Fara beint í efnið

Sektir og sakarkostnaður

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra sér um innheimtu sekta og sakarkostnaðar fyrir landið allt. 

Lögreglustjórar í hverju umdæmi sjá þó um innheimtu sekta vegna hraðaksturs sem náðst hefur á hraðamyndavél og annarra umferðarlagabrota sem ljúka má með sektarboði. Ekki er hægt að semja um greiðsludreifingu sektarboða.

Innheimtuferli

Þegar krafa er stofnuð birtist hún í heimabanka skuldara.  Innheimtubréf eru send í pósthólf viðkomandi á island.is.  
Ef krafan fæst ekki greidd 30 dögum eftir að innheimtubréf hefur verið sent og ekki er samið um kröfuna, koma til eftirfarandi úrræði til að knýja á um greiðslur:

Greiðsludreifing

Beiðni um greiðsludreifingu þarf að berast skriflega á netfangið innheimta@syslumenn.is eða með bréfi til embættis sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Lágmarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna í greiðsludreifingu er 10.000 krónur og má dreifa greiðslunum á allt að 12 mánuði. 

Hægt er að sækja um lengri greiðslufrest við sérstakar aðstæður.

Athugið að hægt er að greiða kröfu á bankareikning 0159-26-267, kennitala 660914-0990. Tilgreina þarf kennitölu og nafn skuldara við greiðslu í banka.
Þá er einnig hægt er að greiða með greiðslukorti.

Vararefsing

Ef krafan fæst ekki greidd með innheimtuaðgerðum eins og fjárnámi eða nauðungarsölu, tekur sýslumaður á Norðurlandi vestra ákvörðun um hvort vararefsingu sektar verði beitt.  Aðalrefsingin er þá fjársektin en vararefsingin er afplánun í fangelsi eða með samfélagsþjónustu.

Vararefsing kemur aldrei til greina fyrr en innheimtuaðgerðir teljast fullreyndar. 

Afplánun í fangelsi

Hafi sýslumaður tekið ákvörðun um að vararefsing vegna fjársektar skuli afplánuð í fangelsi, fær skuldari boð um það hvar og hvenær hann skuli mæta til afplánunar. Ef viðkomandi mætir ekki á tilsettum tíma og sektin er enn ógreidd, má hann búast við því að vera handtekinn og færður til afplánunar. 

Ef sekt greiðist að fullu fellur krafa um afplánun niður.
Innborgun á sektina fellir ekki niður ákvörðun um afplánun. 

Samfélagsþjónusta

Þeir sem þurfa að afplána vararefsingu vegna fjársekta sem er 100.000 kr. eða hærri, geta sótt um að afplána refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir en mest 480 klukkustundir. Hér má finna nánari upplýsingar um skilyrði afplánunar vararefsingar fjársekta með samfélagsþjónustu.

Umsókn um samfélagsþjónustu sem vararefsingu fjársektar þarf að skila til sýslumanns á Norðurlandi vestra, en það er Fangelsismálastofnun sem metur umsóknina og kannar hvort skilyrði eru uppfyllt og veitir samþykki eða synjar umsókn.

Afplánun í meðferð

Að undangengnu sérfræðiáliti má veita leyfi til afplánunar vararefsingu vegna fjársektar á meðferðarstofnun eða sjúkrahúsi. Fangelsismálastofnun sér um úrvinnslu beiðna, en þær þurfa að berast frá meðferðarstofnuninni sjálfri.

Hámarks lengd afplánunar í meðferð er að jafnaði 10 dagar.

Umsókn um niðurfellingu sakarkostnaðar

Ef fjárhagsaðstæður eru bágar getur skuldari óskað eftir því að sakarkostnaður verið felldur niður. Beiðni um það er beint til sýslumannsins á Norðurlandi vestra.

Athugið að umsóknin er ekki tekin til afgreiðslu fyrr en öllum nauðsynlegum fylgigögnum hefur verið skilað inn. 

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn:

  • Afrit tveggja síðustu skattframtala umsækjanda.

  • Afrit þriggja síðustu launaseðla umsækjanda.

Önnur gögn sem kunna að styðja umsóknina, til dæmis:

  • Vottorð um skólavist ef umsækjandi er í námi.

  • Læknisvottorð ef möguleikar umsækjandans til að afla sér tekna í framtíðinni eru skertir vegna varanlegrar örorku eða veikinda.

  • Vottorð frá Þjóðskrá Íslands um forsjá og lögheimili barns eða barna eða skjal sem sýnir skipan meðlags, það er staðfesting eða úrskurður frá sýslumanni, dómur eða dómsátt.

Umsókn um niðurfellingu sakarkostnaðar kemur ekki í veg fyrir frekari innheimtuaðgerðir, eins og fjárnám, nauðungarsölu eða skráningu á vanskilaskrá. 

Afgreiðslutími

Þegar umsókn og nauðsynlegum fylgigögnum hefur verið skilað inn, má að jafnaði vænta svars fyrir tíunda dag næsta mánaðar. 

Á tímabilinu 1. janúar til 10. mars ár hvert liggur afgreiðsla beiðna um niðurfellingu sakarkostnaðar niðri vegna skila á skattframtölum. Beiðnir eru þá teknar fyrir þegar framtalsfresturinn rennur út og umsækjendur hafa skilað nýju skattframtali. Móttökudagur umsóknar telst þá sá dagur sem framtal umsækjanda berst.

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15