Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks

Allir vinnustaðir eiga að vera með kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks.
Hvernig er skráningu vinnutímans háttað á vinnustaðnum þínum?

Vinnutími starfsfólks er mikilvægur hluti af skipulagi vinnustaða og er einn af þeim sálfélagslegu áhættuþáttum sem þarf að meta í vinnuumhverfinu. Þess vegna þarf að skrá vinnutíma í hlutlægu, áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi innan vinnustaðarins.

Upplýsingarnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki tólf mánuði aftur í
tímann samanber 57. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

Í skráningarkerfum vinnustaða þurfa að vera upplýsingar um:

  • daglegan og vikulegan vinnutíma

  • á hvaða tíma sólarhrings unnið er

  • samfelldan hvíldartíma

  • vikulegan frídag

  • tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag

  • hvort starfsfólk hafi fengið hvíld síðar þegar vikið hefur verið frá reglum

Þannig fá vinnustaðirnir betri yfirsýn yfir vinnutíma starfsfólksins og geta gripið fyrr inn í ef vinnutíminn samræmist ekki vinnutímareglum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  

Vinnuverndarlögin fjalla um skipulag vinnutíma

Þar gildir meðal annars að starfsfólk eigi rétt á: 

  • Að minnsta kosti 11 klukkustunda hvíld á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags. 

  • Hléi ef daglegur vinnutími er lengri en sex klukkustundir. 

  • Að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. 

  • Hámarksvinnutími á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. 

Sérstakar reglur gilda um vinnutíma barna og unglinga.  

Undanþágur geta gilt frá þessum meginreglum sem samið hefur verið um með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins eða í kjarasamningum.

Skráning vinnutíma er mikilvæg fyrir starfsfólk jafnt sem vinnuveitendur. 

Saman tryggjum við að öll komi heil heim starfsævina á enda.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439