Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Samantektir og tilkynningar

    Sérstakar tímabundnar tilkynningar, svokallaðar öryggistilkynningar, ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra.

    Reglur um skráningu og breytingu ökutækisflokka, notkunarflokka og veigamikilla breytinga á ökutækjum má sjá í skráningareglum ökutækja.

    Tilvísanir til þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi.

    Leiðbeiningaskjöl og ítarefni fyrir reglubundnar skoðanir er að finna undir þeirri verklagbók.

    Efni kaflans

    16.02.2023 - Skoðun á eldsneytisþrýstigeymum fyrir metangas

    Vegna sprengingar á metangeymi í bifreið þann 13. febrúar 2023 er áríðandi að herða eftirlit með geymum af þessu tagi.

    Samkvæmt skoðunarhandbók hefur verið gerð krafa um að viðurkenningarmerkingar og gildistímamerkingar á þrýstigeymum af þessu tagi séu skoðaðar við skoðun. Upplýsingarnar eiga að koma fram á geymunum og skal þeim komið þannig fyrir að auðvelt sé fyrir eftirlitsaðila að sjá þær eftir ísetningu. Sérstaklega mikilvægt hefur verið að skoða gildistímamerkingar í öllum reglubundnum skoðunum en tiltekið að viðurkenningarmerkingar skuli skoðaðar við almennar skoðanir ef ástæða þykir til (s.s. vísbendingar um að skipt hafi verið um geymi). Ef þessar merkingar vantar skal dæma 2 á þau atriði.

    Í nýrri skoðunarhandbók (sem kemur til framkvæmda 1. mars 2023) er í atriði 6.1.3 dæmt á allar gerðir eldsneytisgeyma og leiðslna. Ein dæming er í 1, þegar frágangur er ófullnægjandi og hætta er á skemmdum (en engar skemmdir orðið ennþá), en annars er dæmt í 2 á ýmis frávik en alvarlegustu frávikin eru nú dæmd í 3, þar á meðal ef styrkleikaskemmdir sjást á geymi, gildistími er útrunninn (eða upplýsingar vantar eða ófullnægjandi) eða viðurkenningarmerkingar vantar eða ófullnægjandi.

    Á ökutækjaskrá eru nú tæplega 2.300* bifreiðir í umferð sem ganga fyrir metani að hluta eða í heild. Metanbreytingum hérlendis var að mestu hætt um miðjan síðasta áratug og var nokkur hundruð bílum breytt. Einhver sambærilegur fjöldi metanbíla hefur einnig verið fluttur inn, bæði hafa það verið bílar sem komu þannig frá framleiðanda (eða voru viðurkenndir af framleiðanda) og líka bílar sem breytt hafði verið erlendis. Þar sem gildistími þrýstigeyma er yfirleitt aldrei meiri en 15 ár er ljóst að komið er að endurnýjun margra þeirra (nær undantekningarlaust þarf að skipta um geymi, þeir hafa bara þennan líftíma).

    Því er beint til skoðunarstofa að við reglubundna skoðun verði þrýstigeymar fyrir metan skoðaðir sérstaklega vel, m.a. að lesa upplýsingar um gildistíma og skoða vel hvort styrkleikamissi sé að finna í geymum (sérstaklega í kringum festingar eða á þeim svæðum sem liggja upp við aðra hluta ökutækisins). Einnig að kynna sér vel þær upplýsingar og kröfur sem tilteknar eru í skoðunaratriði 6.1.3 Eldsneytisgeymar og leiðslur.
    *Í fyrstu útgáfu tilkynningarinnar var fjöldinn 600 en er í raun nær 2.300.

    18.08.2022 - Mögulegur galli í dráttarstól vörubifreiða

    Mögulegur galli í dráttarstólum vörubifreiða af gerðinni JOST JSK 40 sem er mjög algengur dráttarstóll. Hinn meinti galli varðar tvöfalda læsingu fyrir pinna festivagns í dráttarstólnum.Tvívegis og á sínum hvorum bílnum hefur vagn losnað aftur úr á ferð, og eiga ökutækin það sameiginlegt að vera Mercedes og með þessa gerð dráttarstóls. Ætla má að einhver bilun hafi orðið í læsingarbúnaði dráttarstólsins, sem veldur ofangreindu, frekar en að búnaðurinn sé gallaður eða uppfylli ekki kröfur.