Fara beint í efnið

Þjónusta Ísland.is

Innskráningarþjónusta Ísland.is býður örugga innskráningu á stafrænar sjálfsafgreiðslulausnir opinberra aðila, félagasamtaka og fyrirtækja.

Ísland.is hefur boðið upp á innskráningarþjónustuna í mörg ár og hafa hundruð aðila sem bjóða sjálfsafgreiðslulausnir nýtt hana sem örugga leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki inn á aðgangsstýrð vefsvæði. Daglega nota því þúsundir einstaklinga og fyrirtækja innskráningarþjónustuna til að fá aðgang að stafrænni þjónustu stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fyrirtækja. Í takt við síbreytilegt tækniumhverfi stafrænnar þjónustu hefur Stafrænt Ísland þróað nýja útgáfu af innskráningarþjónustunni. Nýja leiðin byggir á nýjustu tækni og verður þróuð áfram í samræmi við tæknilegar framfarir á þessu sviði. Eldri leið verður áfram örugg og henni verður haldið við en ekki verður boðið upp á nýja möguleika á auðkenningu eða aðra framþróun í virkni.

Af hverju? 

Með því að nota innskráningarþjónustu Ísland.is njóta aðilar sem veita stafræna þjónustu þess hagræðis sem felst í því að bjóða lausn byggða á vandaðri tæknilegri útfærslu og öruggum, traustum rekstri án þess að þróa og reka eigin lausn til þess að auðkenna notendur inn á vefsvæði.

Fyrir hvern? 

Eldri innskráning er fyrir alla sem bjóða stafræna þjónustu á lokuðum vefsvæðum sem krefjast rafrænnar auðkenningar til að fá aðgang að persónugreinanlegum gögnum. Þjónustan er opinberum aðilum að kostnaðarlausu. Fyrir aðra aðila gildir verðskrá sem miðar við endurgjaldslausa notkun upp að 500 innskráningum á mánuði. Ísland.is er heimilt að innheimta gjald fyrir notkun umfram það. 

Ný innskráning býðst opinberum aðilum. Hún er í þróun og prófunum, og byggir á nýjustu auðkenningar- og aðgangsstýringartækni. Lausnin verður stöðugri í rekstri, með meira álagsþoli, betri uppitíma og auknum möguleikum til aðgangsstýringar að nútímavefjum, öppum og vefþjónustum.

Hvað þurfa opinberir aðilar, félagasamtök og fyrirtæki að gera til að nota innskráningarþjónustuna? 

 • Senda umsókn til Stafræns Íslands.

 • Undirbúa tengingu á milli innskráningarþjónustunnar og þess vefsvæðis sem hún á að stýra aðgangi að.

 • Greiða kostnað samkvæmt gjaldskrá.

Hver er munurinn á þessum tveimur innskráningarþjónustum?

 • Innskráningarþjónusta – núverandi er upprunaleg þjónusta Ísland.is sem er og hefur verið notuð af fjölmörgum þjónustuaðilum til að auðkenna notendur inn á einstaklingsmiðuð svæði og/eða sjálfsafgreiðslulausnir. Lausnin býður upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum og/eða Íslykli. Ísland.is býður ekki lengur upp á að innleiða þessa lausn og ekki verður unnið að frekari framþróun lausnarinnar. Hins vegar verður núverandi virkni haldið við.

 • Innskráningarþjónusta – BETA byggir á nýjustu auðkenningar- og aðgangsstýringartækni sem styður við og veitir aukna möguleika í aðgangsstýringu að nútíma vefjum, öppum og vefþjónustum. Lausnin er með nýrri tæknilegri högun sem verður haldið við og ný virkni þróuð til framtíðar svo sem nýjar auðkenningarleiðir eftir því sem tæknin í þeim efnum þróast.

Óski stofnun eftir því að taka þátt í þróunarsamstarfi á nýrri innskráningarþjónustu þarf að fylla út umsókn um samstarf við Stafrænt Ísland.

Innskráningarleiðir

Það hvernig notendur auðkenna sig með innskráningarþjónustu Ísland.is er mismunandi eftir því hvora innskráningarþjónustuna um ræðir.

Innskráningarþjónusta BETA

Innskráningarþjónusta

 • Rafræn skilríki í síma 

 • Rafræn skilríki á korti

 • Íslykill 

 • Styrktur Íslykill (Íslykill og SMS í farsíma) 

Öryggi innskráningarþjónustu Ísland.is

Öryggi beggja innskráningarþjónusta er tryggt með ýmsum hætti:

 • Innskráning er alltaf á öruggu svæði.

 • Samskipti vegna innskráningar fara aldrei fram á vef þjónustuveitanda.

 • Á mínum síðum á Ísland.is getur fólk skoðað sögu innskráninga sinna og þannig áttað sig á því ef óviðkomandi hefur komist yfir Íslykil eða rafræn skilríki þess.

 • Öll samskipti eru yfir dulritað burðarlag (SSL).

 • Allar persónuupplýsingar varðandi Íslykil eru dulritaðar. Ekki er hægt að birta Íslykilinn í neinum hluta kerfisins, aðeins tætigildi hans er geymt.

Umsókn um innskráningarþjónustu Ísland.is

Senda þarf umsókn um innskráningarþjónustu til Stafræns Íslands. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi umboð lögaðila.

Umboð

Mikilvægt er að afhenda ekki öðrum rafræn auðkenni sín. Komi upp þörf til að láta aðra annast stafræn erindi og skrá sig inn fyrir sína hönd er hægt að gefa viðkomandi sérstakt rafrænt umboð til að annast ákveðin málefni.

Hverjir veita umboð?

 • Einstaklingur veitir öðrum einstaklingi/fyrirtæki umboð

 • Fyrirtæki veitir starfsmanni umboð

Umsókn um innskráningarþjónustu

Þjónustuaðili

Staf­rænt Ísland