Skoðunarhandbók ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.
Samantektir og tilkynningar
Sérstakar tímabundnar tilkynningar, svokallaðar öryggistilkynningar, ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra.
Reglur um skráningu og breytingu ökutækisflokka, notkunarflokka og veigamikilla breytinga á ökutækjum má sjá í skráningareglum ökutækja.
Tilvísanir til þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi.
Leiðbeiningaskjöl og ítarefni fyrir reglubundnar skoðanir er að finna undir þeirri verklagbók.
Efni kaflans
Gildistaka
Verklagið var birt hér 1. júní 2024. Um er að ræða aukinn og endurbættan texta frá því sem finnst í verklagsbók reglubundinna skoðana (undir kafla 0 um almenn atriði). Unnið skal eftir verklaginu sem hér er lýst frá og með 1. janúar 2025 (frestað frá 1. nóvember 2024) og verður þá elda verklag fjarlægt.
Ástæða og áhrif tæringar
Ryð og tæring
Ryð er heiti yfir efnasamsetningu járns (Fe) og súrefnis (O) og verður til þegar jónir þessara efna tengjast saman. Ryð er stökkt efni sem molnar við hnjask. Það getur verið gult, rauðleitt, brúnleitt eða dökkt á lit. Í umfjöllun hér á eftir er orðið tæring notað jöfnum höndum yfir sama fyrirbæri.
Hlutir úr járni eyðast smám saman vegna ryðs og eru því oft ryðvarðir eða húðaðir með einhverjum efnum til að hindra að súrefni komist að málminum. Ryðmyndun verður þegar óvarið járn kemst í snertingu við súrefni því þá streyma rafeindir frá járninu þannig að járnfrumeindirnar verða plúshlaðnar (Fe 2+ eða Fe 3+) en frumeindir súrefnisins (O2-) verða mínushlaðnar.
Áhrif tæringar
Þegar málmur hefur orðið fyrir tæringu þá missir hann styrk sinn og er þá talað um styrkleikamissi. Áhrif tæringar á öryggi ökutækisins fer eftir umfangi hennar og staðsetningum. Lítið ryð á mikilvægum hluta burðarvirkis ökutækis getur gert ökutækið óöruggt þar sem það hefur áhrif á samfellu burðarvirkisins, þ.e. styrkleiki þess sem heildar skerðist. Á hinn bóginn getur mikið ryð á óverulegum hlutum ekki haft nein eða óveruleg áhrif á öryggi ökutækisins.
Tæring verður að annmarka
Tæring flokkast sem annmarki ef umfang hennar eða staðsetning gerir það að verkum að:
ökutækið getur ekki staðist það álag sem það verður fyrir við hefðbundna notkun og lestun þess,
styrkur ökutækisins hefur minnkað þannig að það veitir ekki tilætlaða vernd við árekstur, og/eða
ökutækið er hættulegt fyrir bílstjóra, farþega eða aðra vegfarendur.
Meta skal tæringu á svæði, ásamt viðgerð, með tilliti til staðsetningar og hlutverks svæðisins/hlutarins í tengslum öryggi ökutækisins. Ef ryð eða tæring hefur einungis áhrif á útlit ökutækisins, telst það ekki sem annmarki hvað varðar styrk (en hafa verður í huga að myndi það t.d. skarpar brúnir gæti það flokkast sem hættulegur útstæður hlutur). Þessu er lýst nánar í næstu köflum.
Aðferðir við skoðun og dæmingar
Sjá neðar nánari útskýringar á því hvernig tæring stigmagnast, hvernig álagsberandi íhlutir ökutækis og festingar eru skilgreind og hvað eru þekjandi hlutir.
Verkfæri og efni
Verkfæri og efni sem nota ætti við skoðanir á ryði og styrkleikamissi og skemmdum:
Ryðhamar: Er almennt með tveimur hausum, öðrum kúptum og hinum oddmjóum.
Skafa: Flöt málningarskafa til að hreinsa ryðvörn og þessháttar.
Vírbursti: Hentugur til að skafa burt óhreinindi og viðlíka.
Málband: Til að meta stærð ryðflata o.fl.
Ryðvarnarefni: Í sprautubrúsa til að ryðverja að nýju svæði sem skoðuð hafa verið.
Aðferðir við skoðun
Aðferðum og verkfærum er beitt á þennan hátt:
Hvenær á að skoða: Um leið og grunur vaknar. Þetta þýðir að séu einhverjar vísbendingar um ryð eða styrkleikamissi þá er farið skima eftir því. Það þarf því ekki að vera komið gat á viðkomandi hlut, vísbendingar gætu verið ryð annars staðar, t.d. í yfirbyggingu eða hurðum, aldur ökutækisins gæti gefið vísbendingu, óhófleg (nýleg) ryðvörn, og fleira.
Staða ökutækisins við skoðun: Á gólfi og lyftu í miðstöðu. Styrkleikamissir að innanverðu (fólksrými, farmrými, vélarhús) eru skoðuð á gólfi, en að utanverðu (hjólskálar, sílsar, grind og undirvagn) á lyftu í miðstöðu (ef til staðar) annars á gólfi og úr gryfju.
Sjónskoðun: Þar sem mikil tæring er vel sýnileg er sjónræn skoðun venjulega fullnægjandi, sést í göt.
Skoðun með átaki: Á undirvagnssvæðum sem eru viðkvæm fyrir tæringu, svo sem festingarpunktum stýris og fjöðrunar og helstu burðarhlutum (s.s. grindarbitum, berandi hlutum sjálfberandi yfirbygginga) er hægt að athuga hvort tæring sé til staðar með því að þrýsta þumli á svæðið (eða með því að banka með ryðhamri eða öðrum viðeigandi verkfærum). Þrýst er á berandi hluta með fingri og athugað hvort hann lætur undan þrýstingi eða jafnvel molnar og gat myndast.
Skoðun með ryðhamri: Með því að banka með ryðhamri. Tveir endar eru á hamrinum, kúptur og oddmjór. Sá kúpti er fyrir efnisþynnri málmfleti þar sem dæma má eftir hljóðinu (heill málmur gefur frá sér óm sem er svipaður allsstaðar á fletinum en skemmdir hlutir gefa frá sér dempað hljóð eða holhljóð). Sá oddmjói er fyrir efnisþykkari hluti og á staði sem erfitt er að komast að (athugað er hvort hægt sé að banka í gegnum hlutinn eða vart verði alvarlegra misfellna). Banka má harðar í efnismeiri málmhluta en þá sem eru efnisminni og forðast þarf að beita óþarfa krafti sem gætu valdið skemmdum. Þegar þessi aðferð er notuð skal gæta þess að forðast skemmdir á hlífum, ryðvörn eða málningarvinnu.
Skoðun með ryðbursta: Beita má vírbursta eða sköfu til að fjarlægja ryðflögur, óhreinindi og viðlíka. Eðlilegt telst að ryðverja á ný þau svæði sem svona hafa verið hreinsuð ef þau eru vanalega ryðvarin (með ryðvarnarefni úr sprautubrúsa).
Skoðun með sköfu: Heimilt er að skafa ryðvarnarhúð og lyfta gólfmottum sé það gerlegt og nauðsynlegt. Sköfu ber að nota með varúð og að lokinni skoðun er æskilegt að ryðvarnarhúð sé endurnýjuð (með sprautubrúsa).
Mikil sýnileg pyttatæring: Þá ætti að huga sérstaklega að saumsuðu og punktsuðu. Hún ryðgar oft innan frá og getur leitt til þess að samsetningar losna að lokum í sundur. Þegar í ljós kemur að slíkar samsetningar eru orðnar óöruggar vegna tæringar verður að gera við þær.
Styrkleikamissir finnst
Þegar eftirfarandi styrkleikamissir (skemmd) sést eða finnst er mögulega tilefni til dæmingar, það fer eftir umfanginu (sjá neðar):
gegnumtæring sést
svæði lætur undan þrýstingi þegar þrýst er á með fingri (eða molnar og myndast gat)
svæði gefur eftir þegar bankað er á (eða molnar eða sundrast)
svæði eða hluti er aflagaður af völdum styrkleikamissis (mikil pyttatæring sést sem þynnt hefur efnið eða rökstuddur grunur um tæringu efnis innanfrá)
sprunga sést í íhlut eða á festingarsvæði, eða ófullnægjandi viðgerð hefur farið fram
Umfang mælt og metið
Umfang skemmdar (styrkleikamissis) er metinn þannig (frá 1. janúar 2025):
Á festingarsvæði: Umfang skemmdar er metið sem hlutfall (%) af festingarsvæðinu (eins og stærð þess er skilgreind hverju sinni).
Í lengd burðarhluta: Lengd skemmdar í cm samsvarar styrkleikamissis í % (10 cm skemmd samsvarar þannig 10% styrkleikamissi). Lagðar eru saman allar skemmdir á burðarhlutanum.
Í þversniði burðarhluta: Þversnið skemmdar er borið saman við þversnið þess hlutar sem skoðaður er. Hlutfall (%) skemmdar segir til um styrkleikamissi hlutarins.
Á þekjandi hluta: Flatarmál skemmdar er metið sem hlutfall (%) af flatarmáli þekjandi hlutarins (sem rammaður er inn af burðarhlutum).
Dæmingar miðað við staðsetningu og umfang
Að teknu tilliti til staðsetningar og hlutverks svæðisins/hlutarins sem hefur ofangreindan styrkleikamissi (eða skemmdir), og í tengslum öryggi ökutækisins, þá gilda eftirfarandi reglur um dæmingar (frá 1. janúar 2025):
Í álagsberandi íhlutum og á festingarsvæðum þeirra í burðarhlutum (innan við 30 cm fjarlægð frá festingu) er dæming 2 ef styrkleikamissir er yfir 0% (strax orðin dæming ef styrkleikamissis verður vart).
Í burðarhlutum er dæming 2 ef styrkleikamissir er yfir 20%. Hér er átt við þá hluta sem eru ekki festingarsvæði álagsberandi íhluta (þau falla undir fyrri punkt).
Í festingarsvæðum þekjandi hluta (innan við 10 cm fjarlægð frá festingum sem hafa hlutverk) er dæming 2 ef styrkleikamissir er yfir 30%.
Í þekjandi hlutum er dæming 2 ef skemmd er yfir 40%.
Í öllum tilvikum getur dæming orðið 3 ef hætta er á ferðum vegna styrkleikamissis (hefur alvarleg áhrif á styrk). Viðeigandi forsendur dæminga er annars að finna í sérhverju skoðunaratriði.

Þrjú stig tæringar
Umfang tæringar getur verið allt frá léttri yfirborðstæringu yfir í pyttatæringu og loks gegnumtæring eða heildar niðurbrot málmsins. Almennt á sér stað tæringarmyndun og afleiddur styrkleikamissir á svæðum sem halda raka, vegna uppsöfnunar á óhreinindum á vegum og leðju. Áhrif tæringar á öryggi ökutækisins fer eftir umfangi hennar og staðsetningu og er meiri á berandi hluta en þá hluta sem eru ekki berandi (sjá kafla um þá neðar).
Yfirborðstæring (stig 1)
Létt duftkennd tæring á yfirborði málmhluta er kölluð yfirborðstæring. Yfirborðstæring getur átt sér stað á eða á bak við hvaða íhlut sem er, sérstaklega ef hlífðarhúðin er rispuð eða skemmd (s.s. málning eða ryðvörn). Á myndinni sést að eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) kemur í ljós að yfirborð málmsins er slétt og hreint.

Pyttatæring (stig 2)
Ef yfirborðstæring er látin vera eftirlitslaus getur hún þróast yfir í pyttatæringu, annað hvort á berum málmi eða undir málningu (pyttir eða holur í málminn sem ná ekki í gegn). Þetta á sér stað vegna þess að tæringarmyndunin felur í sér aukningu á rúmmáli sem veldur tæringargötum. Í pyttatæringu fer ryðið að grafa sig ofan í málminn. Á myndinni sést að eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) koma í ljós pyttir/holur í málminum sem ná þó ekki í gegn.

Gegnumtæring (stig 3)
Lokastig tæringarferlisins orsakast af miklu hlutfalli oxaðs málms í upprunalega málminum. Þetta leiðir til eins eða fleiri tæringargata eða hreinlega að hluti málmsins er horfinn. Viðgerð felst ætíð því að tærði hluturinn (eða sá hluti hans sem hefur misst styrk) er endurnýjaður eða hann styrktur á varanlegan hátt. Á myndinni sést að eftir að ryðhúð hefur verið fjarlægð (með sköfu eða vírbursta) kemur í ljós að yfirborð málmsins er mjög hrjúft og götótt.

Álagsberandi íhlutir ökutækis og festingar
Tilteknir íhlutir ökutækis eru sérstaklega mikilvægir er kemur að öryggi ökutækisins og sérstaklega þarf að skoða með styrkleikamissi í huga. Þetta eru álagsberandi íhlutir ökutækisins sem eru athugaðir og jafnvel prófaðir við skoðun og tilheyra eftirfarandi köflum í skoðunaratriðahluta handbókarinnar:
Kafla 1 um hemlabúnað (höfuðdæla, þrýstiloftsgeymar, hemlarör og vélrænir íhlutir hemla)
Kafla 2 um stýrisbúnað (stýrisvél, stýrisliðir og aflstýribúnaður)
Kafla 5 um ása, hjól og fjöðrun (ásar, felgur, höggdeyfar, höggdeyfafestingar, hjólspyrnur, armar og stífur)
Kafla 7 um öryggisbúnað (öryggisbeltafestingar)
Hið sama á við um
festingarsvæði þessara íhluta við ökutækið (burðarhluta) sem skilgreint er að nái 30 cm út fyrir festingarstað þeirra.
Sem dæmi má taka öryggisbelti sem fest er niður í innri síls, þá þarf að skoða ytri sílsann, dyrastafinn, gólfflötinn og alla þá burðarhluta sem eru innan 30 cm fjarlægðar frá festingunni.
Burðarhlutar ökutækis
Burðarhlutar ökutækis er hvers kyns burðarvirki eða hluti þess, sem ef það gæfi sig, myndi valda því að aksturshæfni ökutækisins yrði verulega ógnað eða myndi draga verulega úr öryggi farþega við árekstur. Burðarhlutar eru því ekki allt burðarvirki ökutækisins heldur skilgreindir hlutar þess. Þeir tilheyra eftirfarandi köflum í skoðunaratriðahluta handbókarinnar:
Kafla 6 um undirvagn, grind, yfirbyggingu, innrými og áfastan búnað
Kafla 9 um viðbótarkröfur til hópbifreiða o.fl. (gangar hópbifreiða, svæði fyrir standandi farþega, tröppur og þrep hópbifreiða)
Á eftirfarandi myndum eru tilgreindir þeir hlutar burðarvirkis algengustu útfærslu bifreiða sem falla undir það að vera burðarhlutar ökutækis. Um aðrar útfærslur ökutækja gildir það sama og ber að byggja mat á því hvað telst til burðarhluta á þessum upplýsingum.

Bifreið með sjálfberandi yfirbyggingu, í hana festast aðrir hlutar eins og hjólabúnaður, stýrisbúnaður og hreyfill. Á myndinni eru burðarhlutar grálitaðir (atriðin talin upp af myndinni rangsælis, byrjað efst):
Efri hluti A-styrktarbita (rúðu- og þakrammi) (upper 'A' post reinforcement).
Gormaturnar (festingar fyrir fjaðrabúnað) (strut tower)
Styrktarbitar framhliða (front wing support)
Undirgrind (hjólabiti, formaðir bitar) (subframe)
Framendabitar (formaðir bitar) (front chassis legs)
Neðri hluti A-styrktarbita (lower 'A' post reinforcement)
Gólfbitar (fyrir sætisfestingar) (seat cross reinforcement)
Sílsar (sá hluti sem gegnir hlutverki styrktarbita) (sill reinforcement)
B-styrktarbitar ('B' post reinforcement)
Afturendabitar (hjólabiti, formaðir bitar) (rear chassis legs)

Bifreið með sjálfberandi yfirbyggingu (séð neðanfrá). Á myndinni eru burðarhlutar grálitaðir (atriðin talin upp af myndinni rangsælis, byrjað vinstra megin efst), sumir endurteknir frá myndinni að ofan:
Gormaturnar (festingar fyrir fjaðrabúnað) (strut tower)
Framgrindarbitar (formaðir langbitar) (front chassis members)
Sílsar (innri hluti) (inner sill)
Afturendabitar (formaðir bitar) (rear chassis legs)
Festingar fyrir fjaðrabúnað (rear suspension mounts)
B-styrktarbitar ('B' post reinforcement)
Neðri hluti A-styrktarbita (lower 'A' post reinforcement)
Styrktarbitar framhliða (front wing support)
Á ökutæki með sjálfberandi yfirbyggingu eru ofangreindar burðareiningar samofnar öðrum flötum yfirbyggingarinnar (til dæmis gólffleti og þakfleti) sem teljast ekki til burðarhluta. Þessir fletir eru óaðskiljanlegur hluti yfirbyggingarinnar og má ekki fjarlægja eða breyta þeim (eða skipta út fyrir burðarminni einingar). Sé svo gert telst það annmarki og dæmt eins og annmarki á burðarhluta.

Grind í bifreið sem aðrir hlutar bifreiðarinnar festast á, svo sem fólksrými hennar, fjaðrabúnaður og hreyfill. Á myndinni eru burðarhlutar grálitaðir (atriðin talin upp af myndinni rangsælis, byrjað vinstra megin):
Festingar fyrir fjaðrabúnað (front suspension mounts)
Ekki burðarhluti (til skýringar): Þverbiti undir gírkassa (gearbox cross member)
Festingar fyrir fjaðrabúnað (rear suspension mounts)
Langbitar grindarinnar (longitudinal chassis member)
Ekki burðarhluti (til skýringar): Hliðarbiti (side sill)
Ekki burðarhluti (til skýringar): Festing hliðarbita (outrigger)
Festingar fyrir stýrisbúnað (steering box mount)

Á þessari mynd er samskonar grind nema á blaðfjöðrum (eða sambærilegum) og festingar fyrir fjaðrabúnað öðruvísi útfærð.
Athygli er vakin á því að grindarbitum (og sílsum) er stundum lokað með burðarlausum hlífum. Tilgangur þeirra er oftast vegna útlits eða til að draga úr líkum á að raki eða leðja setjist að í þeim. Þessar hlífar geta tærst að hluta eða öllu leyti. Ekki eru gerðar athugasemdir við það en um leið er tilefni til að skoða vandlega hvort styrkleikamissis er farið að gæta í viðkomandi bitum.
Þekjandi hlutar ökutækis
Hvers kyns burðarvirki, fletir eða íhlutir sem hafa ekki strax áhrif á stjórnhæfni ökutækis ef þeir gæfu sig teljast ekki til burðarhluta ökutækis og kallast þeir þekjandi hlutar. Þá er að finna í eftirfarandi köflum í skoðunaratriðahluta handbókarinnar:
Kafla 6 um undirvagn, grind, yfirbyggingu, innrými og áfastan búnað.
Venjulega myndi yfirborðstæring eða pyttatæring í þessum hlutum ökutækis ekki gera það óöruggt. Gegnumtæring í þessum íhlutum er þó venjulega annað hvort hættuleg fólki í eða nálægt ökutækinu vegna skarpra brúna þess eða vegna þess að útblástursgufur geta borist inn í ökutækið. Í slíkum tilvikum myndi þessi tegund af tæringu gera ökutækið óöruggt.

Á myndinni sjást þeir fletir bifreiðar með sjálfberandi yfirbyggingu sem falla undir þessa skilgreiningu. Um aðrar útfærslur ökutækja gildir það sama og ber að byggja mat á því hvað telst til þekjandi hluta á þessum upplýsingum:
Bretti og stuðarar (1)
Þakflötur (2)
Húdd, skottlok og hurðir (3)
Gólffletir (milli burðarbita)
Hjólskálar
Til burðarhluta teljast þó
festingasvæði sem skilgreind eru að nái 10 cm umhverfis festingar sem hafa eitthvert hlutverk. Þau dæmast þá sem slík. Þetta á til dæmis við svæði umhverfis lamir og læsingar sem er að finna á hurðum og lokum/hlífum.
Viðgerðir á styrkleikamissi
Viðgerð á berandi hlutum verða ætíð að felast í því að tærði hluturinn (eða sá hluti hans sem hefur misst styrk) er endurnýjaður eða hann styrktur á varanlegan hátt (með suðu eða sambærilegri aðferð) svo að fyrri styrk sé náð á ný. Miðað skal við að suður séu samfelldar svo eðlilegum styrk sé náð.
Einhverjir framleiðendur hafa mælt með og heimilað viðgerðaraðferðir sem felast í MIG-lóðun, hnoðun með viðbótarlímingu eða blöndu af þessu tvennu með notkun annarra samsetningaraðferða. Slíkar viðgerðir teljast ásættanlegar nema þær séu augljóslega ófullnægjandi.
Eftirfarandi viðgerðaraðferðir teljast ófullnægjandi:
lóðun (hvort sem er með gasi eða bara hita)
samlímning (ein og sér)
trefjaefni notuð í stað upprunlegs efnis
fylliefni (þau hafa engan styrk)
Kröfur til mælitækja
Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:
Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.) til að meta umfang ryðskemmda.
Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.





















