Gerð og skráning húsaleigusamninga
Frá og með 1. janúar 2026 mun skráningarskylda leigusamninga í Leiguskrá HMS ná til allra sem leigja út húsnæði til íbúðar.
Húsaleigusamningar sem hafa verið gerðir á pappír og eru í gildi geta ekki verið skráðir í gegnum Ísland.is. Senda þarf afrit af samningnum á hms@hms.is og óska eftir skráningu.
Auk HMS bjóða nokkrir þjónustuaðilar upp á rafræna leigusamningagerð og skráningu í Leiguskrá HMS. Þessir aðilar eru í stafrófsröð:
Advania – S5 Leigukerfi
OneSystems
Wise lausnir ehf.
Þegar allir aðilar hafa undirritað leigusamninginn skráist hann sjálfkrafa í Leiguskrá HMS.
Leigusali getur fengið umboðsaðila til að undirrita samning fyrir sína hönd t.d. ef hann er búsettur erlendis, er frá vegna langvarandi veikinda eða ef um dánarbú er að ræða.
Kostnaður
Rafrænir húsaleigusamningar eru gjaldfrjálsir bæði fyrir leigjanda og leigusala, nema ef leigusali kjósi að kaupa þjónustu af þjónustuaðila, þá greiðir leigusali.
Húsaleigusamningur á pappír
Hægt er að skila inn undirrituðum húsaleigusamningi til skráningar í Leiguskrá HMS á netfangið hms@hms.is. HMS innheimtir umsýslugjald samkvæmt gjaldskrá fyrir 2.700 krónur handskráningu á pappírsleigusamningi í Leiguskrá og 864 krónur fyrir afrit af leigusamningi. Krafa er stofnuð í heimabanka þess sem skilar inn samningnum og samningurinn er skráður eftir að krafan hefur verið greidd.
Hér má finna leigusamning á pappír í útgáfu HMS.
Gott að hafa í huga
Allir aðilar leigusamningsins þurfa annaðhvort að handundirrita samninginn eða undirrita hann með rafrænum hætti.
Ef samningurinn er handundirritaður þurfa tveir vottar að votta samninginn.
Í samningnum þurfa að koma fram helstu niðurstöður á ástandi hins leigða og brunavarnir.
Samningurinn er skráður í Leiguskrá HMS þegar hann uppyllir öll skilyrði og greitt hefur verið fyrir skráningu.
Athugaðu að það getur tekið allt að einni viku að fá pappírssamning skráðan í Leiguskrá HMS eftir að gjald hefur verið greitt
Ef HMS hefur athugasemdir vegna leigusamningsins sem skilað er inn, hann ekki rétt útfylltur eða vantar eitthvað inn í hann, er ekki hægt að skrá leigusamninginn. HMS hefur þá samband með tölvupósti eða símhringingu.
Leiguskrá spurt og svarað
Lög og reglur
Þjónustuaðili
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun