Fasteignafélagið Þórkatla byrjar að kaupa íbúðarhúsnæði í Grindavík í apríl
15. mars 2024
Fasteignafélagið Þórkatla gerir ráð fyrir að hefja kaup á húsnæði í Grindavík snemma í apríl.
Nú hafa 334 Grindavíkingar óskað eftir því að selja Fasteignafélaginu Þórkötlu húsnæði sitt í stafrænu umsóknarkerfi sem sérstaklega var sett upp fyrir verkefnið. Að auki hefur félagið fengið erindi frá Grindvíkingum sem ekki hafa getað nýtt sér kerfið. Í ljósi umfangsins og nauðsynlegrar undirbúningsvinnu er stefnt að því að hefja kaup á húsnæði snemma í apríl.
Eigendur um 900 íbúða í Grindavík geta nýtt sér úrræðið og því hefur ríflega þriðjungur nú þegar valið þá leið í fyrstu vikunni eftir að opnað var fyrir umsóknir. Áætlað var að vinnsla umsókna gæti tekið um 2-4 vikur, með fyrirvara um fjölda umsókna og umfang við vinnslu þeirra, sem er mismunandi eftir eignum.
Undanfarna viku hafa staðið yfir umbætur á umsóknarkerfinu auk þess sem fyrirspurnum hefur verið svarað. Félagið hefur notið aðstoðar frá Stafrænu Íslandi og fulltrúum sýslumanna við undirbúninginn auk þess sem þeir veita mikilvæga þjónustu í öllu söluferlinu.
Í ljósi fjölda umsókna og fyrirspurna vill félagið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:
Fasteignafélaginu er óheimilt að ráðstafa eignum sem háðar eru forgangsrétti (kauprétti, forkaupsrétti eða leigurétti) til annarra en fyrri eigenda í allt að tvö ár frá gildistöku laganna um úrræðið, 1. mars 2024.
Þeir Grindvíkingar sem óskað hafa eftir forgangsrétti að sinni eign halda þeim rétti í þrjú ár að lágmarki eða til 1. mars 2027.
Seljendur geta samið við Fasteignafélagið um leigu eða eftir atvikum umgengni um hið selda íbúðarhúsnæði, eða hluta þess, samhliða sölunni eða síðar. Enginn annar en seljandi hefur kost á þessu í tilviki þeirra eigna sem háðar eru forgangsrétti í allt að tvö ár.
Mikil vinna stendur yfir hjá Fasteignafélaginu við að undirbúa kaupin og umsjón eignasafnsins. Félagið hefur einsett sér að gæta jafnræðis við afgreiðslu umsókna og standa þannig að eigendaskiptunum að þau verði í samræmi við lög.
Áfram verður unnið að umbótum á umsóknarkerfinu og upplýst verður um þær á Ísland.is á umsókn um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík
Fasteignafélagið Þórkatla ehf. var stofnuð þann 27. febrúar sl. og fullmönnuð stjórn félagsins tók til starfa 8. mars. Tilgangur félagsins er að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í Grindavík, sem keypt verður í samræmi við lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík nr. 16/2024.
Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins verður hægt að nálgast á vef félagsins.