Fara beint í efnið

Dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland

Umsókn um dvalarleyfi

Mat á skilyrðum

Skilyrði þessa dvalarleyfis eru að mestu háð mati sem þýðir að Útlendingastofnun þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort umsækjandi teljist hafa sérstök tengsl við Ísland. Í lögum og reglugerð um útlendinga koma fram leiðbeiningar sem Útlendingastofnun fer eftir þegar tengsl umsækjanda eru metin.

Umsækjandi hefur dvalið á Íslandi

Dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland er fyrst og fremst ætlað umsækjanda sem hefur dvalist á landinu og stofnað til tengsla við landið meðan viðkomandi hafði dvalarleyfi á Íslandi. Skilyrði er að dvalarleyfi hafi ekki fengist endurnýjað eða verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Ekki er skilyrði að umsækjandi hafi dvalist á Íslandi síðstu ár áður en umsókn er lögð fram ef viðkomandi hefur einhvern tímann búið hér.

Dvalarleyfi sem ekki geta verið grundvöllur þessa leyfis

Til sérstakra tengsla við landið teljast ekki þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi á grundvelli dvalarleyfis

  • fyrir námsmenn

  • sjálfboðaliða,

  • trúboða,

  • au-pair,

  • fórnarlamb mansals,

  • vegna vinnudvalar fyrir ungt fólk,

  • bráðabirgðadvalarleyfis

  • langtímavegabréfsáritunar.

Lengd lögmætrar dvalar

Lengd lögmætrar dvalar vegur þungt við mat á sérstökum tengslum. Að jafnaði þarf umsækjandi að hafa dvalið á Íslandi í lögmætri dvöl í að minnsta kosti tvö ár áður en litið er til dvalarlengdar við mat á tengslum, nema önnur tengsl (svo sem fjölskyldutengsl eða félagsleg og menningarleg tengsl) séu mjög sterk.

Ef umsækjandi dvelst ekki á Íslandi þegar umsókn er lögð fram er skoðað hvenær viðkomandi dvaldist hér og hversu lengi. Ef umsækjandi hefur dvalist lengur erlendis en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verður dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla almennt ekki veitt á grundvelli fyrri dvalar nema önnur tengsl umsækjanda séu mjög sterk.

Tengsl umsækjanda við Ísland og heimaríki

Tengsl umsækjanda við Ísland skal meta í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, annað hvort heimaland eða annað ríki þar sem umsækjandi hefur dvalist. Umsækjandi getur hafa misst tengsl sín við heimaríki eða annað dvalarríki þrátt fyrir að dvöl á Íslandi hafi verið stutt. Umsækjandi getur einnig hafa haldið sterkari tengslum við önnur ríki en Ísland þrátt fyrir dvöl hér.

Fjölskyldutengsl

Fjölskyldutengsl eru þau tengsl sem vega þyngst við matið ásamt tengslum á grundvelli fyrri dvalar á Íslandi. Lagt er heildarmat á fjölskyldutengsl og fjölskyldumynstur, -stærð, -saga og -aðstæður skoðaðar. Litið er til þess hvort umsækjandi eigi fjölskyldu á Íslandi og í heimaríki og hversu náin fjölskyldutengslin eru. Tengsl við foreldra og börn eru metin sterkari en tengsl við systkini eða fjarskyldari ættingja.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla er ekki ætlað að koma í stað dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar. Það þýðir að ef umsækjandi á rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skal sækja um slíkt dvalarleyfi. Uppfylli umsækjandi ekki eitthvert skilyrða slíks dvalarleyfis leiðir það eitt og sér ekki til þess að viðkomandi fái dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.

Umönnunarsjónarmið

Líta skal til umönnunarsjónarmiða þegar sérstök tengsl á grundvelli fjölskyldutengsla eru metin. Metið er hvort umsækjandi er háður fjölskyldu sinni hér á landi til dæmis fjárhagslega eða vegna þess að aðstandandi umsækjanda hér á landi er háður honum. Að vera á framfæri fjölskyldu sinnar er eitt og sér ekki nægur grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla, heldur þurfa félagsleg- og menningarleg sjónarmið jafnframt að styðja umsóknina. Þar er meðal annars litið til þess hvort umsækjandi hafi aðlagast samfélaginu hér á landi og stundi atvinnu eða skóla.  

Brotaferill á Íslandi

Hafi umsækjandi verið dæmdur fyrir afbrot á Íslandi er það talið draga úr tengslum hans við landið. Litið er til þess hvort umsækjandi hafi framið endurtekin brot eða eigi ólokin mál í refsivörslukerfinu. Skal þá dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla að jafnaði ekki veitt.

Umsækjandi hefur ekki dvalið á Íslandi

Í undantekningartilvikum er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þrátt fyrir að umsækjandi hafi aldrei dvalist á Íslandi. Þessi tilvik eru mjög sjaldgæf og þurfa aðstæður umsækjanda að vera mjög sérstakar og tengsl hans við Ísland mjög sterk til að dvalarleyfi sé veitt.

Útlendingastofnun lítur til sömu sjónarmiða og ef umsækjandi hefur dvalist á landinu.

Í reglugerð um útlendinga eru eftirfarandi skilyrði sett fram:

  • Umsækjandi á uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi,

  • umsækjandi getur sýnt fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og

  • fjölskyldu- og félagsleg tengsl umsækjanda við heimaríki eru slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi.

Auk þessa skilyrða þurfa rík umönnunarsjónarmið, önnur en að vera á framfæri fjölskyldu sinnar, að vera til staðar. 

Hvað er bersýnilega ósanngjarnt?

Í reglugerð um útlendinga segir að tengsl umsækjanda við heimaríki þurfi að vera slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita ekki dvalarleyfi á Íslandi. Mat á þessu þarf að fara fram í hverju tilviki fyrir sig og er ekki hægt að segja til um það fyrirfram hvað telst bersýnilega ósanngjarnt. Þær aðstæður sem fjallað hefur verið um að ofan eru þau sjónarmið sem litið er til við matið.

Útlendingastofnun þarf að gæta hlutlægni og jafnræðis við þetta mat. Ekki er öruggt að það sem umsækjanda þykir bersýnilega ósanngjarnt og sérstök tengsl við landið falli að þeim sjónarmiðum sem stofnunin þarf að leggja til grundvallar við mat á tengslum.

Umsókn um dvalarleyfi

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun