Fjárráða einstaklingur, sem á erfitt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, getur óskað þess að yfirlögráðandi (sýslumaður) skipi honum ráðsmann. Skilyrði þess er að hann geri sér grein fyrir þýðingu þeirrar ráðstöfunar.
Læknisvottorð þarf að fylgja umsókninni, þar sem gerð er grein fyrir heilsufari umsækjandans, sem og að einstaklingurinn skilji þýðingu þess að hann fái ráðsmann.
Þegar einstaklingur hefur fengið ráðsmann, ræður hann ekki lengur yfir þeim eignum sem ráðsmaður hefur umsjón yfir en má þó ráðstaða þeim með erfðaskrá.
Hægt er að fela ráðsmanni umsjón fasteigna, flugvéla, skipa, ökutækja, bankareikninga, viðskiptabréfa og inneigna í verðbréfasjóðum.
Ef ráðsmanni er falin umsjón með fasteign, flugvél, skipi eða ökutæki þarf að þinglýsa skipun ráðsmannsins á eignina.
Hægt er að óska eftir því að tiltekinn einstaklingur verði skipaður ráðsmaður en annars er hann valinn í samráði við umsækjanda.
Sá sem hefur fengið ráðsmann, getur óskað eftir því að ráðsmanni verði veitt lausn frá störfum og að viðkomandi ráði aftur sjálfur yfir eignum sínum.
Gjald
Gjald fyrir skipun ráðsmanns og breytingu á störfum hans er kr. 5.000. Sama gjald skal greiða þegar ráðsmanni er veitt lausn frá störfum að ósk skjólstæðings hans.
Ábyrgð og þóknun ráðsmanna
Ráðsmaður ber ábyrgð á að vekja athygli sýslumanns á því ef heilsufar skjólstæðings hans versnar eða breytist þannig að hann skilji ekki lengur þýðingu þess að hafa ráðsmann.
Ráðsmaður þarf að skila árlegri skýrslu til sýslumanns fyrir 1. mars, þar eiga að koma fram helstu ákvarðanir um eignir skjólstæðings sem teknar voru á liðnu ári.
Fari ráðsmaður fram á þóknun greiðir skjólstæðingur hana, en sýslumaður ákveður fjárhæð þóknunar með tilliti til eðlis og umfangs starfsins.
Þjónustuaðili
Sýslumenn