Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Umboð – að veita öðrum aðgang

Hægt er að nota rafræn umboð til að veita öðrum heimild til að sinna málum fyrir sína hönd. Þannig geta einstaklingar skráð sig inn á Ísland.is fyrir hönd fyrirtækja, opinberra aðila, barna sinna og þeirra einstaklinga sem hafa veitt þeim umboð.

Umboð er annað hvort veitt af einstaklingi eða verður til vegna tengsla, þá eru upplýsingar sóttar til þeirrar stofnunar sem ber ábyrgð á viðkomandi skráningu.

Foreldrar eru sjálfkrafa með umboð fyrir börn sín til 18 ára aldurs.

Prókúruhafar fyrirtækja og félaga eru sjálfkrafa með umboð vegna þeirra en geta einnig veitt öðrum aðgang og heimildir.

Öryggi og rekjanleiki

Þegar einstaklingur skráir sig inn fyrir hönd annarra byrjar hann á því að skrá sig inn á Mínar síður Ísland.is með sínum eigin rafrænu skilríkjum. Síðan eru umboð hans sótt í Umboðskerfi Ísland.is.

Einstaklingur er alltaf innskráður til þess að tryggja öryggi og rekjanleika. Auðvelt er að skilgreina þann tímaramma sem umboð eiga að gilda. Sá sem fær umboðið fær tilkynningu þegar umboð er stofnað, því breytt eða ef það er afturkallað.

Dæmi um rafræn umboð:

  • Aðgangur að upplýsingum í Landsspítala-appinu.

  • Umsóknarferli á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

  • Þjónustugáttir og Mínar síður ýmissa sveitarfélaga.

  • Umsóknarferli á vegum Rannís.

  • Vefgáttir Sjúkratrygginga.

  • Umsóknargátt Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

  • Umsóknarferli á vegum Þjóðskrár.


Afmarkað hlutverk

Athugið að rafræn umboð í gegnum Ísland.is hafa afmarkað hlutverk og nýtast aðeins hjá þeim opinberu aðilum sem hafa virkjað þau.

Þau nýtast því til dæmis ekki:

  • Sem umboð aðstandenda til upplýsingaöflunar og/eða fjárhagslegra aðgerða í bönkum. Bankar eru með eyðublöð fyrir slík umboð.

  • Sem umboð til að sjá um skil skattframtala. Þau þarf að sækja um hjá Skattinum.

  • Sem umboð hjá lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðir eru með eyðublöð fyrir slík umboð.

  • Sem umboð til að sækja lyf. Slíkt umboð er hægt að stilla í gegnum Heilsuveru.