Næring - tölur
Hvernig er fæðuframboð reiknað?
Fæðuframboð
Embætti landlæknis tekur reglulega saman upplýsingar um fæðuframboð. Fæðuframboð veitir upplýsingar um það magn matvara sem er á boðstólum fyrir þjóðina ár hvert. Þó að fæðuframboðstölur veiti ekki beinar upplýsingar um neyslu gefa þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar. Fæðuframboð er yfirleitt reiknað samkvæmt jöfnunni: Fæðuframboð = framleiðsla + innflutningur - útflutningur - önnur not (t.d. dýrafóður). Þar sem sölutölur eru fyrir hendi eru þær birtar beint.
Fæðuframboðið nær í flestum tilfellum til lítið unninnar vöru t.d. er kjöt gefið upp í heilum skrokkum með beini, fiskur er gefinn upp óslægður en í stöku tilfellum er um fullunnar vörur að ræða t.d. mjólk, mjólkurvörur og smjörlíki. Ekki er tekið tillit til rýrnunar sem á sér stað frá framleiðslu og þar til fæðan kemur inn á heimilin né rýrnunar á heimilum. Fæðuframboðið segir því ekkert til um raunverulega neyslu en veitir gagnlegar upplýsingar til að fylgjast með þróun á mataræði þjóðarinnar yfir lengri tíma.
Framboðið er reiknað fyrir 13 matvælaflokka og að auki fyrir iðnaðarframleiddu vörurnar gosdrykki og sælgæti. Tölurnar eru reiknaðar fyrir hvert ár fyrir sig, en niðurstöðurnar eru birtar sem fimm ára meðaltöl nema fyrir nokkur síðustu ár.
Næringargildi fæðunnar þ.e. orka og orkuefnin prótein, fita, kolvetni og alkóhól voru einnig reiknuð á grundvelli fæðuframboðstalnanna til ársins 2007. Eftir það hefur vantað upplýsingar um ýmsar fæðutegundir í fæðuframboðið eins og t.d. fisk, rjóma, magn mjólkur eftir fituinnihaldi þannig að ekki var grundvöllur fyrir slíkum útreikningum lengur. Orkuefnin voru gefin upp í g/dag en einnig var hlutfallslegt framlag þeirra til orkunnar reiknað.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis