Ótímabundið dvalarleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar á Íslandi.
Dvalarleyfiskort
Handhafar ótímabundinna dvalarleyfa fá útgefið dvalarleyfiskort sem gildir í fimm ár. Ekki þarf að sækja aftur um ótímabundið dvalarleyfi þegar kortið rennur út heldur aðeins að panta tíma í myndatöku og greiða 8.000 kr. fyrir nýtt kort þegar þú mætir.
Réttur til fjölskyldusameiningar
Ótímabundið dvalarleyfi veitir rétt til fjölskyldusameiningar fyrir
maka eða sambúðarmaka, ef sambúð hefur varað lengur en eitt ár,
börn umsækjanda yngri en 18 ára, ef umsækjandi hefur forsjá þeirra,
Réttur til að vinna
Handhafar ótímabundinna dvalarleyfa mega vinna á Íslandi án atvinnuleyfis. Þeim er heimilt að starfa hjá hvaða atvinnurekanda sem er eða starfa sjálfstætt kjósi þeir það.
Réttur til dvalar erlendis
Handhafar ótímabundinna dvalarleyfa mega dvelja erlendis í allt að 18 mánuði á fjögurra ára tímabili án þess að leyfið falli niður. Athugið að dvöl erlendis getur haft áhrif á umsókn um íslenskan ríkisborgararétt.
Dvöl erlendis lengur en 18 mánuði
Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort fella skuli niður ótímabundið dvalarleyfi þegar leyfishafi hefur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði á fjögurra ára tímabili.
Umsækjandi þarf að leggja fram skriflega beiðni um heimild til lengri dvalar erlendis en 18 mánuði á fjögurra ára tímabili. Beiðnin þarf að berast Útlendingastofnun áður en dvöl erlendis nær 18 mánuðum. Beiðninni skulu fylgja gögn sem staðfesta nauðsyn dvalar erlendis, til dæmis læknisvottorð eða önnur gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um.
Að fenginni umsókn má Útlendingastofnun heimila útlendingi lengri dvöl erlendis án þess að ótímabundið dvalarleyfi falli úr gildi ef leyfishafi þarf að:
gangast undir herskyldu eða aðra skylda þjónustu í heimalandi sínu,
dveljast tímabundið erlendis vegna vinnu eða menntunar sinnar eða maka,
dveljast erlendis ásamt maka, sambúðarmaka, móður eða föður sem gegnir launuðu starfi á vegum íslenska ríkisins eða sem er starfsmaður alþjóðlegrar stofnunar,
dveljast erlendis vegna tímabundinna veikinda sinna eða náins aðstandanda.
Ótímabundið dvalarleyfi útlendings fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili hans hefur verið skráð erlendis samfellt í 18 mánuði.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun