Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. júní 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024 (opnað fyrir aðgang 01.05.2024). Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Efni kaflans

    Yfirferð í skráningarskoðun

    Forskráning skráningarviðurkenndra ökutækja (þeirra sem eru ekki gerðarviðurkennd) byggir á gögnum m.a. frá framleiðanda og viðurkenndum tækniþjónustum og á að gefa raunsanna mynd af gerð og búnað þeirra. Skráningarviðurkennt ökutæki er auðkennt í ökutækjaskrá með textunum "Nýtt" eða "Notað" í reitnum "Innflutningsástand".

    Við skráningarskoðun (sem framkvæmd er á skoðunarstofu ökutækja) fer fram athugun á því hvort skráningarviðurkennt ökutæki sé í samræmi við tilteknar upplýsingar sem forskráðar hafa verið í ökutækjaskrá. Einnig til að skrá tilteknar viðbótarupplýsingar sem ekki hafa verið skráðar við forskráningu.

    Óheimilt er með öllu að gera breytingar á skráningarviðurkenndu ökutæki áður en það er nýskráð. Gildir það um öll skráningarviðurkennd ökutæki sem verið er að nýskrá, hvort sem þau eru viðurkennd sem ný eða notuð (sjá þó um ókláruð ökutæki). Þetta gildir um allar breytingar sem hafa áhrif á skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Uppgötvist við skoðun að ökutækinu hefur verið breytt skal hafna skoðun og nýskráningu (sjá um aðferðir við úrlausn neðar).

    Komi upp vafatilfelli í forskráningarferlinu þá er henni læst með nýskráningarlás og umráðanda á forskrá tilkynnt um það. Í þeim tilvikum verður skoðunarstofa að vera í sambandi við tæknideild Samgöngustofu þegar skoðunin fer fram til að heimilt verði að aflétta lásnum.

    Minnt er á að skráningarskoðun er síðasta skref á viðurkenningu ökutækis til skráningar og notkunar hérlendis. Afar áríðandi er því að vanda vel til verka.

    Atriði til yfirferðar

    Við skráningarskoðun skal yfirfara neðangreind atriði og bera tæknilega útfærslu ökutækisins saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá. Þegar skylda er að skrá gildi eða heimilt er að breyta þeim eða leiðrétta í skráningarskoðun, þá tilkynnir skoðunarmaður um rétt gildi á rafrænu eyðublaði um breytingu á ökutæki (US.111). Ef um frávik er að ræða, sem ekki er hægt að skrá eða leiðrétta með þeim aðferðum sem lýst er, skal hafna skoðun og skráningu.

    Verksmiðjunúmer

    Hefur undantekningarlaust verið skráð við forskráningu. Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn.

    • Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og skráð er á ökutækið.

    Ökutækisflokkur

    Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu. Breyta má milli yfirflokka ökutækisflokkanna miðað við gildandi reglur (þ.e. innan bifreiðar, innan bifhjóls, innan eftirvagns, innan dráttarvélar og innan torfærutækis).

    • Það telst frávik ef útfærsla ökutækis uppfyllir ekki skráðan ökutækisflokk og ljóst að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti eða með því að breyta í annan ökutækisflokk.

    Notkunarflokkur

    Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu. Ef útfærsla ökutækis uppfyllir kröfur annars flokks (hvort sem eigandi (umráðandi) óskar eftir breytingu í þann flokk eða ökutækið ætti að tilheyra öðrum flokki af tæknilegum ástæðum) skal notkunarflokki breytt.

    • Það telst frávik ef útfærsla ökutækis uppfyllir ekki neinn flokk (breytingar yfir í annan flokk eða útfærsla uppfyllir ekki kröfur).

    Litur ökutækis

    Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Bera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki. Ef lit vantar eða litur er rangur í ökutækjaskrá skal réttur litur tilkynntur. Við val á lit úr lista yfir mögulega liti er horft til þess að hann sé fyrst og fremst notaður til að geta auðkennt ökutækið við ýmis tækifæri, s.s. við eftirlýsingu eða í leigubílaöppum.

    Orkugjafi

    Hefur undantekningarlaust verið skráður við forskráningu.

    • Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og á við um ökutækið.

    Breidd og lengd

    Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Mæla skal lengd og breidd ökutækisins. Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik ef ökutæki er utan hámarksstærðarmarka (nema það verði skráð á undanþágumerki eða utanvegamerki).

    Eiginþyngd

    Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Vigtarseðli skal framvísað hafi hún ekki verið skráð. Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik ef gildi er autt (eða núll) og vigtarseðli er ekki framvísað (eða hann er ógildur).

    Leyfðar heildarþyngdir

    Hafa ekki alltaf verið skráðar inn við forskráningu. Þetta eru leyfð heildarþyngd, leyfðar ásþyngdir allra ása, leyfð þyngd vagnlestar bifreiðar (ef framleiðandi gefur hana upp) og dráttargeta bifreiðar fyrir hemlaðan og óhemlaðan eftirvagn (ef framleiðandi gefur þær upp). Lesa af upplýsingaspjaldi ökutækis. Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik ef leyfða heildarþyngd bifreiðar, eftirvagns eða dráttarvélar vantar og gildin eru ekki á upplýsingaplötu eða hún er ekki á ökutæki. Undanskilin eru bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki.

    • Það telst frávik ef leyfðar ásþyngdir bifreiðar, eftirvagns eða dráttarvélar vantar og gildin eru ekki á upplýsingaplötu eða hún er ekki á ökutæki. Undanskilin eru bifhjól, torfærutæki, utanvegaökutæki og fornökutæki.

    Stærð hjólbarða

    Hefur ekki alltaf verið skráð við forskráningu. Lesa skal stærðarmerkingar á hjólbörðum. Vanti stærð í ökutækjaskrá skal hún tilkynnt. Sé stærð hjólbarða innan við 10% stærri eða minni en skráð stærð má ekki tilkynna breytingu.

    • Það telst frávik sé raunstærð hjólbarða meira en 10% stærri eða minni en skráð stærð.

    • Það telst frávik ef rökstuddur grunur er um að raunstærð hjólbarða sé meiri en 10% stærri eða minni en framleiðandi ákvað (í þeim tilvikum þegar stærðarmerking hefur ekki verið skráð við forskráningu). Augljóst ætti að vera að ökutækinu hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda og upplýsingum um það ekki framvísað við forskráningu.

    Farþegafjöldi (sæti og stæði)

    Hefur ekki alltaf verið skráður við forskráningu. Telja þarf og yfirfara öll sæti (og stæði hópbifreiðar ef við á), hvort sem þau eru fyrir almenna farþega eða áhöfn, bæði þau sem eru föst og þau sem eru fyrir hjólastóla á hjólastólasvæði (eigi það við). Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik ef sæti eru til staðar sem uppfylla ekki skilyrði og ljóst að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti (t.d. áskilið öryggisbelti vantar).

    • Það telst frávik ef samþykkt teikning hópbifreiðar er ekki til staðar.

    • Það telst frávik ef sætaskipan í hópbifreið er ekki í samræmi við teikningu eða skilti um farþegafjölda í hópbifreið er ekki í samræmi við ökutækið og skráðar upplýsingar.

    Yfirbygging

    Skylda er að skrá yfirbyggingu á vörubifreið (N2 og N3) og stærri eftirvögnum (O3 og O4) en hana má skrá á sendibifreið (N1) en ekki aðra ökutækisflokka. Hefur sjaldnast verið skráð við forskráningu. Taka skal út yfirbyggingar þegar við á. Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik vanti yfirbyggingu á ökutæki sem skylda er að skrá.

    • Það telst frávik ef skylduskráð yfirbygging uppfyllir ekki kröfur og ljóst er að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti.

    Sérbúnaður

    Skylda er að skrá tiltekinn sérbúnað sé hann til staðar og uppfylli kröfur. Hefur sjaldnast verið skráður við forskráningu. Taka skal út sérbúnað. Tilkynna rétt gildi.

    • Það telst frávik sé á ökutæki sérbúnaður sem skylt er að skrá sem uppfyllir ekki kröfur og ljóst er að ekki verður bætt úr annmörkum með einföldum hætti.

    Breytingar breyttra bifreiða

    Hafi veigamiklar breytingar verið gerðar á ökutæki fyrir innflutning og þær samþykktar af viðurkenndum erlendum skráningaryfirvöldum eru þær skráðar við forskráningu.

    • Það telst frávik hafi ökutæki verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda og ekki búið að skrá þær breytingar.

    Ökutæki breytt

    Ökutæki má ekki hafa verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda. Þó getur Samgöngustofa viðurkennt slíkar breytingar í forskráningarferlinu sem gerðar hafa verið fyrir innflutning hafi þær verið þær samþykktar af viðurkenndum erlendum skráningaryfirvöldum - þær eru þá skráðar inn við forskráningu.

    • Það telst frávik hafi ökutæki augljóslega verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda og engar upplýsingar um þær skráðar við forskráningu (ósamþykkt af Samgöngustofu).

    Tjón er á ökutæki

    Ökutæki á augljóslega að vera heilt og ekki vera skemmt eða tjónað.

    • Það telst frávik ef tjón sést á ökutækinu eða það sést að (augljóslega léleg) viðgerð á fyrra tjóni hefur farið fram.

    Aðferðir til úrlausnar ef hafna hefur þurft skoðun og skráningu

    Umsækjandi um forskráningu (umráðandi á forskrá) og/eða fyrsti eigandi geta leitað lausna á misræmi á skráningarupplýsingum í samvinnu við Samgöngustofu.

    Hafi ökutæki verið breytt frá viðurkenningu er nærtækasta lausnin að breyta því baka aftur í upprunalegt horf og færa það á ný til skoðunar. Teljist það ekki raunhæfur möguleiki má leita lausna í samvinnu við Samgöngustofu, sem m.a. geta falist í því að skila inn viðbótargögnum eða breyta viðurkenningu ökutækisins sem mögulega krefst sérstakrar skoðunar. Gera verður ráð fyrir því að úrlausn taki tíma og ekki takist að leysa úr öllum málum.

    Náist ekki að leysa úr málinu fæst ökutækið ekki nýskráð, t.d. þegar rétt gögn berast ekki eða breytingar teljast óheimilar eða óöruggar.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu 5.827 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.

    • Samgöngustofa tekur ekki gjöld vegna skráningarskoðunar.

    • Gjald Samgöngustofu fyrir mat á nýjum gögnum er varðar viðurkenningu eða aðra úrlausn vegna þess að hafna hefur þurft skoðun eða skráningu er innheimt tímavinna samkvæmt gjaldskrá, 11.008 krónur á klukkutíma.

    Tölvuvinnsla

    Þjónustuaðilar útfylla breytingablað US.111 sem er hluti af Vefekju (Samgöngustofu).