Til að fá ótímabundið dvalarleyfi þarf umsækjandi að uppfylla eftirtalin skilyrði.
Umsækjandi þarf að vera með dvalarleyfi í gildi, sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar umsókn um ótímabundið dvalarleyfi er lögð fram. Umsækjandi þarf jafnframt að uppfylla áfram skilyrði þess dvalarleyfis.
Eftirtalin dvalarleyfi geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis
Dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar
Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar
Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki
Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk
Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða
Dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið
Dvalarleyfi fyrir trúboða
Dvalarleyfi fyrir námsmenn, með takmörkunum
Undanþágur gilda í eftirfarandi tilvikum
Fyrrum íslenskur ríkisborgari
Erlendur ríkisborgari, sem var íslenskur ríkisborgari við fæðingu en hefur misst ríkisborgararéttinn eða afsalað sér honum, getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi án þess að hafa búið áður á Íslandi, ef hann hyggst setjast hér að.
Barn handhafa ótímabundis dvalarleyfis
Heimilt er að veita barni, sem fæðist eftir að forsjárforeldri kemur til landsins, ótímabundið dvalarleyfi enda hafi foreldrið ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
Almenna reglan er sú að til að eiga rétt á ótímabundnu dvalarleyfi þarf útlendingur að hafa dvalið á Íslandi á dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í fjögur ár samfellt.
Í eftirtöldum tilvikum eiga undanþágur við
Maki íslensks ríkisborgara
Maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi þegar hann hefur búið með íslenskum maka sínum hér á landi og haft dvalarleyfi samfellt í minnst þrjú ár eftir stofnun hjúskapar eða skráningu sambúðar. Dvalarleyfi umsækjandans þarf ekki að hafa verið gefið út á grundvelli hjúskapar eða sambúðar.
Barn íslensks ríkisborgara
Erlendur ríkisborgari sem á íslenskan ríkisborgara að foreldri getur sótt um ótímabundið dvalarleyfi þegar hann hefur haft dvalarleyfi hér á landi samfellt síðastliðin tvö ár fyrir framlagningu umsóknar. Foreldrið þarf að hafa haft íslenskan ríkisborgararétt í minnst fimm ár. Það skiptir ekki máli hvort dvalarleyfi umsækjandans geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða ekki.
Erlendur ríkisborgari með íslenskt doktorspróf
Erlendur ríkisborgari sem hefur lokið doktorsnámi á Íslandi og hefur haft dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar í minnst þrjú ár fyrir framlagningu umsóknar.
Fyrrum námsmaður á Íslandi
Erlendur ríkisborgari sem hefur haft dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í að minnsta kosti tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms, þannig að heildardvöl sé að minnsta kosti fjögur ár.
Með samfelldri dvöl er átt við
Að umsækjandi sé með dvalarleyfi í gildi þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.
Að umsækjandi hafi á undanförnum árum gætt þess að sækja um endurnýjun dvalarleyfis áður en fyrra dvalarleyfi rann út.
Að umsækjandi hafi ekki dvalið erlendis lengur en 90 daga samanlagt á hverju ári sem hann hafði dvalarleyfi á Íslandi.
Í eftirtöldum tilvikum eiga undanþágur við
Ungmenni 18 ára og eldri
Ungmenni sem hefur náð 18 ára aldri og dvalið hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar í fjögur ár eða lengur og hefur stundað nám eða störf hér á landi. Dvölin hér á landi þarf ekki að hafa verið samfelld.
Umsækjandi þarf að hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðshaldara sem mennta- og barnamálaráðherra viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir. Tímasókn þarf að lágmarki að vera 85%.
Umsækjandi getur einnig tekið stöðupróf í íslensku og þarf þá að leggja fram vottorð til staðfestingar á því að hann hafi staðist próf í íslensku fyrir útlendinga. Vottorðið skal gefið út af þeim sem Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur falið að halda próf í íslensku fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um ótímabundið dvalarleyfi.
Í eftirtöldum tilvikum eiga undanþágur við
Heimilt er að víkja frá skilyrði um þátttöku í námskeiði í íslensku fyrir útlendinga af eftirtöldum ástæðum
Umsækjandi er eldri en 65 ára og hefur búið hér á landi í að minnsta kosti sjö ár.
Umsækjandi getur ekki af líkamlegum eða andlegum ástæðum tekið þátt í íslenskunámskeiði og það er staðfest af þar til bærum sérfræðingi.
Umsækjandi getur lagt fram gögn sem staðfesta að hann hafi lokið námi á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi á íslensku sem gefur tilefni til að ætla að viðkomandi hafi öðlast fullnægjandi færni í íslensku.
Umsækjandi verður að sýna fram á:
Að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartímanum. Það þýðir að hann hafi haft nægt fjárráð til að geta séð fyrir sér sjálfur hér á landi.
Að hann hafi getað séð fyrir sér sjálfur hér á landi á löglegan hátt.
Að hann muni áfram geta séð fyrir sér sjálfur hér á landi á löglegan hátt.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð framfærslu
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð umsækjenda séu að lágmarki:
217.799 kr. fyrir einstaklinga.
348.476 kr. fyrir hjón.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð.
Undanþágur frá skilyrði um trygga framfærslu
Hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því, til dæmis vegna fæðingarorlofs eða slyss, er heimilt að víkja frá skilyrði um trygga framfærslu.
Skilyrðið um trygga framfærslu á ekki við um umsækjendur með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þeir þurfa ekki að sýna fram á framfærslu og hefur félagsleg aðstoð engin áhrif á umsókn þeirra.
Undanþágur frá skilyrðinu um sjálfstæða framfærslu
Fyrir barn, yngra en 18 ára, sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsettur er hérlendis, þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.
Fyrir einstakling eldri en 18 ára,
sem hefur haft samfellt dvalarleyfi hér á landi frá því hann var barn,
stundar nám eða störf hér á landi,
býr hjá foreldri og
er hvorki í hjúskap né sambúð
er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 108.898 kr. á mánuði, til viðbótar við þá framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að sýna fram á fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.
Umsækjandi þarf að sýna fram á sjálfstæða framfærslu ef hann stundar vinnu og er ekki í námi. Umsækjanda sem er í námi er heimilt að vera á framfæri foreldris.
Maki Íslendings eða erlends ríkisborgara þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Vegna framfærsluskyldu á milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða.
Athugið að sambúð er ekki jafngild hjúskap að þessu leyti. Ekki er framfærsluskylda á milli sambúðarfólks og þarf umsækjandi því að sýna fram á sjálfstæða framfærslu sé hann í sambúð.
Foreldri 67 ára eða eldra sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi þarf ekki að sýna fram á fulla sjálfstæða framfærslu. Fyrir það er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 108.898 kr. á mánuði, til viðbótar við framfærslu annara fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Hvernig er sýnt fram á fullnægjandi framfærslu
Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi getað og muni geta séð fyrir sér sjálfur hér á landi. Heimilt er að styðjast við fleiri en einn þátt, til dæmis bæði launatekjur og eigið fé.
Launatekjur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Umsækjandi sýnir fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum. Umsækjandi getur einnig lagt fram frumrit ráðningarsamnings.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram fyrrgreind gögn þess einstaklings.
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða
Útprentun úr heimabanka er fullnægjandi, annars þarf staðfestingu vinnuveitanda. Staðgreiðsla verður að hafa verið greidd af launum. Útlendingastofnun kannar í staðgreiðsluskrá hvort staðgreiðsla hafi verið greidd.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram launaseðla þess einstaklings.
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Slíkar greiðslur geta meðal annars verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær, til dæmis vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.
Eigið fé
Bankayfirlit sem sýnir fjárhæð inneignar á bankareikningi umsækjanda, hérlendis eða erlendis. Fjárhæðin þarfa að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu.
Yfirlitið þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting.
Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands.
Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram bankayfirlit þess einstaklings.
Eftirfarandi telst ekki fullnægjandi framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags eru ekki trygg framfærsla.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun, er ekki trygg framfærsla.
Eignir aðrar en bankainnistæður teljast ekki trygg framfærsla (til dæmis fasteignir).
Arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar teljast ekki trygg framfærsla.
Ótímabundin dvalarleyfi eru ekki veitt, ef til meðferðar eru mál sem valdið geta því að umsækjanda verði vísað úr landi eða ef umsækjandi á ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
Útlendingastofnun aflar gagna frá embætti ríkissaksóknara og lögreglu til staðfestingar á því að þetta skilyrði sé uppfyllt.
Ótímabundið dvalarleyfi
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun