Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Vörumst hálkuslys í vetrarfærðinni

2. febrúar 2022

Nú er hávetur og færðin eftir því en við það eykst hætta á hálkuslysum. Starfsfólk fellur við vinnu á útisvæðum eða á leið til og frá vinnu. Vinnueftirlitið vill því hvetja atvinnurekendur til að huga vel að aðstæðum við vinnustaði sína sem geta breyst hratt.

Hefur orðið vinnuslys?

Það er ábyrgð atvinnurekenda að tryggja öruggt vinnuumhverfi og þess vegna þurfa þeir að huga að ráðstöfunum til að minnka líkur á að starfsfólk slasist í hálku. Huga þarf að því að ryðja snjó af gönguleiðum þannig að hann safnist ekki upp og salta eða sanda til að koma í veg fyrir að hálka myndist. Aðstæður kalla oft á hröð viðbrögð atvinnurekenda til að koma á hálkuvörnum enda geta skilyrði breyst mjög hratt og þá sérstaklega þegar umhleypingar eru í veðri. Þá er mikilvægt að starfsfólk taki einnig virkan þátt með atvinnurekendum í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Jafnframt þarf að huga að skóbúnaði starfsfólks, en skór sem notaðir eru við vinnu þar sem hætta er á að hálka myndist eiga að vera með stama sóla til að draga úr líkum á að starfsfólk renni við þessar aðstæður. Þegar unnið er í hæð utan húss þarf sérstaklega að huga að hálkuvörnum og gæta þess að réttur fallvarnarbúnaður sé notaður.

Hvað forvarnir varðar er alltaf fyrsti kostur að fjarlægja hættuna. Af eðlilegum ástæðum er ekki hægt að koma í veg fyrir óhagstæð veðurskilyrði á útisvæðum á veturna og því nauðsynlegt að moka, salta eða sanda.

Þegar áhættumat á vinnustöðum fer fram þarf að meta áhættuna vegna þeirrar hálku sem gæti myndast á einstökum svæðum og þá sérstaklega við varasamar aðstæður eins og við vinnu í hæð. Þegar matið liggur fyrir þarf að bregðast við með því að koma á nauðsynlegum forvörnum til að fyrirbyggja að slysin verði og til að starfsfólk upplifi sig öruggt í vinnuumhverfi sínu. Þannig má tryggja gott starfsumhverfi, vellíðan á vinnustað og að allir komi heilir heim.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439