafla reglna þessara þannig að markmiðum 1. gr. þeirra verði náð.
6. gr.
Útgáfa dómsúrlausna í héraði
Dómsúrlausnir í héraði sem fela í sér lyktir máls skulu gefnar út með þeim undantekningum sem fram koma í 2. mgr. þessarar greinar og 7. gr.
Ekki skal gefa út dómsúrlausnir í héraði þegar um er að ræða :
Kröfu um gjaldþrotaskipti.
Kröfu um opinber skipti.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Mál um erfðir.
Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.
7. gr.
Undanþáguheimildir um dómsúrlausnir í héraði
Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið er í dómsúrlausn ákveðið að vikið skuli frá ákvæðum 6. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá.
Þegar um er að ræða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.
8. gr.
Útgáfa úrskurða Endurupptökudóms
Gefa skal út úrskurði Endurupptökudóms ef sú dómsúrlausn sem leitað hefur verið eftir endurupptöku á hefur verið gefin út í samræmi við reglur þessar.
III. KAFLI
Um nafnleynd við útgáfu dómsúrlausna
9. gr.
Nafnleynd í einkamálum
Við útgáfu allra dómsúrlausna í einkamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir þegar í úrlausn er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd. Sama á við þegar fram koma upplýsingar sem viðkvæmar teljast, þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.
Við útgáfuna skal þá jafnframt má út önnur atriði úr henni sem geta ein og sér eða fleiri saman tengt aðila eða aðra við sakarefnið, svo sem fæðingardaga, heimilisföng, verknaðarstað og vettvang annarra atvika.
Þegar gætt er nafnleyndar skal hún að öðru jöfnu taka til matsmanna og þeirra sem láta í té sérfræði álit.
Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.
Við útgáfuna skal jafnframt huga að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
10. gr.
Nafnleynd í sakamálum
Við útgáfu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hans getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna svo sem vegna fjölskyldutengsla. Við mat á hagsmunum brotaþola skal leita sjónarmiða hans.
Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefur verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.
Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.
Þegar svo stendur á að Landsréttur eða Hæstiréttur ákveður að gæta nafnleyndar í dómsúrlausn sinni skal ganga úr skugga um að nafnleyndar sé einnig gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs. Sé nafnleyndar ekki gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs skal æðra dómstigið óska eftir því að dómur lægra dómstigs verði endurútgefinn með nafnleynd áður en dómur æðra dómstigs er gefinn út.
Við útgáfuna skal jafnframt gæta að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
Við útgáfu úrskurða Endurupptökudóms í sakamálum skal fara eftir ákvæðum greinarinnar eftir því sem við getur átt.
11. gr.
Nafnleynd eftir útgáfu dómsúrlausnar
Að liðnu ári frá því að dómsúrlausn í einkamáli eða sakamáli var gefin út og nafnleynd ekki viðhöfð getur sá sem í hlut á komið á framfæri við forstöðumann viðkomandi dómstóls beiðni um nafnleynd. Skal brugðist við slíkri beiðni svo skjótt sem auðið er.
IV. KAFLI
Um brottnám upplýsinga við útgáfu dómsúrlausnar
12. gr.
Um brottnám upplýsinga í einka- og sakamálum
Við útgáfu dómsúrlausnar skal nema brott upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna, upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar nema að því leyti sem slík atriði eru kjarni þess máls sem dómsúrlausn lýtur að. Sama á við þótt nafnleyndar hafi verið gætt ef nafnleyndin ein og sér nægir ekki til að vernda þá hagsmuni sem henni er ætlað að vernda.
Afmá skal kennitölur og heimilisföng úr öllum dómsúrlausnum áður en þær eru gefnar út.
Þegar upplýsingar hafa verið afmáðar úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.
Teljist nauðsynlegt að afmá úr dómsúrlausn upplýsingar í þeim mæli að dómsúrlausn, einstakir hlutar hennar eða samhengi verði við það torskilið er heimilt að setja inn í hina útgefnu dómsúrlausn, innan hornklofa, almennar upplýsingar um hvers konar atriði hafi verið afmáð þannig að útgáfan geti þjónað því markmiði sem henni er ætlað að þjóna samkvæmt 1. gr.
Ef nafnleynd tryggir nægilega vernd þeirra hagsmuna sem um ræðir er þó ekki þörf á að afmá upplýsingar úr dómsúrlausn eða eftir atvikum ekki í jafn ríkum mæli.
V. KAFLI
Ábyrgð á útgáfu, eftirlit og kvartanir
13. gr.
Ábyrgð á útgáfu dómsúrlausna
Hver dómstóll fyrir sig er útgefandi dóma og úrskurða sem þar eru kveðnir upp og ber ábyrgð á því að útgáfa þeirra sé í samræmi við reglur þessar.
14. gr.
Eftirlit
Dómstólasýslan fer með eftirlit með reglum þessum og getur komið ábendingum á framfæri um túlkun reglnanna og hvernig rétt sé að bregðast við varðandi framkvæmd þeirra í einstökum tilvikum, sbr. 2. og 3. mgr. 15. gr.
Dómstólasýslan getur að eigin frumkvæði ákveðið að kanna hvort útgáfa dóma sé í samræmi við reglur þessar og komið á framfæri við dómstól eða dómstóla athugasemdum eða ábendingum um túlkun og beitingu reglnanna.
15. gr.
Athugasemdir og kvartanir
Kvörtun eða athugasemd við útgáfu dómsúrlausnar á netinu skal beina til forstöðumanns þess dómstóls sem gefur úrlausnina út.
Hver sá sem telur að brotið hafi verið gegn reglum þessum við útgáfu dómsúrlausnar getur beint athugasemdum eða ábendingum til dómstólasýslunnar að undangenginni úrlausn kvörtunar til þess dómstóls sem stóð að útgáfu dómsúrlausnar.
Unnt er að beina til dómstólasýslunnar almennum athugasemdum eða ábendingum um framkvæmd útgáfu dómsúrlausna.
16. gr.
Tilkynningar
Verði dómstóll var við að útgáfa dómsúrlausnar samræmist ekki reglum þessum skal hann tilkynna dómstólasýslunni um frávikið án ótilhlýðilegrar tafar.
Feli frávikið í sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal dómstóllinn einnig tilkynna viðkomandi um það án ótilhlýðilegrar tafar. Dómstólasýslan gefur út leiðbeiningar um efni slíkrar tilkynningar.
17. gr.
Málsmeðferð
Við meðferð mála vegna ábendinga eða athugasemda skal farið eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.
VI. KAFLI
Heimild og gildistaka.
18. gr.
Gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 41. gr. laga nr. 76/2019, og að höfðu samráði við þá dómstóla sem reglurnar varða. Reglurnar öðlast gildi 1. október 2022 og falla þá úr gildi reglur nr. 3/2019 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
9. júní 2022
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2022
Tóku gildi 1. janúar 2023
1. grein
Reglur þessar gilda um afhendingu og aðgang málsaðila, brotaþola og lögmanna þeirra, ákæruvaldsins, verjenda og lögmanna málsaðila í einkamálum að hljóð- og myndupptökum samkvæmt 4. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 202. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og 3. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Reglurnar gilda einnig um tilfærslu hljóð- og myndupptaka á milli dómstiga.
2. grein
Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi getur málsaðili, hvort heldur sem er í einkamáli eða sakamáli, fengið, svo fljótt sem auðið er, að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði fyrir dómi á starfstöð hlutaðeigandi dómstóls. Saksóknari, verjandi og lögmaður málsaðila í einkamáli njóta sama réttar sem og brotaþoli og sá sem gætir hagsmuna hans, sé þörf á því til þess að geta gætt hagsmuna brotaþola.
Innan sama tímamarks skal afhenda embætti ríkissaksóknara, verjanda, lögmanni málsaðila í einkamáli eða málsaðila í einkamáli sem ekki nýtur aðstoðar lögmanns hljóðupptökur sé það nauðsynlegt vegna áfrýjunar. Sama á við um þann sem gætir hagsmuna brotaþola sé það nauðsynlegt vegna hagsmunagæslunnar. Aðeins skal afhenda hljóðskrá þótt framburður hafi verið tekinn upp í hljóði og mynd. Hljóðupptökur skal afhenda rafrænt með öruggum hætti.
Eftir þann tíma sem mælt er fyrir um í 1. mgr. má verða við ósk málsaðila, saksóknara, verjanda og lögmanns málsaðila í einkamáli um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur eða fá afhent afrit hljóðupptöku, ef sérstakar ástæður mæla með því svo sem vegna beiðni um endurupptöku máls eða málskots til Mannréttindadómstóls Evrópu. Einnig má verða við slíkri ósk brotaþola og þess sem gætir hagsmuna hans ef þörf er á því til þess að hægt sé að gæta hagsmuna brotaþola.
3. grein
Beiðni um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur og fá hljóðupptökur afhentar skal beina til viðkomandi dómstóls. Beiðnin skal vera skrifleg og í henni skal tilgreint í hvaða tilgangi beiðnin sé sett fram.
4. grein
Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi tekur dómari, eða dómsformaður í fjölskipuðum dómi, ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
Telji dómari, eða eftir atvikum dómsformaður, óheimilt eða óskylt að verða við slíkri ósk kveður hann upp úrskurð um það ef þess er krafist, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir héraðsdómi tekur dómstjóri ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum. Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir Landsrétti tekur forseti Landsréttar slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
5. grein
Sá sem fær hljóðupptöku afhenta skal undirrita yfirlýsingu um trúnað á staðlað eyðublað þess dómstóls sem afhendir honum upptökuna. Er honum óheimilt að afhenda öðrum upptökuna, fjölfalda hana eða birta opinberlega. Þó er heimilt að afhenda öðrum upptökuna sé það nauðsynlegt vegna uppritunar í tengslum við áfrýjun máls enda ábyrgist viðkomandi trúnað við uppritun upptökunnar.
Lögmanni sem fær upptöku afhenta er auk þess heimilt að veita skjólstæðingi sínum aðgang að hljóðupptökunni til að hlusta á hana.
6. grein
Þegar máli hefur verið áfrýjað skal sá dómstóll, þar sem mál var rekið, verða við beiðni ríkissaksóknara um afhendingu á upptökum í viðkomandi máli endurgjaldslaust. Skrárnar skulu sendar ríkissaksóknara rafrænt með öruggum hætti.
7. grein
Lögmenn brotaþola í sakamálum og lögmenn málsaðila, eða eftir atvikum aðilar sjálfir, í einkamálum skulu greiða fyrir afrit af hljóðupptöku eftir reglum laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Verjandi ákærða í sakamálum fær eftirgerð af hljóðupptökum endurgjaldslaust.
8. grein
Allar upptökur skulu færðar á milli dómstiga með rafrænum hætti þegar þörf krefur með því að færa gögnin á milli aðgangsstýrðra mappa í miðlægum kerfum sem viðkomandi dómstólar hafa aðgang að.
Afritun á upptökum á milli dómstiga skal miða við hljóð- og myndskrár á upprunalegu sniði úr FTR-kerfi.
Hver héraðsdómstóll skal skilgreina þá starfsmenn sem eru ábyrgir fyrir því að afrita upptökur yfir á drif sem Landsréttur hefur aðgang að (U-drif) þegar dómsniðurstöðu hefur verið skotið til Landsréttar. Skulu þeir ekki vera fleiri en þörf er á og skulu þeir gæta þess að upprunalegu hljóðskrárnar séu áfram aðgengilegar viðkomandi héraðsdómstól hjá vörsluaðila.
9. grein
Héraðsdómur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Landsréttar og Landsréttur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Hæstaréttar.
Í einkamálum skal lögmaður áfrýjanda, eða eftir atvikum áfrýjandi sjálfur, annast að láta rita upp hljóðupptökur.
10. grein
Við uppritun skal þess gætt að setja inn upplýsingar um tímasetningu á skýrslutökudegi (klukkustund innan dags, mínútu og sekúndu) á spássíu endurrits ekki sjaldnar en einu sinni á hverri blaðsíðu í endurriti.
11. grein
Birting á hljóð- og myndupptökum af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast getur varðað sektum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008.
12. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. janúar 2023 og falla þá úr gildi reglur nr. 15/2018 um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa frá héraðsdómstólunum.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
10. nóvember 2022
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2022
1. grein
Laun dómara
Um laun dómara fer samkvæmt 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla með síðari breytingum. Laun dómara taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár.
Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar, sbr. 4. mg. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingum. Greiðslur fyrir gæsluvaktir eru til samræmis við fyrri ákvarðanir þar um.
2. grein
Um laun í námsleyfi dómara fer samkvæmt 7. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Dómari á annars vegar rétt á námsleyfi á launum til endurmenntunar og hins vegar styrk til starfsmenntunar.
Dómari á rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til að stunda endurmenntun, fyrst eftir fjögur ár í starfi. Dómari ávinnur sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur mest orðið sex mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Dómari heldur launum í námsleyfi og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Nánari reglur um námsleyfi dómara, þar á meðal um hámark ferða- og dvalarkostnaðar, er að finna í reglum dómstólasýslunnar nr. 4/2019.
3. grein
Persónuuppbót
Fyrsta desember ár hvert skal dómari fá greidda persónuuppbót sem er föst krónutala og skal hún taka sömu hlutfallslegri breytingu og laun dómara tóku 1. júlí sama ár, sbr. 1. gr. reglnanna.
4. grein
Önnur starfskjör
Um önnur starfskjör dómara fer samkvæmt gildandi reglum um almenn starfskjör forstöðumanna ríkisins eftir því sem við getur átt, sbr. heimild í 6. mgr. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingum, sbr. einnig 39. og 39. gr. a. Laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
5. grein
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt 6. mgr. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingu og öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar 10. nóvember 2022
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
2020
Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2020
LEIÐBEINANDI
1. grein
Til að stuðla að samræmi í réttarframkvæmd skal eftirfarandi tafla höfð til hliðsjónar þegar vararefsing fésektar er ákveðin:
Sekt: Vararefsing:
0-29.999 kr. 2 dagar
30.000-59.999 kr. 4 dagar
60.000-89.999 kr. 6 dagar
90.000-119.999 kr. 8 dagar
120.000-149.999 kr. 10 dagar
150.000-179.999 kr. 12 dagar
180.000-209.999 kr. 14 dagar
210.000-239.999 kr. 16 dagar
240.000-269.999 kr. 18 dagar
270.000-300.000 kr. 20 dagar
300.001-359.999 kr. 22 dagar
360.000-419.999 kr. 24 dagar
420.000-479.999 kr. 26 dagar
480.000-539.999 kr. 28 dagar
540.000-599.999 kr. 30 dagar
600.000-699.999 kr. 32 dagar
700.000-799.999 kr. 34 dagar
800.000-899.999 kr. 36 dagar
900.000-999.999 kr. 38 dagar
1.000.000-1.199.000 kr. 40 dagar
1.200.000-1.399.999 kr. 44 dagar
1.400.000-1.599.999 kr. 48 dagar
1.600.000-1.799.999 kr. 52 dagar
1.800.000-1.999.999 kr. 56 dagar
2.000.000-2.199.999 kr. 60 dagar
2.200.000-2.499.999 kr. 64 dagar
2.500.000-2.799.999 kr. 68 dagar
2.800.000-3.099.999 kr. 72 dagar
3.100.000-3.399.999 kr. 76 dagar
3.400.000-3.699.999 kr. 80 dagar
3.700.000-3.999.999 kr. 84 dagar
4.000.000-5.999.999 kr. 90 dagar
6.000.000-7.999.999 kr. 120 dagar
8.000.000-9.999.999 kr. 150 dagar
10.000.000-11.999.999 kr. 180 dagar
12.000.000-14.999.999 kr. 210 dagar
15.000.000-17.999.999 kr. 240 dagar
18.000.000-20.999.999 kr. 270 dagar
21.000.000-24.999.999 kr. 300 dagar
25.000.000-29.999.999 kr. 330 dagar
30.000.000 kr. og meira 360 dagar
Rétt getur verið að víkja frá þessari töflu þegar sekt er ákveðin sem margfeldi af ákveðinni fjárhæð.
2. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
14. janúar 2020.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2020
1. grein
Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum við fjárhagslega endurskipulagningu, sem skipaður er samkvæmt 19. gr. laga nr. 57/2020 um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, á rétt til þóknunar fyrir störf sín úr hendi skuldarans eftir því sem þeim miðar fram.
Tímagjald fyrir störf umsjónarmanns skal nema 18.500 krónum fyrir hverja klukkustund.
Með reikningi umsjónarmanns skal fylgja tímaskýrsla ásamt greinargóðu yfirliti um störf hans.
2. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 19. gr. laga nr. 57/2020 um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
8. júlí 2020.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2020
1. grein
Ráðherra skipar fimm dómendur í Endurupptökudóm. Þrír af þeim skulu vera embættisdómarar. Einn skal tilnefndur af Hæstarétti úr hópi dómara við réttinn, annar af Landsrétti úr hópi dómara við réttinn og sá þriðji sameiginlega af dómstjórum héraðsdómstólanna úr hópi héraðsdómara.
Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu til setu í dóminum en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt og skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipa skal jafnmarga varamenn fyrir þá dómendur sem koma úr hópi embættisdómara og ákveður ráðherra hvor þeirra sem tilnefndir eru af hverjum tilnefningaraðila verði aðalmaður og hvor verði varamaður.
2. grein
Tilnefning Hæstaréttar og Landsréttar skal ákveðin á fundi með dómurum réttarins. Ekki síðar en tveimur vikum fyrir fund þar sem tilnefningin er ákveðin skal forseti viðkomandi dómstóls bjóða dómurum réttarins að gefa kost á sér til setu í Endurupptökudómi innan 10 daga.
Skulu nöfn þeirra sem gefið hafa kost á sér koma fram í fundarboði sem dómurum réttarins er sent ekki síðar en þremur virkum dögum fyrir fund þar sem tilnefning skal ákveðin. Allir dómarar réttarins sem ekki hafa sérstaklega beiðst undan tilnefningu eru í kjöri. Kosning skal vera leynileg. Tilnefnd skulu sá karl og sú kona sem flest atkvæði fá. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða.
3. grein
Tilnefning dómenda úr röðum héraðsdómara skal ákveðin af dómstjórum héraðsdómstólanna á kjörfundi sem dómstólasýslan boðar til. Ekki síðar en tveimur vikum fyrir kjörfund býður framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar héraðsdómurum að gefa kost á sér til setu í dóminum innan 10 daga og boðar dómstjóra héraðsdómstólanna til kjörfundar ekki síðar en þremur virkum dögum fyrir þann fund. Skulu nöfn þeirra sem boðið hafa sig fram koma fram í fundarboði.
Allir héraðsdómarar sem ekki hafa sérstaklega beðist undan tilnefningu eru í kjöri. Kosning er rafræn og leynileg. Tilnefnd skulu sá karl og sú kona sem flest atkvæði fá. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða. Framkvæmdastjóri sér um tilnefningu héraðsdómara til setu í Endurupptökudómi fyrir hönd dómstjóranna þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir.
4. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 54. gr. laga nr. 47/2020 um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
10. september 2020.
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
2019
Reglur stjórnar dómstólasýslunnar um meðferð mála og verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra og hvaða stjórnsýsluverkefni heyra undir dómstólasýsluna og hver undir forstöðumenn dómstóla.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2019
1 . grein
Tilgangur
1.1. Markmið reglnanna er að útfæra nánar hlutverk og verkefni stjórnar dómstólasýslunnar og skýra frekar verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra ásamt því að greina hvaða stjórnsýsluverkefni heyra undir dómstólasýsluna og hver undir forstöðumenn dómstóla. Þá er tilgangur reglnanna að tryggja skilvirka, vandaða og sjálfstæða meðhöndlun mála.
2. grein
Verkefni stjórnar
2.1. Hlutverk stjórnar dómstólasýslunnar samkvæmt 7. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 er að leggja mat á og gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til dómstólasýslunnar, Hæstaréttar og Landsréttar og sameiginlega fjárveitingu til héraðsdómstólanna. Stjórn dómstólasýslunnar skiptir á milli héraðsdómstólanna fé sem skal veitt þeim í einu lagi með fjárlögum. Stjórn dómstólasýslunnar ákveður fjölda héraðsdómara og annarra starfsmanna við hvern héraðsdómstól. Stjórn dómstólasýslunnar veitir dómurum leyfi frá störfum. Stjórnin setur stofnuninni stefnu og markmið ásamt því að semja aðgerðaráætlun sem byggir á hlutverki hennar og dómstólasýslunnar með hliðsjón af meginhlutverki dómstólanna. Jafnframt setur stjórn starfsreglur um samræmda framkvæmd innan héraðsdómstólanna og aðrar reglur lögum samkvæmt.
2.2. Á hverju ári skulu eftirfarandi mál lögð fram á fundi stjórnar:
a. Yfirlit yfir fjölda mála liðins árs og afgreiðslu þeirra á hverju dómstigi um sig skulu lögð fram á fundi í janúar.
b. Drög að fjármálaáætlun skulu lögð fram í febrúar.
c. Endanleg fjármálaáætlun skal lögð fram og afgreidd í mars.
d. Umsóknir um námsleyfi dómara skulu lagðar fram og afgreiddar í maí.
e. Yfirlit yfir fjölda mála og afgreiðslu þeirra fyrstu sex mánuði ársins skulu lagðar fram í september.
f. Starfs- og rekstraráætlun dómstólanna og dómstólasýslunnar skal lögð fram og afgreidd eigi síðar en í byrjun október.
2.3. Önnur mál skulu tekin til umfjöllunar eða meðferðar á stjórnarfundum eftir því sem ástæða þykir til eða að ósk stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra.
2.4. Fastir fundir stjórnar og dómstjóra héraðsdómstólanna verða að jafnaði haldnir í janúar, maí og september ár hvert til þess að ræða m.a. fjármálaáætlun, málafjölda og starfs- og rekstraráætlanir. Fundir með öðrum forstöðumönnum dómstóla eru haldnir eftir þörfum.
3. grein
Skipting starfa innan stjórnar
3.1. Ráðherra skipar fimm manna stjórn og jafnmarga varamenn til fimm ára í senn. Formaður stjórnar er sá sem kjörinn er af hæstaréttardómurum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um dómstóla. Stjórn kýs sér ritara eða felur einhverjum úr hópi starfsmanna að rita fundargerðir stjórnar.
4. grein
Hlutverk og verkefni stjórnarformanns
4.1. Formaður stjórnar hefur forgöngu um að stjórn gegni hlutverki sínu með skilvirkum og skipulögðum hætti.
4.2 Helstu hlutverk stjórnarformanns eru að:
a. Hafa forgöngu um gerð starfsáætlunar stjórnar.
b. Boða til stjórnarfunda.
c. Útbúa fundardagskrá í samstarfi við framkvæmdastjóra fyrir hvern stjórnarfund.
d. Stýra stjórnarfundum og tryggja að nægur tími sé gefinn til umræðna og ákvarðanatöku, sérstaklega hvað varðar stærri og flóknari mál.
e. Stuðla að virkri þátttöku allra stjórnarmanna í umræðu og ákvarðanatöku.
f. Fylgja eftir ákvörðunum stjórnar innan dómstólasýslunnar og sjá til þess að verkefni stjórnar séu tekin til umfjöllunar eftir því sem við á og tilefni gefst til.
g. Vera talsmaður stjórnar út á við og eftir atvikum koma fram fyrir hönd dómstólasýslunnar ásamt framkvæmdastjóra.
5. grein
Skipun framkvæmdastjóra og hlutverk
5.1. Stjórn dómstólasýslunnar skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn dómstólasýslunnar.
5.2. Formaður stjórnar setur framkvæmdastjóra starfslýsingu sem hann skal staðfesta. Starfslýsing framkvæmdastjóra skal endurskoðuð reglulega.
5.3. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn dómstólasýslunnar í umboði stjórnar.
5.4. Framkvæmdastjóri skal kynna stjórn drög að ársskýrslu dómstólasýslunnar og dómstólanna áður en hún er birt.
5.5. Framkvæmdastjóri annast samskipti við dómsmálaráðuneytið vegna fjárveitinga til dómstólanna. Hann eftir atvikum með liðsinni formanni stjórnar skal eiga samráð við forseta Hæstaréttar og Landsréttar og samskipti við dómstjóra héraðsdómstólanna í aðdraganda framlagningar fjármálaáætlunar.
5.6. Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með gerð rekstraráætlana héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar en rekstraráætlanir byggja á fjárlagaheimildum hverju sinni og samþykktum áherslum í starfi dómstólanna samkvæmt fjármálaáætlun og samþykktri stefnu stjórnar dómstólasýslunnar.
6. grein
Stjórnsýsluverkefni forstöðumanna dómstóla
6.1. Forseti Hæstaréttar og forseti Landsréttar fara með yfirstjórn sinna stofnana og bera ábyrgð á rekstri síns dómstóls og fjárreiðum og stýra þeirri starfsemi sem ekki er hluti af meðferð máls fyrir dómi. Skrifstofustjóri Hæstaréttar og Landsréttar stýra daglegum rekstri dómstólanna eftir nánari ákvörðun forseta þeirra og í umboði þeirra. Dómstjórar héraðsdómstólanna fara með stjórn síns dómstóls og bera ábyrgð á starfsemi hans og fara með á eigin ábyrgð fé sem dómstólasýslan leggur dómstólnum í hendur. Forstöðumenn dómstólanna koma fram út á við í þágu dómstólanna og eru í fyrirsvari fyrir sérstök málefni þeirra. Forstöðumenn dómstólanna hafa að öðru leyti með höndum þau verkefni sem dómstólasýslan kann að fela þeim sérstaklega hverju sinni.
7. grein
Stjórnarfundir
7.1. Stjórn dómstólasýslunnar fundar að jafnaði mánaðarlega eða oftar þegar ástæða er til og í samræmi við reglur þessar.
7.2. Stjórnin semur starfsáætlun vegna reglulegra funda á starfsári hennar, þar sem tilgreindar eru dag- og tímasetningar reglulegra funda. Í starfsáætlun skal helstu verkefnum stjórnar raðað á dagskrá eftir því sem við á. Frávik frá samþykktri starfsáætlun skulu útskýrð verði því við komið þegar dagskrá er send stjórn.
7.3. Á reglulegum stjórnarfundum eru eftirfarandi mál að jafnaði tekin fyrir:
a. Fundargerð síðasta fundar lögð fram til samþykktar.
b. Upplýsingar til stjórnar um framvindu helstu verkefna hjá dómstólasýslunni.
c. Önnur upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar.
7.4. Nú telur formaður ekki stætt á því vegna sérstakra aðstæðna að bíða þess að haldinn verði reglulegur stjórnarfundur og getur hann þá tekið ákvörðun um símafund stjórnar eða að málefnið verði kynnt og tekið fyrir af stjórn rafrænt eða símleiðis. Ákvarðanir sem þannig eru teknar skulu lagðar fyrir næsta fund til staðfestingar.
7.5. Formanni ber að kalla saman fund ef stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri krefst þess.
7.6. Stjórnarmenn skulu tilkynna forföll eins fljótt og kostur er. Ef forföll eru boðuð skal varamaður boðaður ef unnt er en ella tekur formaður ákvörðun um hvort fundur verði engu að síður haldinn, enda haldi stjórn ályktunarhæfi sínu skv. 8. gr. Að öðrum kosti skal fundi frestað.
7.7. Fundir skulu haldnir á starfsstöð dómstólasýslunnar. Í sérstökum tilvikum má halda fund annars staðar telji formaður efni fundarins eða aðrar aðstæður gefa tilefni til. Heimilt er að stjórnarmenn taki þátt í stjórnarstörfum símleiðis eða með fjarfundarbúnaði og skał þess þá getið í fundargerð.
7.8. Dagskrá fundar skal tilkynnt með minnst fjögurra daga fyrirvara en varði mál meiri háttar efnislega ákvörðun skal dagskrá kynnt fyrr ef því verður komið við. Stjórnarmenn skulu snúa sér til stjórnarformanns eða framkvæmdastjóra með mál sem þeir óska að verði tekið á dagskrá stjórnarfundar. Skrifleg fundargögn sem varða fyrirhugaða ákvörðun stjórnar skulu send stjórnarmönnum minnst fjórum dögum fyrir fund eða gerð aðgengileg með rafrænum hætti, nema formaður ákveði annað í sérstökum tilvikum.
7.9. Mál til ákvörðunar og mál borið undir stjórn til samþykktar eða synjunar skał lagt fyrir stjórn skriflega. Stjórnarmaður getur óskað eftir frestun á afgreiðslu máls og skał máli frestað til næsta reglulega fundar, nema veigamikil rök mæli gegn því.
7.10. Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar og hefur þar tillögurétt. Stjórn og framkvæmdastjóri geta sameiginlega kallað til aðra starfsmenn dómstólasýslunnar á fund til þátttöku í einstökum málum og skal þá bóka í fundargerð hvenær þeir koma á fund og hvenær þeir víkja af honum.
7.11. Þeir sem sitja fundi stjórnar skulu gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um á fundum stjórnar og leynt skulu fara eftir lögum eða eðli máls. Formaður skal vekja athygli á þessu þegar efni eru til.
7.12. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu víkja af fundi og að öðru leyti ekki taka þátt í umfjöllun eða afgreiðslu máls ef fyrir hendi eru vanhæfisástæður í skilningi 3.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
8. grein
Ályktunarhæfi og umboð
8.1. Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund eða notast við fjarfundarbúnað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ákvörðun fellur á jöfnum atkvæðum.
9. grein
Fundargerðir
9.1. Ritari stjórnar færir fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum og um ákvarðanir stjórnar.
9.2. Í fundargerð skal skrá eftirfarandi:
a. Hvar og hvenær fundurinn er haldinn.
b. Númer stjórnarfundar.
c. Hverjir sitja fundinn, hver stýrir honum, klukkan hvað fundur er settur og hver ritar fundargerð.
d. Dagskrá fundarins.
e. Hvort einstök mál eru til upplýsingar, umræðu eða ákvörðunar.
f. Hvaða gögn fylgja hverjum dagskrárlið.
g. Hvaða gögnum var dreift fyrir fundinn og hvaða gögnum var dreift á fundinum.
h. Hvort stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða annar víkur af fundi við umræðu eða ákvörðun dagskrárliðar.
i. Umfjöllunarefni á fundum og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og eftir því sem við á helstu forsendur sem liggja að baki ákvörðun.
9.3. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri eiga rétt á að fá álit stt bókað í fundargerð.
9.4. Fundargerð skal lögð fram til undiritunar á næsta fundi stjórnar.
9.5. Fundargerðir og fundargögn eru varðveitt í málaskrá og í skjalasafni dómstólasýslunnar. Þær skulu birtar á vef dómstólasýslunnar eftir nánari ákvörðun stjórnar.
10. grein
Heimild og gildistaka
10.1. Reglur þessar eru settar samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
24. júní 2019
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar
2018
Reglur dómstólasýslunnar nr. 1/2018
LEIÐBEINANDI
1. grein
Dómarar mæti stundvíslega til dómþings og gæti þess að það hefjist á boðuðum tíma.
2. grein
Embættisdómarar beri ávallt skikkjur í þinghöldum í dómsölum. Þess er óskað að málflytjendur geri hið sama við aðalmeðferð mála eða munnlegan málflutning.
3. grein
Viðstaddir rísi úr sætum þegar dómarar ganga inn og út úr dómsal.
4. grein
Sóknaraðili/lögmaður sóknaraðila/ákærandi/réttargæslumaður brotaþola sitji við borð hægra megin í salnum frá dómurum séð en varnaraðili/ákærði/lögmaður varnaraðila/verjandi vinstra megin. Málflytjendur sitji nær dómaraborði, en umbjóðendur þeim við hlið.
5. grein
Dómþing skal sett og því slitið með afgerandi hætti, t.d. hamarshöggi.
6. grein
Dómari/dómsformaður geri kunnugt hvaða mál á að taka fyrir.
7. grein
Ákærandi rísi að jafnaði úr sæti og kynni ákæru og grundvöll hennar í stuttu máli.8. gr.
Sé unninn eiður eða drengskaparheit, standi allir viðstaddir.
9. grein
Málflytjendur flytji mál standandi við ræðupúlt. Þegar ákærði eða aðili fær að gera athugasemdir í lok málflutnings geri hann það einnig frá ræðupúlti.
10. grein
Við þá dómstóla, sem dómvörður starfar, skal hann vera dómurum og öðrum þeim, er að máli koma, til aðstoðar í hvívetna, er lýtur að framgangi þinghaldsins. Hann skal sjá um að þeir, sem gefa eiga skýrslur, fái ekki inngöngu í dómsal nema með leyfi dómsformanns.
11. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
4. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2018
Reglur um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af vitni skv. 123. gr. laga um meðferð sakamála
1. KAFLI
Gildissvið
1. grein
Reglur þessar taka fyrst og fremst til þess þegar skýrsla er tekin fyrir dómi af vitni, sem er yngra en 15 ára. Þær eiga hins vegar ekki við þegar lögregla tekur skýrslu af vitnum eða aflar gagna eða upplýsinga frá þeim, sbr. þó 12. gr. Samkvæmt reglum þessum nær hugtakið vitni einnig til brotaþola eftir því sem við á.
2. grein
Ákvæði II. og III. kafla gilda almennt um skýrslutöku fyrir dómi af vitni, yngra en 15 ára, hvort sem ákæra hefur verið gefin út eða ekki. Ákvæði IV. kafla eiga að auki við þegar skýrsla er tekin fyrir dómi af vitni, yngra en 15 ára, meðan á rannsókn máls stendur hvort sem um er að ræða brotaþola eða annað vitni, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála.
II. KAFLI
Aðstæður við skýrslutöku
3. grein
Skýrsla af vitni, sem er yngra en 15 ára, skal jafnan tekin á dómþingi fyrir luktum dyrum, sbr. a. lið 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála.
4. grein
Dómari getur ákveðið að skýrslutaka fari fram annars staðar en í dómsal ef það þykir æskilegt með tilliti til hagsmuna barnsins, sbr. 9. gr. laga um meðferð sakamála.
5. grein
Þegar skýrslutaka fer fram annars staðar en í dómsal skal skýrsla tekin í sérútbúnu húsnæði ef þess er nokkur kostur.
Salurinn eða herbergið, þar sem skýrslutakan sjálf fer fram, skal vera innréttaður og búinn húsgögnum og leikföngum með það fyrir augum að barninu, sem gefur skýrslu, líði sem best. Þar skal og vera til staðar búnaður til að unnt sé að taka skýrsluna upp í hljóði og mynd.
Þegar skýrsla er tekin skal vera búnaður sem tryggir að þeir sem ekki eru viðstaddir sjálfa skýrslutökuna en eiga rétt á að fylgjast með henni, sbr. 10. gr., geti gert það um leið og hún fer fram.
6. grein
Þegar skýrslutaka fer fram annars staðar en í dómsal, en sérútbúið húsnæði er ekki fyrir hendi, skal engu síður kappkostað að fullnægja þeim kröfum um aðbúnað og aðrar aðstæður við skýrslutöku sem gerðar eru í 5. grein.
III. KAFLI
Almenn ákvæði um tilhögun skýrslutöku
7. grein
Ef skýrsla er tekin af vitni eftir að ákæra hefur verið gefin út skal skýrslutaka fara fram í tengslum við aðalmeðferð máls þótt skýrsla sé tekin annars staðar en í húsnæði hlutaðeigandi dómstóls.
8. grein
Dómari setur þinghald og ráðgast eftir atvikum við ákæranda, verjanda og réttargæslumann brotaþola áður en vitni kemur fyrir dóm til skýrslugjafar.
Dómari leiðbeinir vitni um skyldu hans sem vitnis til að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan, sem máli skiptir, og skýrir fyrir því ábyrgð þess í því sambandi, allt eftir aldri og þroska barnsins.
9. grein
Dómari getur kvatt kunnáttumann, t.d. sérþjálfaðan sálfræðing eða lögreglumann, sér til aðstoðar við skýrslutöku.
Dómari stýrir skýrslutöku og skal hún framkvæmd á eins varfærinn hátt og unnt er, þó með það að leiðarljósi að fá vitni til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir. Þótt kunnáttumaður sé til kvaddur getur dómari ákveðið að spyrja vitni sjálfur með aðstoð hans. Dómari getur einnig falið kunnáttumanninum að spyrja vitni beint og jafnframt lagt fyrir hann að spyrja barnið tiltekinna spurninga.
Dómara er rétt að leggja fyrir vitni þær spurningar sem ákærandi eða verjandi óska. Ef þeir eru viðstaddir skýrslutöku getur dómari enn fremur gefið þeim kost á að spyrja barnið beint. Þá getur réttargæslumaður óskað þess að dómari spyrji vitni tiltekinna spurninga og jafnframt getur dómari heimilað honum að spyrja barnið beint.
Að öðru leyti gilda um skýrslutökuna ákvæði 122. greinar laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.
10. grein
Ef dómari telur að nærvera ákæranda, ákærða og verjanda hans geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess getur hann ákveðið að þeir víki úr þingsal eða þeim sal eða herbergi þar sem skýrslutaka fer fram. Því aðeins er hægt að grípa til þessa úrræðis að séð verði til þess að ákærandi, ákærði og verjandi geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram, sbr. 3. mgr. 5. gr. Réttargæslumaður brotaþola á ávallt rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku af brotaþola.
11. grein
Ef gripið hefur verið til þess úrræðis, sem mælt er fyrir um í 10. gr., er rétt að dómari geri hlé á skýrslutöku svo að hann geti eftir atvikum ráðgast við ákæranda, verjanda og réttargæslumann brotaþola, að vitni fjarstöddu, um framhald skýrslutökunnar, þar á meðal leitað eftir því hvort þeir óski að leggja tilteknar spurningar fyrir það.
IV. KAFLI
Sérstök ákvæði um tilhögun skýrslutöku á rannsóknarstigi
12. grein
Lögregla sér um að rannsaka mál og afla allra tiltækra gagna og upplýsinga, þar á meðal frá vitnum, til þess að ákæranda sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli mann til sakar.
13. grein
Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri þegar rannsókn hefst ber lögreglu skv. a. lið 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála, þegar hún telur tímabært, að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af því eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögunum og þessum reglum.
Í öðrum tilvikum er lögreglu heimilt, en ekki skylt, að leita atbeina dómara til að taka skýrslu af vitni á rannsóknarstigi enda séu skilyrði b. eða c. liðar 1. mgr. 59. gr. fyrir hendi.
Beiðni um skýrslutöku skal að jafnaði vera skrifleg og skulu fylgja henni öll nauðsynleg gögn og upplýsingar um málið, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð sakamála. Að öðru leyti skal dómari leysa úr kröfunni samkvæmt XV. kafla laganna.
14. grein
Þegar skýrsla er tekin fyrir dómi skv. 13. gr. er lögreglu ávallt heimilt að vera viðstödd skýrslutöku nema dómari telji að nærvera hennar geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Getur dómari þá gripið til þess úrræðis, sem fyrir er mælt í 10. gr., enda verði séð til þess að lögregla geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og haft nauðsynlegt samráð við ákæranda meðan á henni stendur.
15. grein
Dómara ber að tilkynna ákæranda, verjanda sakbornings og réttargæslumanni brotaþola um það með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær skýrslutaka af vitni á rannsóknarstigi fer fram svo að þeir geti verið viðstaddir hana.
Sakborningur á rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku ásamt verjanda sínum nema dómari telji að nærvera hans geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Skal dómari þá sjá til þess, ef þess er kostur, að sakborningur og verjandi geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 10. gr.
16. grein
Dómara ber að sjá til þess að skýrsla vitnis á rannsóknarstigi verði tekin upp í hljóði og á mynd til afnota á síðari stigum málsmeðferðar.
17. grein
Að lokinni skýrslutöku sendir dómari lögreglu endurrit úr þinghaldinu auk eintaks í hljóði og mynd af skýrslu vitnis, sbr. 16. grein.
V. KAFLI
Reglur um tilhögun skýrslutöku af vitni skv. 123. gr. laga um meðferð sakamála
18. grein
Tilhögun skýrslu samkvæmt 1. mgr. og 3. ml. 2. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála fer eftir 15. gr. reglnanna eftir því sem við á.
VI. KAFLI
Heimild og gildistaka
19. grein
Reglur þessar eru settar eru með heimild í 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
4. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2018
1. grein
Þingstaðir héraðsdómstóla eru sem hér segir:
1. Héraðsdómur Reykjavíkur: Aðsetur dómsins í dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík.
2. Héraðsdómur Vesturlands: Aðsetur dómsins að Bjarnarbraut 8 í Borgarnesi.
3. Héraðsdómur Vestufjarða: Aðsetur dómsins að Hafnarstræti 9 á Ísafirði.
4. Héraðsdómur Norðurlands vestra: Aðsetur dómsins að Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki.
5. Héraðsdómur Noðurlands eystra: Aðsetur dómsins að Hafnarstræti 107 á Akureyri.
6. Héraðsdómur Austurlands: Aðsetur dómsins að Lyngási 15 á Egilsstöðum
7. Héraðsdómur Suðurlands:
a. Þinghá sem tekur til sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Ásahrepps, Flóahrepps, Bláskógabyggðar, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar, Sveitarfélagsins Ölfus og Sveitarfélagsins Árborgar: Aðsetur dómsins að Austurvegi 4 á Selfossi.
b. Þinghá sem tekur til Vestmannaeyjabæjar: Hjá sýslumanninum í Vestmaeyjum að Heiðarvegi 15 í Vestmannaeyjum.
8. Héraðsdómur Reykjaness: Aðsetur dómsins að Fjarðargögu 9 í Hafnarfirði.
2. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 6/2018
1. grein
Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt við sama dómstól eða án fasts sætis við tiltekinn dómstól, enda standi ákvæði 5. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla því ekki í vegi að fengið verði fyrir hann fast dómarasæti á öðrum vettvangi.
Héraðsdómari skal beina skriflegri og rökstuddri ósk sinni um að skipta um starfsvettvang til dómstólasýslunnar.
Reglur þessar taka ekki til ákvarðana dómstólasýslunnar um starfsstöð héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól eða breytinga á starfsstöð þeirra eða verkefnum.
2. grein
Dómstólasýslan skal leitast við að verða við óskum þeirra héraðsdómara sem rétt eiga á flutningi svo fljótt sem auðið er.
Flutningur dómara milli umdæma skulu að jafnaði fara fram í júlí nema aðstæður krefjist annars.
3. grein
Áður en dómstólasýslan nýtir þær heimild til þess að flytja héraðsdómara á milli umdæma skal kannað hvort einhver dómari er reiðubúinn að gegna starfi í því umdæmi sem dómara vantar um lengri eða skemmri tíma.
4. grein
Heimild til að flytja héraðsdómara án samþykkis hans um 6 mánaða tíma skv. 5. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2016 skal að jafnaði ekki beitt til þess að rýma fyrir þeim sem rétt á til flutnings nema í undantekningartilvikum.
Ákvæði þetta tekur ekki til þeirra héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn dómstól.
5. grein
Þegar tveir eða fleiri héraðsdómarar, sem rétt eiga á að skipta um starfsvettvang, óska flutnings á sama héraðsdómstól og ekki er unnt að verða við óskum beggja skal dómstólasýslan reisa ákvörðum sína á eftirfarandi atriðum:
a. Lengd starfstíma héraðsdómara á þeim stað sem óskað er flutnings frá eða í starfi héraðsdómara án fasts sætis við tiltekinn dómstól skal ráða.
b. Héraðsdómari án fasts sætis við tiltekinn dómstól gengur fyrir þeim sem gegnt hefur fastri dómarastöðu hafi þeir gegnt stöðum sínum jafn lengi.
c. Skeri reglur í a. eða c. liðar ekki úr skal litið til prófaldurs, lífaldurs, fyrri óska um flutning sem ekki hefur verið orðið við, og heilsufars- eða fjölskylduaðstæðna.
Héraðsdómara sem hagsmuni hefur af ákvörðun samkvæmt þessari grein skal gefinn kostur á að mæta á fund dómstólasýslunnar til að koma að sjónarmiðum sínum eða senda dómstólasýslunni athugasemdir sínar áður en ákvörðun er tekin.
Ekki þarf að láta rökstuðning fylgja ákvörðun samkvæmt þessari grein en skylt er að veita eftirfarandi rökstuðning ef þess er krafist.
6. grein
Eigi héraðsdómari sem ekki hefur átt fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól kost á föstu sæti við tiltekinn dómstól en hafnar því hefur það ekki áhrif á viðmiðunarstarfstíma skv. a. lið 1. mgr. 5. gr.
Taki héraðsdómari hins vegar slíku boði sem um er rætt í 1. mgr., þótt starfsvettvangurinn sé ekki í samræmi við óskir hans, skal viðmiðunartími skv. a. lið 1. mgr. 5. gr. miðast við hvenær hann hóf störf á nýjum starfsvettvangi.
7. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 7/2018
LEIÐBEINANDI
1. gr.
Einkamál.
Miða skal við að frestir í einstaka einkamáli verði sem hér segir:
a. máli skal að jafnaði ekki frestað oftar en tvisvar sinnum á reglulegu dómþingi að ósk stefnda til að leggja fram greinargerð í máli.
b. dómari boði til fyrstu fyrirtöku í máli eigi síðar en tveimur vikum eftir úthlutun.
c. máli verði að jafnaði ekki frestað oftar en tvisvar sinnum eftir úthlutun til gagnaöflunar og/eða sáttaumleitana.
d. fari annar hvor aðili fram á að dómkvaddir verði matsmenn í málinu skal lagt fyrir matsmenn að ljúka mati innan sex vikna frá dómkvaðningu og leggja fyrir aðila máls að sjá til þess að svo verði.
e. að jafnaði líði að hámarki fjórir mánuðir frá fyrstu fyrirtöku í máli eftir að máli hefur verið úthlutað til dómara þar til aðalmeðferð hefst.
f. dragist dómsuppsaga fram yfir fjórar vikur skal aðilum fyrirfram gert aðvart um það og boðað hvenær ráðgert sé að dómsuppsaga fari fram.
g. dómari skal tilkynna það til dómstjóra ef dómsuppsaga dregst fram yfir átta vikur.
h. ágreiningsmálum um forsjá barna eða forjársviptingu skal hraðað sérstaklega.
i. málsmeðferðartími verði að jafnaði innan við sex mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.
2. gr.
Sakamál.
Miða skal við að frestir í einstaka sakamáli verði sem hér segir:
a. fyrirkall skal gefið út innan tveggja vikna frá úthlutun máls.
b. máli verði að jafnaði ekki frestað nema einu sinni að ósk ákærða til að taka ákvörðun um hvort hann haldi uppi vörnum í því.
c. aðalmeðferð skal að jafnaði hefjast innan sex vikna frá þingfestingu máls.
d. ef ákærði sætir gæsluvarðhaldi þegar máli er úthlutað er að jafnaði rétt að þingfesta mál innan viku frá úthlutun án útgáfu fyrirkalls. Í því tilfelli skal að því stefnt að aðalmeðferð fari fram svo fljótt sem kostur er og innan tveggja vikna frá úthlutun, nema sérstaklega standi á.
e. kynferðisbrotamálum og málum þar sem ákærði sætir farbanni skal hraða sérstaklega.
f. málsmeðferðartími skal að jafnað vera innan við þrír mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.
3. gr.
Heimild og gildistaka.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 8/2017
1. gr.
Form tryggingar
Dómari ákveður form málskostnaðartryggingar og metur hvort taka eigi tryggingu gilda.
Að jafnaði er rétt að leggja málskostnaðartryggingu fram í formi reiðufjár eða bankatryggingar.
2. gr.
Meðferð málskostnaðartryggingar í reiðufé
Málskostnaðartryggingu sem afhent er í reiðufé skal dómstóll leggja inn á vörslureikning sinn og auðkenna færsluna með viðkomandi málsnúmeri. Vextir sem á slíkt reiðufé fellur bætast við trygginguna.
3. gr.
Gildistími bankatryggingar
Rétt er að setja það skilyrði að bankatrygging, sem lögð er fram sem málskostnaðartrygging, haldi fullu gildi þar til viðkomandi héraðsdómstóll staðfestir að hún sé úr gildi fallin en þó ekki lengur en í þrjú ár frá því að trygging var tekin. Slík trygging ber hvorki vexti né verðtryggingu nema dómari ákveði annað.
4. gr.
Bókun um málskostnaðartryggingu
Hafi málskostnaðartrygging verið sett skal bókað í þingbók, um hvers konar tryggingu sé að ræða og hversu háa og skilríki um tygginguna lögð fram í málinu.
5. gr.
Afhending málskostnaðartryggingar
Málskostnaðartrygging skal fylgja beiðni um endurupptöku en að öðrum kosti verður beiðnin endursend.
Í öðrum tilvikum skal málskostnaðartryggingin afhent dómara.
Sá sem setur málskostnaðartryggingu á rétt á því að frá kvittun fyrir afhendingu tryggingarinnar og eins sá sem hana varðveitir og lætur af hendi.
6. gr.
Greiðsla tryggingarfjár
Nú er sá sem málskostnaðartryggingu setur í formi reiðufjár dæmdur til að greiða málskostnað eða gerir sátt þar um og greiðist dæmdur, úrskurðaður eða umsaminn málskostnaður þá af tryggingarfé þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar en ella þegar endanlegur dómur er genginn í málinu. Innstæða, svo og vextir sem hún hefur borið, skal greidd þeim sem á að fá tryggingarféð. Tryggingarhafi fær greiðslu þó aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til þess að málskostnaður verði að fullu greiddur og er þeim sem greiðslu innir af hendi rétt að ganga eftir upplýsingum um stöðu kröfu. Sömu skilyrði og að framan greinir gilda um endurgreiðslu tryggingarfjár til þess sem trygginguna setti.
Nú er málskostnaðartrygging sett í formi bankatryggingar og skal þá viðkomandi héraðsdómstóll, þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar en ella þegar endanlegur dómur er genginn í málinu, gefa út yfirlýsingu um að banka sé heimilt að greiða tryggingarhafa allt tryggingarféð eða þann hluta sem samsvarar dæmdum, úrskurðuðum eða umsömdum málskostnaði, eða eftir atvikum um að trygginguna megi fella niður.
Aðili máls, sem telur sig eiga rétt til tryggingarfjár, skal gera reka að því að fá það greitt út með því að krefja viðkomandi dómstól um greiðslu þess eða afla yfirlýsingar dómstólsins um að banka sé heimilt að greiða honum það.
7. gr.
Fyrning
Ef tryggingarfjár, sem afhent hefur verið í formi reiðufjár, er ekki vitjað gilda um það almennar fyrningarreglur.
8. gr.
Aðrar tryggingar
Reglurnar gilda, eftir því sem við getur átt, um tryggingu fyrir greiðslu þóknunar til matsmanns, skv. 63. gr. laga nr. 91/1991, tryggingu vegna ástæðulausrar kæru skv. 3. mgr. 146. gr. sömu laga og um tryggingar sem settar eru vegna reksturs dómsmála í öðrum málaflokkum en almennum einkamálum.
Reglurnar gilda ekki um tryggingu fyrir skiptakostnaði skv. 2. mgr. 67. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.
9. gr.
Heimild og gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
11. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Reglur dómstólasýslunnar nr. 12/2018
LEIÐBEINANDI
1. gr.
Þegar um er að ræða kaup efnanna kannabis, amfetamíns, LSD, MDMA og kókaíns og aðra öflun þeirra til eigin nota í smáum stíl skal miða við grunnsektir samkvæmt leiðbeiningum/fyrirmælum Ríkissaksóknara til lögreglustjóra RS-2/2009.
2. gr.
Nú er sektarfjárhæð hærri en 300.000 krónur, samkvæmt nefndum leiðbeiningum, og skal þá höfð hliðsjón af töflu í 3. gr. Hún miðar við vörslur, kaup eða aðra öflun efna til eigin nota við fyrsta brot og að ekki séu fyrir hendi refsilækkunar- eða refsihækkunarástæður.
3. gr.
Kókaín, frá 33 g allt að 100 g 1,5-2,5 fangelsisdagar fyrir hvert gramm eða hluta af grammi
MDMA, frá 33 töflum allt að 100 töflum 1,5,-2,5 fangelsisdagar fyrir hverja töflu eða hluta af töflu
Amfetamín, frá 36 g allt að 100 1,5-2 fangelsisdagar fyrir hvert gramm eða hluta af grammi
LSD, frá 36 skömmtum allt að 100 skömmtum 1,5-2 fangelsisdagar fyrir hvern skammt eða hluta af skammti
Kannabis
90-200 g 30-45 daga fangelsi
201-400 g 45-60 daga fangelsi
401-600 g 60-90 daga fangelsi
601-1000 g 3ja mánaða fangelsi
4. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
18. desember 2017.
Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.
Gildandi auglýsingar:
Auglýsing um regluleg dómþing á föstum þingstöðum
Með vísan til 37. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla hefur dómstólasýslan, að fengnum tillögum dómstjóra héraðsdómstólanna, tekið svofellda ákvörðun um regluleg dómþing á föstum þingstöðum frá 1. janúar 2019:
1. gr.
1. Umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þingstaður: Dómhús Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg í Reykjavík, dómsalur 102.
Regluleg dómþing verða hvern þriðjudag og fimmtudag kl. 10.00.
2. Umdæmi Héraðsdóms Vesturlands.
Þingstaður: Héraðsdómur Vesturlands, Bjarnarbraut 8 í Borgarnesi.
Regluleg dómþing verða 1. þriðjudag hvers mánaðar kl. 14.00.
3. Umdæmi Héraðsdóms Vestfjarða.
Þingstaður: Héraðsdómur Vestfjarða, Hafnarstræti 9 á Ísafirði.
Regluleg dómþing verða 1. miðvikudag hvers mánaðar kl. 14.00.
4. Umdæmi Héraðsdóms Norðurlands vestra.
Þingstaður: Héraðsdómur Norðurlands vestra, Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki.
Regluleg dómþing verða 2. þriðjudag hvers mánaðar kl. 14.00.
5. Umdæmi Héraðsdóms Norðurlands eystra.
Þingstaður: Héraðsdómur Norðurlands eystra, Hafnarstræti 107 á Akureyri.
Regluleg dómþing verða hvern fimmtudag kl. 13.30.
6. Umdæmi Héraðsdóms Austurlands.
Þingstaður: Héraðsdómur Austurlands, Lyngási 15 á Egilsstöðum.
Regluleg dómþing verða 1. fimmtudag hvers mánaðar kl. 14.00.
7. Umdæmi Héraðsdóms Suðurlands skiptist í eftirfarandi dómþinghár:
a. Umdæmi sem tekur til sveitarfélaganna Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Ásahrepps,Flóahrepps, Bláskógabyggðar, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps,Hveragerðisbæjar, Sveitarfélagsins Ölfus og Sveitarfélagsins Árborgar. Þingstaður: Héraðsdómur Suðurlands, Austurvegi 4 á Selfossi. Regluleg dómþing verða 1. og 3. miðvikudag hvers mánaðar kl. 14.00.
b. Umdæmi sem tekur til Vestmannaeyjabæjar. Þingstaður: Skrifstofa sýslumanns, Heiðarvegi 15 í Vestmannaeyjum. Regluleg dómþing verða 2. fimmtudag mánaðar kl. 15.00, mánuðina febrúar, mars, apríl, maí, júní, september, október, nóvember og desember.
8. Umdæmi Héraðsdóms Reykjaness.
Þingstaður: Héraðsdómur Reykjaness, Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði. Regluleg dómþing verða hvern miðvikudag kl. 09.00.
2. gr.
Hlé verða á reglulegum dómþingum mánuðina júlí og ágúst svo og frá 20. desember til 6. janúar, að báðum dögum meðtöldum. Þá falla regluleg dómþing niður á lögboðnum frídögum, sbr. lög nr. 88/1971.
3. gr.
Auglýsing þessi gildir frá og með 1. janúar 2019. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing dómstólasýslunnar dagsett 11. desember 2017.
Reykjavík, 24. september 2018.
Ólöf Finnsdóttir
framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar.