Eftir gerð samnings um skipta búsetu er barn með fasta búsetu hjá báðum foreldrum sínum. Í þjóðskrá verður skráð lögheimili hjá öðru foreldrinu og búsetuheimili hjá hinu.
Foreldrar eru eftir sem áður báðir framfærsluskyld við barn sitt, en haga framfærslunni samkvæmt sínu samkomulagi.
Við gildistöku samnings um skipta búsetu barns fellur niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kann að liggja fyrir um umgengni og meðlag.
Ekki er hægt að leggja fram hjá sýslumanni beiðni um úrskurð um umgengni, dagsektir, meðlag, utanlandsferð barns á meðan samningur um skipta búsetu er í gildi. Foreldrar sem hafa samið um skipta búsetu geta ekki óskað þess að sýslumaður staðfesti samning um umgengni, sérstök útgjöld eða meðlag.
Foreldrar sem hafa samið um skipta búsetu taka sameiginlega ákvarðanir varðandi barn. Á meðan samningur um skipta búsetu er í gildi hefur hvorugt foreldra meiri rétt en hitt til að taka afgerandi ákvarðanir varðandi daglegt líf barns.
Barnabætur og vaxtabætur
Þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu, ákvarðast barnabætur til hvors foreldris fyrir sig í samræmi við fjölskyldustöðu í árslok og aldur barns og takmarkast við helming af útreiknuðum barnabótum, eftir að tekið hefur verið tillit til tekjuskerðingar hjá hvoru fyrir sig. Þegar foreldrar hafa samið um skipta búsetu, ákvarðast vaxtagjöld þeirra og vaxtabætur líkt og hjá einstæðum foreldrum.
Þjónustuaðili
Sýslumenn