Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Framlag foreldris vegna menntunar eða starfsþjálfunar

18 - 20 ára ungmenni í námi eða starfsþjálfun geta sótt um menntunarframlag frá foreldrum.

  • Búi ungmenni hjá öðru foreldri getur viðkomandi krafið hitt foreldrið um menntunarframlag. 

  • Búi ungmenni hjá hvorugu foreldri getur viðkomandi krafist framlags frá báðum foreldrum. 

Upphæð framlags

Algengast er að framlagið nemi einföldu meðlagi en hægt er að fara fram á að framlagið sé hærra.

Framlag frá foreldri

Samkomulag án aðkomu sýslumanns

Foreldri og ungmenni geta gert samkomulag sín á milli án aðkomu sýslumanns og samið um upphæðir, greiðslutímabil og annað. Aðilar sjá sjálfir um innheimtu og greiðslu framlags sín á milli.

Vilji aðilar gera þetta skriflega má fylla út yfirlýsingu um samþykki til greiðslu framlags vegna menntunar/starfsþjálfunar og fá tvo aðila til að votta undirskriftir. 

Samningur staðfestur af sýslumanni

Ef foreldri og ungmenni eru sammála um greiðslu framlags geta þau gert skriflegan samning um menntunarframlag og fengið hann staðfestan af sýslumanni. Vottorð um skólavist eða staðfesting á starfsþjálfun verður að fylgja.

Þegar sýslumaður hefur staðfest samninginn, getur ungmenni óskað eftir að fá framlagið greitt hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það er líka hægt að semja um að foreldri borgi framlagið beint til ungmennis, án þess að fara með það í gegnum Tryggingastofnun.

Ekki er þörf á að fara fram á milligöngu TR vegna greiðslna en hægt er að óska eftir því. 

Beiðni um úrskurð sýslumanns

Hægt er að sækju um að sýslumaður kveði upp úrskurð um hvort foreldri sé skylt að greiða framlag til ungmennis.

Beiðni um úrskurð um greiðslu fjárframlags vegna menntunar eða starfsþjálfunar

Nauðsynleg fylgigögn eru 

  • vottorð um skólavist eða staðfesting á starfsþjálfun

  • síðustu tvö skattframtöl ungmennis

  • upplýsingar um tekjur ungmennis á yfirstandandi ári, til dæmis staðgreiðsluskrá eða afrit launaseðla

Ferli

Sýslumaður kynnir beiðni um framlag fyrir foreldrinu og gefur foreldri frest til að tjá sig, leggja fram gögn og gera athugasemdir. Foreldri er beðið um að leggja fram greinargerð og gögn um fjárhagsstöðu sína ef beiðninni er mótmælt. Náist ekki sátt úrskurðar sýslumaður.

Samþykki sýslumaður beiðni getur ungmenni snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og óskað eftir að stofnunin milligangi greiðslur. Það er líka hægt að fara fram á að foreldri borgi framlagið beint til ungmennis, án þess að fara með það í gegnum Tryggingastofnun.

Synji sýslumaður beiðni getur viðkomandi sótt um barnalífeyri vegna náms hjá TR að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Foreldra nýtur ekki við 

Þegar ekki er hægt að sækja um menntunarframlag til foreldra getur ungmenni snúið sér til TR og sótt um barnalífeyri vegna náms

Þetta á sér til dæmis stað þegar

  • sýslumaður úrskurðar að foreldri eigi ekki að greiða framlag vegna fjárhags

  • foreldri er látið

  • foreldri er lífeyrisþegi sem þiggur örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða ellilífeyri

  • ungmenni er ófeðrað

Í þessum tilfellum skal snúa sér til TR. 

Lög og reglur 

Barnalög nr. 76/2003

Lög um almannatryggingar nr. 100/2007

Reglugerð um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga nr. 945/2009 

Þjónustuaðili

Sýslu­menn