Sjúkratryggingar greiða sjúkradagpeninga til þeirra sem eru algjörlega óvinnufærir vegna veikinda.
Þú sækir um á Ísland.is.
Þú hleður upp fylgigögnum í umsókninni. Það nægir að það séu skýrar myndir af gögnunum.
Umsóknir eru almennt afgreiddar á 4 til 6 vikum. Ef Sjúkratryggingar biðja um frekari gögn þá eru þau afgreidd á viku.
Þú þarft ekki að sækja aftur um sjúkradagpeninga.
Þú skilar aðeins inn framhaldsvottorði frá lækni.
Framlengingar eru almennt afgreiddar á 3 dögum.
Einstaklingar sem eru:
Algjörlega óvinnufærir í að minnsta kosti 21 dag.
Sjúkratryggðir á Íslandi.
16 ára eða eldri.
Með lögheimili á Íslandi (réttur helst í 2 mánuði eftir flutning erlendis).
Ekki í fangelsisvist.
Umsækjandi þarf líka að hafa verið eitt af þessu síðustu 2 mánuði fyrir veikindi:
Launþegi á Íslandi (störf erlendis gefa ekki rétt til sjúkradagpeninga).
Sjálfstætt starfandi á Íslandi (miðað er við reiknað endurgjald eða reikninga fyrir útseldri vinnu).
Á atvinnuleysisbótum (þarf að hafa verið afskráður í veikindum).
Í að minnsta kosti 75% námi og hafa orðið fyrir töfum í náminu vegna veikindanna.
Í minna en 75% námi ásamt hlutastarfi, ef hlutastarf og nám ná samtals 75%.
Ef að ekkert af ofangreindu á við nægir að umsækjandi sé ófær að fullu til heimilisstarfa samkvæmt mati læknis.
Á meðan þú ert á sjúkradagpeningum þá mátt þú ekki fá:
Laun frá vinnuveitanda.
Greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.
Greiðslur frá Vinnumálastofnun.
Greiðslur slysadagpeninga.
Fullar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun.
Sjúkradagpeningavottorð frá lækni.
Það nægir ekki að skila læknisvottorði til atvinnurekanda.
Athuga: Læknir þarf að fylla út óvinnufærni reitinn á vottorðinu. Athugaðu hvort það hafi ekki verið örugglega gert þegar þú færð vottorðið. Ef reiturinn er tómur er eingöngu greitt út fyrir þann mánuð sem vottorð er gefið út.
Upplýsingar um stöðu síðustu 2 mánuði fyrir veikindi.
Skila þarf öllu sem á við.
Ef umsækjandi er bæði launþegi og námsmaður þá þarf að skila inn gögnum um bæði.
Launþegar þurfa að skila:
Vottorði vinnuveitanda.
Vottorðið þarf að vera undirritað ef það kemur ekki í gegnum Gagnagátt.
Stundum duga önnur gögn (svo sem starfslokasamningar), en það þarf alltaf að koma fram hvenær þú varðst launalaus að fullu ásamt starfshlutfalli.
Sjálfstætt starfandi þurfa að skila:
Engin sérstök fylgiskjöl eru nauðsynleg.
Það þarf að fella niður reiknað endurgjald hjá Ríkisskattstjóra fyrir það tímabil sem þú ert óvinnufær.
Umsókn veitir heimild til að skoða skráningu hjá Ríkisskattstjóra.
Atvinnulausir þurfa að skila:
Staðfestingu frá Vinnumálastofnun um dagsetningu afskráningar.
Síðasta greiðsluseðli frá Vinnumálastofnun með hlutfalli bóta.
Námsmenn þurfa að skila:
Skólavottorði sem tilgreinir einingafjölda í námi og hvaða áföngum var ekki lokið í veikindum.
Heimavinnandi einstaklingar þurfa að skila:
Ekki er þörf á sérstökum fylgigögnum með umsókn þegar umsækjandi er ófær til heimilisstarfa.
Greitt er frá því að veikindarétti frá atvinnurekanda er lokið. Ekki er greitt fyrstu 14 daga veikinda, jafnvel þó umsækjandi eigi ekki veikindarétt fyrir þá daga. Uppsöfnuð réttindi (allt að 6 mánuðir) eru greidd út frá því öll gögn hafa borist.
Eftir það er greitt á 14 daga fresti út gildistíma vottorðs.
Sjúkradagpeningar eru föst upphæð fyrir hvern dag sem greitt er.
Greiddir eru fullir eða hálfir dagpeningar.
Barnaviðbót er greidd fyrir börn undir 18 ára aldri á framfæri umsækjanda.
Athugið að sjúkradagpeningar eru skattskyldir. Ef nýta á persónuafslátt þarf að skrá nýtingu skattkorts undir Skrá persónuafslátt. Starfsfólk Sjúkratrygginga má ekki skrá skattkort fyrir einstaklinga.
Fullir eða hálfir dagpeningar
Þú færð fulla dagpeninga:
Ef þú varst í 100% starfi.
Ef þú varst í samblöndu af starfi, skóla og bótum frá Vinnumálastofnun sem samvara 100% starfi.
Þú færð hálfa dagpeninga
Ef þú varst heimavinnandi.
Ef þú varst í minna en 100% starfi.
Heimilishjálp
Ef þú átt eingöngu rétt á hálfum dagpeningum þá geturðu sótt um að fá greitt fyrir heimilishjálp.
Skila þarf kvittuðum reikningum með kennitölu móttakanda greiðslu, vinnutíma og upphæð greiddra launa.
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn

Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar