Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Skráning vinnutíma tryggir öryggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi

Atvinnurekendur þurfa að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Liður í því er að hafa góða yfirsýn yfir vinnutíma starfsfólks. Skipulag vinnutíma er einn þeirra þátta sem getur haft áhrif á vellíðan fólks.

Þegar starfsfólk á til dæmis erfitt með að samhæfa vinnu og einkalíf getur það haft í
för með sér streitu.

Það getur gerst þegar:

  • vinnudagarnir verða langir vegna mikillar yfirvinnu

  • vinnutíminn verður ófyrirséður þegar vaktir eru skipulagðar með litlum fyrirvara

  • tíðar breytingar eru gerðar á vinnutíma fólks

Reynslan sýnir einnig að of langur vinnutími og ónóg hvíld eykur hættu á vinnuslysum og óhöppum. Fólk missir einbeitingu við störf sín og það tekur ekki eftir mikilvægum skilaboðum í vinnuumhverfinu.

Styður við góða vinnustaðamenningu

Langvarandi þreyta og streita meðal starfsfólks getur ýtt undir óheilbrigða menningu á vinnustöðum þar sem fólk getur átt erfiðara með samskipti og að vinna að lausn mála. Þess vegna skiptir máli að huga vel að skipulagi vinnutíma og þá ekki síst þegar ungt fólk á í hlut. Ungt fólk er oft ekki með mikla starfsreynslu og er því hættara við að lenda í vinnuslysum og óhöppum en eldra starfsfólki.

Atvinnurekandi þarf því að meta hugsanleg áhrif skipulags vinnutíma á öryggi og vellíðan starfsfólks.

Þá er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Hvernig er vinnutíminn skipulagður?

  • Er jafnvægi milli vinnu og einkalífs?

  • Er hámarksfjöldi vinnustunda og lágmarkshvíldartími virtur?

  • Er yfirvinna fyrir fram skipulögð eða óvænt og tilviljunarkennd?

  • Tekur vaktafyrirkomulag mið af gangi sólar til að minnka áhrif á líkamsklukkuna? (af dagvakt á kvöldvakt, af kvöldvakt á næturvakt, af næturvakt á dagvakt og svo koll af kolli í þessari röð)

Til mikils að vinna

Það er til mikils að vinna að vinnustaðir hafi góða yfirsýn yfir vinnutíma starfsfólks þannig að fyrir liggi upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag.

Þannig tryggjum við bæði öryggi og vellíðan starfsfólks og komum í veg fyrir vinnuslys.

Næst: Kerfi vegna skráningar vinnutíma starfólks

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439