Barnabætur
Rétt til barnabóta á Íslandi eiga þau sem hafa á framfæri sínu börn og eru heimilisföst/búsett hér eða dvelja hér á landi lengur en samtals 183 daga á 12 mánaða tímabili.
Útreikningur
Barnabætur eru tekjutengdar og reiknaðar út frá tekjum á skattframtali. Fjármagnstekjur og tekjur erlendis hafa áhrif á útreikning barnabóta. Það á einnig við um laun frá alþjóðastofnunum sem ekki eru skattlögð.
Reiknivél barnabóta á vef Skattsins
Greiðslur
Barnabætur eru reiknaðar í álagningu árið eftir að barn fæðist og í síðasta skipti árið sem 18 ára aldri er náð. Börn þurfa að vera skráð til heimilis hjá framfæranda í lok árs.
Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári. Fyrstu tvær greiðslur ársins eru fyrirframgreiðsla og dregnar frá útreiknuðum barnabótum ákvörðuðum við álagningu miðað við tekjur á skattframtali. Eftirstöðvunum er svo skipt í tvær greiðslur.
1. febrúar - fyrirframgreiðsla
1. maí - fyrirframgreiðsla
1. júní - ákvarðaðar barnabætur
1. október - ákvarðaðar barnabætur
Með börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu eru greiddar aukalega sérstakar barnabætur, sem einnig eru tekjutengdar.
Fyrirframgreiðsla barnabóta
Fyrirframgreiðslan nemur helming áætlaðra barnabóta ársins og greiðist með tveimur jöfnum greiðslum, 1. febrúar og 1. maí.
Miðað er við fjölskyldustöðu eins og hún er skráð í Þjóðskrá 31. desember árið á undan.
Við útreikning á tekjuskerðingu er tekið mið af tekjum í staðgreiðslu að viðbættum upplýsingum um tekjur utan staðgreiðslu af skattframtali fyrra árs. Viðmiðunartímabil tekna í staðgreiðslu er frá nóvember til nóvember.
Fyrirframgreiðsla fellur niður ef nægar upplýsingar liggja ekki fyrir til að ákvarða barnabætur, t.d. þegar skattframtali hefur ekki verið skilað árið áður. Í slíkum tilvikum þarf að sækja sérstaklega um að fá fyrirframgreiðslu.
Leiðréttingar og breytingar á fyrirframgreiðslu
Séu aðstæður einstaklings aðrar en forsendur útreiknings gera ráð fyrir má óska eftir leiðréttingu á fyrirframgreiddum barnabótum.
Algengar breytingar á högum sem geta gefið tilefni til leiðréttingar á fjárhæð barnabóta í fyrirframgreiðslu eru m.a.:
Tekjur
Skilnaður/samvistarslit
Óskráð sambúð
Ný sambúð
Maki búsettur og/eða starfar erlendis
Þá er einnig hópur fólks sem ekki fær sjálfkrafa útreikning á fyrirframgreiðslu barnabóta en getur sótt um leiðréttingu á. Ástæður þess geta verið meðal annars:
Námsmenn erlendis
Skattframtali fyrra árs ekki skilað inn
Flutningur milli landa
Hjúskaparstaða óþekkt miðað við skráningu í Þjóðskrá
Framfærendur og áhrif hjúskaparstöðu
Framfærendur barna
Eingöngu framfærendur barna eiga rétt á greiðslu barnabóta. Til að teljast framfærandi barns þarf það að vera skráð á sama heimili í árslok í þjóðskrá eða liggja fyrir samningur um skipta búsetu barns hjá sýslumanni. Ekki skiptir máli þótt barnið hafi ekki verið á framfæri sama einstaklings allt árið.
Þau sem greiða meðlag með barni teljast ekki sem framfærandi í þessu sambandi.
Hjón og sambúðarfólk
Barnabætur skiptast jafnt á milli hjóna.
Barnabætur sambúðarfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuársins skiptast á milli þeirra eins og hjá hjónum. Við ákvörðun á fjárhæð bótanna er miðað við samanlagðar tekjur samkvæmt skattframtölum beggja.
Þau sem halda heimili saman ásamt barni sínu teljast vera framfærendur þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.
Foreldrar barna með skipta búsetu
Foreldrar sem semja um skipta búsetu barna hjá sýslumanni geta hvort um sig átt rétt á barnabótum.
Barnabæturnar reiknast sjálfkrafa til beggja foreldra svo lengi sem samningur um skipta búsetu barns liggi fyrir hjá sýslumanni í árslok. Ekki þarf að sækja um barnabæturnar til Skattsins.
Barnabæturnar vegna barna með skipta búsetu eru reiknaðar á þann hátt að barnið kemur inn til útreiknings hjá hvoru foreldri fyrir sig. Þeim reiknast ákveðin fjárhæð barnabóta miðað við tekjur og fjölskyldustöðu. Af þeirri fjárhæð sem hvoru foreldri ákvarðast fellur helmingur niður og hinn helmingurinn kemur til útborgunar.
Sú staða getur komið upp að mismunur er á fjárhæð barnabóta vegna mismunandi tekna og fjölskyldustöðu foreldra, jafnvel getur annað þeirra fengið barnabætur en hitt engar með sama barni.
Samningur um skipta búsetu barns fellur úr gildi við flutning annars foreldris úr landi.
Flutningur milli landa
Þau sem flytja til eða frá landinu á árinu frá barnabætur hlutfallslega miðað við dvalartíma á Íslandi.
Þetta á þó ekki við um námsmenn erlendis sem sækja um að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Þau eiga rétt á barnabótum hér á landi að því marki sem þær eru hærri en fengnar barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis frá.
Þjónustuaðili
Skatturinn