Fara beint í efnið

Auðkenni annast alla þjónustu sem tengist rafrænum skilríkjum.
Netfang: audkenni@audkenni.is,
Sími 530 0000 - Netspjall

  • Rafræn skilríki í farsíma virka í nær öllum tegundum síma, hvort sem það er nýr snjallsími eða eldri farsími.

  • Skilríkin eru vistuð á SIM-kort símans þíns. Til þess að nota þau þarf einungis farsíma, engin önnur tæki. Þá velur þú PIN númer sem þú stimplar inn í símann í hvert sinn sem þú notar rafrænu skilríkin þín.  

  • Þegar sótt er um rafræn skilríki með SIM-korti eru bæði kennitala og það nafn sem er á þeim tíma skráð í Þjóðskrá er vistað í rafrænu skilríkin.

  • Ef nafni er breytt í Þjóðskrá eftir það breytist það ekki í rafrænu skilríkjunum. Notendur sem breyta nafni sínu í Þjóðskrá eiga að afturkalla skilríkin og fá ný.

Hvernig fæ ég skilríki í farsíma?

Fyrsta skrefið er að tryggja að þú hafir SIM-kort sem styður rafræn skilríki. Ef þú ert ekki viss geturðu kannað það á vef Auðkennis.

Ef SIM-kortið styður ekki rafræn skilríki skaltu fara í næstu verslun þíns símafyrirtækis eða til endursöluaðila og fá kortinu skipt. Þú getur líka kannað hvort hægt sé að fá kortið sent heim. 

Hvernig virkja ég skilríkin?

Áður en rafræn skilríki eru notuð þarf að virkja þau, en það er hægt að gera á afgreiðslustöðum skilríkjanna.

Þú hefur meðferðis gilt skilríki (vegabréf, ökuskírteini eða íslenskt nafnskírteini útgefið af Þjóðskrá Íslands) og skrifar undir samning í tengslum við ný skilríki. Þú velur jafnframt eitt 4-8 stafa PIN númer til að nota á skilríkinu. Gott er að vera búin/n að ákveða númerið þegar þú mætir á afgreiðslustað.

Hvernig nota ég rafræn skilríki í farsíma?

  1. Þú ferð inná vefsvæði hjá þeim þjónustuaðila sem þú ætlar að nýta rafrænu skilríkin.

  2. Velur að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum og slærð inn farsímanúmerið þitt.

  3. Gott er að hafa símann aflæstann áður en ýtt er á áfram. Þá birtist sjálfkrafa skjámynd á farsímanum þínum þar sem þarf að staðfesta beiðnina. Ef beiðnin er staðfest kemur upp gluggi þar sem þú slærð inn það PIN-númer sem þú valdir þér þegar rafrænu skilríkin voru framleidd og þú ert komin/n inn.

Mikilvægt er að passa uppá farsímann og PIN númer rafrænu skilríkjanna.
Aldrei slá inn PIN númer skilríkjanna ef þú kannast ekki við að vera að beita þeim.

Hversu lengi endast rafrænu skilríkin í farsímanum?


Skilríkin eru með 5 ára gildistíma. Áður en skilríkin renna út er send tilkynning í tölvupósti og SMS á viðkomandi og látið vita að skilríkin séu að renna út. Hægt er að að endurnýja skírteini á öllum skráningarstöðvum.

Upplýsingar um rafræn skilríki í farsíma hjá símafélögum:

Þjónustuaðili

Auðkenni