Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Meðferðarheimili

Meðferðarheimili Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) eru fyrir börn á aldrinum 12-18 ára sem glíma við vímuefnavanda, alvarlegan hegðunarvanda og afbrotahegðun. Oft hafa minna íþyngjandi úrræði eins og MST verið reynd áður en gripið er til vistunar á meðferðarheimili. Meðferðarheimili BOFS eru sérhæfð meðferðarúrræði með sólarhrings umsjón í heimilislegu umhverfi. Meðferðin er fagleg og einstaklingsmiðuð, með það að markmiði að draga úr áhættuþáttum og byggja upp verndandi þætti. Meðferðarheimilin skiptast í:

  • Grunnmeðferð

  • Framhaldsmeðferð

  • Stuðningsheimili

  • Neyðarvistun

Hvenær á vistun á meðferðarheimili við?

Vistun á meðferðarheimili kemur til greina þegar meðferð inni á heimili fjölskyldu hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Vistun á meðferðarheimili er íþyngjandi og því þarf að meta vel hverju sinni hvort hún sé viðeigandi. Barnaverndarþjónusta ákveður í samráði við barn og forsjáraðila að sækja um vistun á meðferðarheimili. Endanlegt mat á því hvort vistun sé við hæfi er í höndum meðferðarteymis BOFS, þá er horft til eftirfarandi þátta:

  • Neyslusögu

  • Hegðunarvanda

  • Afbrotasögu

  • Samskipta innan fjölskyldu

  • Skóla- og atvinnuþátttöku

  • Vinhópa og tómstunda

  • Frávika í þroska og hegðun

Grunnmeðferð

Í grunnmeðferð er lögð áhersla á að kortleggja vanda barna og fjölskyldna þeirra eða forsjáraðila í samvinnu við barnaverndarþjónustur. Meðferðin fer fram á Blönduhlíð og er meðferðartími 8-12 vikur. Á þeim tíma er meðferðarþörf metin og unnið að meðferðaráætlun þar sem áhersla er lögð á að draga úr áhættuþáttum og auka verndandi þætti í umhverfi barns, veita stöðugleika og auka virkni. Foreldrar eða forsjáraðilar eru virkir þátttakendur í meðferðinni og barn fer reglulega heim á meðferðartíma. Það er alltaf markmið að barn geti farið heim til fjölskyldu eða til forsjáraðila að meðferð lokinni. Sé meðferðarmarkmiðum ekki náð eða árangur ekki ásættanlegur við lok meðferðartímabils er mælt með framhaldsmeðferð eða annars konar stuðningi við barn og forsjáraðila. Áhersla á:

  • Kortlagningu vanda barns og fjölskyldu

  • Greiningu á áhættu- og verndandi þáttum

  • Samvinnu við barnaverndarþjónustu og forsjáraðila

  • Einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun

  • Regluleg heimfararleyfi

  • Að barnið geti snúið heim að lokinni meðferð

Hér má finna upplýsingabækling/handbók meðferðaheimilisins Blönduhlíðar

Framhaldsmeðferð

Framhaldsmeðferð er meðferðarúrræði sem getur varað allt að sex mánuði með þeim möguleika að sótt sé um framlengingu sé það talið þjóna hagsmunum barns. Framhaldsmeðferðarheimilin eru tvö: Bjargey fyrir stúlkur/stálp og Lækjarbakki fyrir drengi/stálp. Í framhaldsmeðferð er unnið að því að draga úr áhættuhegðun barns á grundvelli þeirrar kortlagningar sem fór fram í grunnmeðferðinni sem og upplýsinga frá skjólstæðingnum sjálfum, barnverndarþjónustu og forsjáraðilum. Unnið er út frá meðferðaráætlun og þörfum hvers og eins. Eins og í grunnmeðferðinni er lögð áhersla á að tryggja öryggi og stöðugleika, auka virkni og verndandi þætti í umhverfi barns. Unnið er í samvinnu við forsjáraðila og barnaverndarþjónustu. Áhersla er lögð á:

  • Einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun

  • Virkni í skóla, vinnu og tómstundum

  • Samvinnu við forsjáraðila og barnaverndarþjónustu

  • Að barnið geti snúið heim eða í önnur stuðningsúrræði.

Hér má finna upplýsingabækling fyrir Bjargey

*Meðferðarheimilið Lækjarbakki opnar að nýju í janúar 2026.

Stuðlar - Neyðarvistun

Neyðarvistun er bráða úrræði fyrir börn í alvarlegum vanda þar sem vistunartími er að hámarki fjórtán dagar. Þessu úrræði er ætlað að stöðva óæskilega og/eða skaðlega hegðun barns, hlúa að barninu og skapa tækifæri fyrir barnaverndarþjónustu og foreldra til að finna lausnir á ákveðnum vanda. Vistun á aldrei að vara lengur en þörf er á eða á meðan neyð stendur. Sálfræðingur og deildarstjóri meta neyð reglulega og ákvarða vistunartíma í samráði við barnaverndarþjónustu.

  • Stöðva skaðlega hegðun

  • Hlúa að barninu

  • Skapa rými fyrir lausnamiðaða vinnu

Hér má finna tengil á upplýsingabækling neyðarvistunar

Stuðningsheimilið Blönduhlíð

Stuðningsheimili er ætlað börnum sem hafa lokið grunn- og framhaldsmeðferð og þurfa áframhaldandi stuðning en geta af ýmsum ástæðum ekki búið hjá forsjáraðilum. Megináhersla er lögð á að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur í meðferð, vinna áfram með virkni og samfélagsþátttöku og undirbúa skjólstæðing fyrir að standa á eigin fótum. Áhersla er á:

  • Viðhald meðferðarárangurs

  • Samfélagslega virkni

  • Undirbúning að sjálfstæðu lífi

Linkur á handbók fyrir stuðningsheimilið Blönduhlíð

Áherslur í meðferð

  • Öryggi í fyrirrúmi:
    Umhverfi þar sem börn finna fyrir líkamlegu, félagslegu, tilfinningalegu og menningarlegu öryggi.

  • Tengsl við fjölskyldu:

    Stuðningur og þátttaka forsjáraðila.

  • Samfélagsleg tenging:

    Meðferðarheimili eru hluti af samfélaginu og mikilvægt að samfélagsleg þátttaka barna haldi áfram og eflist meðan á dvöl stendur.

  • Lærdómur í daglegu lífi:

    Meðferð byggist á virkri þátttöku í félagslegum athöfnum daglegs lífs.

  • Gagnreyndar aðferðir:

    Leitast er eftir að starfa eftir bestu þekkingu í málaflokknum.

Hugmyndafræði og aðferðir

Meðferðarheimilin byggja á fjölbreyttum fræðilegum grunni og fær allt starfsfólk þjálfun í þessum aðferðum:

  • Áfallanæm umönnun
    (Three Pillars of trauma-informed care) - Þekking á áhrifum áfalla og unnið að því að auka öryggi, tengsl og bjargráð

  • Atferlismótun
    Þrepakerfi og styrking jákvæðrar hegðunar

  • Áhugahvetjandi samtal
    (Motivational interviewing) - Virk hlustun, samvinna, samkennd, samþykki, valdefling og áhersla á áhugahvöt einstaklings

  • Stöðustyrkjandi samfélag
    Samfélagsleg þátttaka og virðing

  • ART
    Félagsfærni, reiðistjórnun og siðferðileg rökræða

Hvernig er lífið á meðferðarheimili?

  • Styðjandi umhverfi:
    Félagsskapur og samneyti.

  • Skipulag:

    Dagleg rútína og einstaklingsmiðuð dagskrá.

  • Einstaklingsviðtöl:

    Viðtöl við sálfræðing og ráðgjafa þar sem unnið er m.a. með vímuefnaneyslu, tilfinningavanda, sjálfsmynd og samskipti.

  • Hópmeðferð:

    Unnið með ýmis málefni eins og vímuefnaneyslu, reiðistjórnun, siðferði, félagsfærni og geðheilbrigði.

  • Virkni:

    Skóli og/eða vinna aðlagað að hverjum og einum.

  • Jafningjastuðningur:

    Fræðsla og stuðningssamtöl.

  • Fjölskylduvinna:

    Samvinna við forsjáraðila.

  • Yfirfærsla:

    Æfingaferðir heim og einstaklingsbundið mat.

  • Eftirfylgd:

    Þegar að vistun líkur flyst mál barns í Farveginn sem fylgir eftir þeim árangri sem náðst hefur í meðferð og styður við áframhaldandi árangur.

Starfsfólk meðferðarheimila

Á meðferðarheimilum BOFS starfar fjölbreyttur hópur með mismunandi bakgrunn. Allir fá þjálfun í þeim aðferðum sem stuðst er við og öryggismálum. Sálfræðingar gegna lykilhlutverki í stuðningsteymi barns og bera ábyrgð á einstaklingsmiðaðri meðferðaráætlun, veita handleiðslu og fræðslu til starfsfólks. Á hverju heimili eru forstöðumaður, deildarstjóri, hópstjórar, ráðgjafar og fleiri sem vinna náið með börnunum á hverjum degi.

Meðferðarteymi BOFS

Meðferðarteymi leiðir faglega þróun meðferðakerfisins og ber ábyrgð á því að börnum og fjölskyldum þeirra sé veitt samræmd þjónusta. Meðferðarteymi sinnir almennri þjálfun og fræðslu til starfsfólks auk þess að veita því handleiðslu og stuðning í tilteknum málum.

Helstu hlutverk meðferðarteymis eru:

  • Ráðgjöf við barnaverndarþjónustur

  • Móttaka og mat á umsóknum um vistun á meðferðarheimilum

  • Fagleg umsjón með meðferð og greiningu skjólstæðinga á meðferðarheimilum

  • Fræðsla og endurmenntun starfsmanna á meðferðarheimilum, handleiðsla og stuðningur

  • Fagleg þróun meðferðakerfis þ.m.t. þróun og vinna við fræðsluefni, verkferla, nýsköpun o.fl.

  • Samstarf við aðrar stofnanir innan málaflokksins