Fasteignafélagið Þórkatla
Lausn í málum búseturéttarhafa í Grindavík
16. júlí 2024
Niðurstaða hefur náðst í málum búseturéttarhafa í Grindavík
Fasteignafélagið Þórkatla vill vekja athygli á því að niðurstaða hefur náðst í málum búseturéttarhafa í Grindavík. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti í gær að í samræmi við heimild í lögum um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík hefði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ákveðið að styrkja búseturéttarhafa um 95% af framreiknuðu búseturéttargjaldi þeirra. Samhliða því muni Búmenn bjóða búseturéttarhöfum í Grindavík að segja upp búseturétti sínum án uppsagnarfrests og losna þar með undan þeim langtíma skuldbindingum sem í honum felast.
Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að viðræður milli Fasteignafélagsins Þórkötlu og húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna um útfærslu á kaupum á búseturétti í íbúðarhúsnæði Búmanna í Grindavík, skiluðu ekki árangri. Fasteignafélagið Þórkatla, í samráði við Búmenn, leitaði því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna málsins þar sem lagt var til að málefni búseturéttarhafa í Grindavík yrðu leyst með vísan til III. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 16/2024, þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að styrkja þá búseturéttarhafa sem falla undir gildissvið laganna.
Líkt og fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu mun Þórkatla annast samskipti við umsækjendur og þeim búseturéttarhöfum sem kjósa er bent á að skila inn umsókn í gegnum vef Þórkötlu á island.is. Þeir búseturéttarhafar sem þegar hafa skilað inn umsókn um kaup mega búast við því að fá sendar nánari upplýsingar í ágúst, en stefnt er að því að þessi mál komi til framkvæmda seinni hluta ágústmánaðar.
Nánari upplýsingar um málið má finna á vef Stjórnarráðsins, hér.