Fara beint í efnið

Umsókn um sjúkratryggingu

Umsókn um sjúkratryggingu

Þegar flutt er til Íslands frá öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, Grænlandi eða Færeyjum kann að vera að þú eigir rétt á sjúkratryggingu án sex mánaða biðtíma.

Til að sækja um

 1. Hafa skráð lögheimili á Íslandi

 2. Hafa rafræn skilríki til innskráningar

 3. Hafa flutt til Íslands frá landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, Grænlandi eða Færeyjum

Biðtími

Ef eitt af eftirfarandi á við um þig er óþarft að sækja um sjúkratryggingu. Þú verður sjálfkrafa sjúkratryggð(ur) ýmist eftir sex mánaða biðtímann eða strax ef fyrsta atriðið á við þig.

 • Flutt til baka til Íslands frá einu Norðurlandanna innan tólf mánaða frá flutningi erlendis. Þú verður sjálfkrafa sjúkratryggð(ur) þegar lögheimili hefur verið skráð á Íslandi.

 • Flutt er til Íslands frá landi utan EES, Grænlandi eða Færeyjum. Þú verður sjálfkrafa sjúkratryggð(ur) sex mánuðum eftir að lögheimili var skráð á Íslandi.

 • Þú varst ekki með sjúkratryggingu í fyrra tryggingarlandi eða varst aðeins með einkatryggingu. Þú verður sjálfkrafa sjúkratryggð(ur) sex mánuðum eftir að lögheimili hefur verið skráð á Íslandi.

 • Þú ert ríkisborgari lands utan EES eða flytur til Íslands frá landi utan Norðurlanda. Þú verður sjálfkrafa sjúkratryggð(ur) sex mánuðum eftir að lögheimili hefur verið skráð á Íslandi.

Ráðlagt er að kaupa einkatryggingu þar til réttur til opinberrar sjúkratryggingar verður virkur.

Læknisfræðilegar undanþágur

Til eru læknisfræðilegar undanþágur þar sem þú gætir haft rétt á sjúkratryggingu án þess að uppfylla öll skilyrði. Tæmandi undanþágur eru taldar hér:

 • Þegar um er að ræða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum.

 • Þegar um er að ræða einstakling sem íslensk sóttvarnaryfirvöld krefjast að undirgangist skoðun og/eða rannsókn vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm eða ef staðfest er að viðkomandi hafi veikst af slíkum sjúkdómi og að nauðsynlegt er að hefja meðferð án tafar. Undanþágan tekur einungis til greiningar og meðferðar sbr. sóttvarnarlög og reglugerðir á grundvelli þeirra.

 • Þegar um er að ræða nýrnasjúkling sem þarfnast reglulega meðferðar í nýrnavél eða sjúkling sem þarfnast súrefnis. Undanþágan tekur einungis til nefndrar meðferðar.

 • Þegar um er að ræða einstakling sem haldinn er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu, enda hafi hann áður verið búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár og eigi hér nána ættingja. Sama á við um barn undir 20 ára aldri sem haldið er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands með foreldrum eða foreldri sem uppfyllir framangreint skilyrði um búsetu.

Ef þú telur eitthvað af þessu eiga við þig, hafið samband við Sjúkratryggingar Íslands. Læknisvottorð þarf að fylgja umsókninni sem rökstyður undanþáguna.

Umsókn um sjúkratryggingu